Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:44:00 (3624)



     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ljóst er af þeim svörum sem hér hafa verið gefin að markmiðið með því að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag er í raun og veru ekkert annað en þær gömlu trúarkreddur sem ákveðnir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa tekið ástfóstri við sem er það að allt sem heitir hlutafélag er betra en allt það sem ríkið hefur verið með. Ég vara við þessu sjónarmiði, að afhrópa alla þá starfsemi sem ríkið hefur haft með höndum og koma því inn hjá þjóðinni að það sé vond starfsemi.
    Ég vil segja um þessa breytingu að einmitt sú staðreynd að innflutningur hefur verið frjáls en enginn innflutningur verið segir okkur að þetta fyrirtæki muni sitja eitt að markaðnum. Þeir munu kaupa það sem hefðu annars orðið innflytjendur og höndlarar með innflutt sement. Auðvitað reka þeir þetta fyrirtæki með allt öðru markmiði heldur en Sementsverksmiðjan er rekin í dag. Fyrst og fremst mun sú breyting tefla í tvísýnu hagsmunum landsbyggðarinnar, virðulegi forseti. Ég minni á að flutningsjöfnun á sementi hefur verið um allt land, a.m.k. til skamms tíma og er kannski enn.