Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:34:00 (3620)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. hefur borið fram þrjár spurningar varðandi Sementsverksmiðjuna. Í fyrsta lagi er spurt hvort fyrirhugað sé að selja hlutabréfin í verksmiðjunni á almennum markaði verði hún gerð að hlutafélagi. Svar mitt við þeirri spurningu er að eins og vel er kunnugt hefur ríkisstjórnin á sinni stefnuskrá að selja ríkisfyrirtæki eins og hér er um að ræða og því hlýtur sala bréfa í verksmiðjunni að koma til greina á kjörtímabilinu. Þar kemur bæði til álita sala hlutabéfa til að afla fyrirtækinu aukins eigin fjár og einnig sala á hlut ríkisins í félaginu.
    Í frv. um þetta efni sem hefur verið til umfjöllunar á nokkrum undanförnum þingum og nú hefur enn verið endurflutt er lagt til að samþykkt Alþingis sé áskilið við sölu hluta í verksmiðjunni. Að sjálfsögðu er áfram ætlunin að þannig verði búið um hnútana.
    Fyrirspyrjandi spyr líka um það á hve löngum tíma sé fyrirhugað að selja hlutaféð og hvort til greina komi að selja verksmiðjuna í einu lagi. Ég tel að komi til sölu hlutabréfa í verksmiðjunni, og það

er að sjálfsögðu háð ákvörðun Alþingis, eigi að reyna að ná tveimur markmiðum. Í fyrsta lagi þurfi ríkissjóður að fá sannvirði fyrir þessa eign sína og í öðru lagi að stuðla að sem jafnastri og sem mestri dreifingu eignaraðildar í fyrirtækinu. Um framkvæmdaratriði í málinu ætla ég ekki að segja neitt að þessu sinni. Þegar heimild Alþingis liggur fyrir mun m.a. verða haft samráð við verðbréfafyrirtæki og banka og síðan ákveðið hvernig nánar verði staðið að málinu í því skyni að ná þessum markmiðum. Ég bendi líka á að ríkisstjórnin hefur sett sérstaka nefnd til að samræma aðferðir við sölu ríkiseigna og þar mun þetta mál líka koma til álita.
    Þá var í þriðja lagi spurt hvaða breytingum sé ætlað að ná fram með sölu hlutafjár í verksmiðjunni. Ég svara því þannig að í fyrsta lagi sé afar mikilvægt að breyta verksmiðjunni í hlutafélag, m.a. af ástæðum sem hv. fyrirspyrjandi nefndi. Verði síðan tekin ákvörðun um að selja hlutafé í verksmiðjunni getur það verið gert í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi, eins og ég hef þegar nefnt, til þess að afla fyrirtækinu aukins eigin fjár og um leið minnkar hlutur ríkisins þótt það selji ekki eign sína í fyrirtækinu eins og hún er nú. Í öðru lagi getur ríkið að sjálfsögðu ákveðið síðar að selja hlut sinn ef fyrirtækinu hefur verið breytt í hlutafélag til þess að afla fjár og að hætta afskiptum af sementsframleiðslunni. Það er vissulega ekki svo eins og fyrirspyrjandi lét að liggja að hér ráði einhver skammtímavandamál í ríkisbúskapnum. Það sést best af því að frv. hefur verið flutt ítrekað á mörgum þingum við mismunandi aðstæður í ríkisfjármálum. Hins vegar er það mín skoðun að ríkissjóður hafi með Sementsverksmiðjunni byggt upp blómlegt fyrirtæki og nú sé kominn tími til að ríkið dragi sig í hlé og láti aðra aðila um að reka hana ef það getur gerst með þeim hætti sem gæti vandlega hagsmuna skattborgaranna.
    Þá vil ég líka nefna það vegna þess sem fram kom hjá fyrirspyrjanda að auðvitað eru í gildi í landinu lög um óréttmæta viðskiptahætti og alls ekki hægt að lýsa aðstæðum svo að neytendur séu gjörsamlega óvarðir fyrir einokunaraðilum. Vandamál sem kynnu að koma upp vegna sterkrar stöðu Sementsverksmiðjunnar á markaði af því að hún nýtur fjarlægðarverndar yrði að leysa á grundvelli laga um samkeppnismál. Á vegum ríkisstjórnarinnar er í bígerð að flytja frv. til nýrra samkeppnislaga sem mundu færa íslenska löggjöf í fremstu röð löggjafar á því sviði í þeim löndum sem við höfum nánastan samgang við.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að segja fleira að sinni og vonast til að þetta hafi svarað spurningunum þremur.