Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:53:00 (3630)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Herra forseti. Í fréttatilkynningu frá Verðlagsstofnun, dags. 4. febr. 1992, kemur fram að eftir að Verðlagsstofnun hafði kannað verðlag á matvörum í matvöruverslunum vítt og breitt um landið kom í ljós að mismunur á verðlagi á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hafði hækkað frá því í október 1989 úr 3,8% í 4,9%. Þessi þróun um aukinn verðmun á nauðsynjavörum milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar veldur sannarlega miklum áhyggjum. Það er líka ástæða til að spyrja hvort ríkisstjórnin sjái ekki að það er kominn tími til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stemma stigu við þessari þróun. Hærra verðlag á nauðsynjavörum á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið skapar aðstöðumun sem erfitt er að líða.
    Upplýsingar hafa einnig komið fram um það að hugsanlega njóti smásöluverslunin á landsbyggðinni verri viðskiptakjara í viðskiptum við heildsala á höfuðborgarsvæðinu. Flutningskostnaður réttlætir ekki eins mikinn verðmun á nauðsynjavörum milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og raun ber vitni. Það er rétt að smásöluverslunin á landsbyggðinni á víða við mjög mikla erfiðleika að stríða. Meðaltalstölur segja ekki alla söguna, sérstaklega á smærri stöðum þar sem kannski er ein verslun og hún berst í bökkum eins og komið hefur fram.
    Einnig kemur fram í fréttatilkynningu frá Verðlagsstofnun að þessi munur á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar er mismunandi eftir kjördæmum. Hann kemst upp í það að verðlag er um 9% hærra á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu og 6,2% hærra á Austurlandi en á höfuðborgarsvæðinu. Þarna tek ég tvö dæmi. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. viðskrh.: Hyggst ríkisstjórnin grípa til sértakra ráðstafana til þess að hamla gegn verðmun á nauðsynjavörum á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og í hverju yrðu slíkar ráðstafanir fólgnar?