Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 19:43:00 (3616)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta skal vera örstutt. Ég hjó eftir því í ræðu ráðherra hér áðan og ég hef reyndar heyrt hann margsegja það að hann telji ekki rétt að stjórnvöld stýri námsvali með því að mismuna og þá á hann við það að í núgildandi kerfi geta námsmenn undir 20 ára aldri fengið lán ef þeir eru í verknámi en ekki ef þeir eru í bóknámi.
    Nú er það mín skoðun og ég held að við getum verið nokkuð sammála um það að það eru ekki stjórnvöld sem stýra valinu í dag með námslánum, það er gildismatið í samfélaginu sem stýrir valinu og það stýrir inn í bóknámsgreinarnar vegna þess að það er almennt talið í samfélaginu að andleg mennt sé göfugri en verkleg. Ég hef litið svo á að stjórnvöld væru að reyna að vinna gegn þessari stýringu með því að bjóða fólki sem fer í verknám námslán til þess m.a. að fá fyrr út á vinnumarkaðinn vel menntað starfsfólk í verklegum greinum og ýta undir verkmenntun í landinu. Það hélt ég að væri meiningin með þessu.