Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:48:00 (3627)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Mér er fullljóst að verið er að tala um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag. Hins vegar verður það að vera fullkomlega ljóst hvaða hagræðingu menn ætla að ná með því. Ekki er hægt að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag og segja bara: Af því bara. Það eru trúarbrögð. Hvaða hagræðing á að nást með slíku? Ég man eftir því í efri deild fyrir nokkrum árum að ég hjálpaði þingmönnum Vesturlands við að fella frv. um Sementsverksmiðjuna. Ég man að hæstv. umhvrh. var þá ákaflega glaður yfir þeirri liðveislu. ( EGuðn: Það var svo vitlaust frv.) Mér er spurn: Hvað hefur breyst síðan?
    En eitt að lokum. Það verður náttúrlega að vera fullkomlega ljóst að hér vantar algerlega reglur um sölu hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum. Áður en menn fara inn á þessa braut þá verða slíkar reglur að vera til. Það vantar alveg inn í þetta dæmi.