Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:56:00 (3631)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forsti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Austurl., hefur komið í ljós í víðtækum verðkönnunum sem Verðlagsstofnun hefur gert, einkum í matvöruverslun á síðustu árum, að verðmunur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar í þessari verslunargrein hefur farið nokkuð vaxandi. Þar má nefna að meðaltölurnar í þessu, sem ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að segi ekki alla sögu, voru þær að þessi verðmunur var í október 1989 3,8% en 4,9% í október 1991. Hverjar skyldu vera skýringarnar á þessu? Þær eru að sumu leyti augljósar. Samkeppni á milli verslana á höfuðborgarsvæðinu er mun meiri en víðast utan þess og hún hefur leitt til hlutfallslegrar lækkunar á verðlagi í Reykjavík og nágrannabyggðum. Ég leyfi mér að halda því fram að á undanförnum árum hafi þessar breytingar fyrst og fremst verið þannig að aukin samkeppni hafi lækkað verð á þéttbýlisstöðunum.
    Stærð markaðarins á höfuðborgarsvæðinu og nálægð verslana þar við þorra innflytjenda og innlenda framleiðendur leiðir líka til þess að flutningskostnaður leggst ekki ofan á vöruverðið á höfuðborgarsvæðinu í sama mæli og þegar er farið út um land. Verðlagsstofnun bendir líka á að miklu minni verðbólga á síðustu missirum hafi leitt í ljós aukinn verðmun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, en skýringin á því er auðvitað sú að veltuhraði vörubirgða úti um land er mun minni en á höfuðborgarsvæðinu. Af þeirri ástæðu er gjarnan eldra verð í birgðunum úti á landi. Þegar verðbreytingar voru miklar, verðbólga ör, var verð á eldri birgðum lægra en verð á nýjum vörubirgðum. Tregðulögmálið olli því að þetta dró úr hinum almenna verðmun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis sem núna hefur komið betur í ljós við kyrrari kjör. Hins vegar er lítill sem enginn munur á nýjum birgðum og eldri birgðum við núverandi aðstæður vegna þess að verðlag á matvöru hefur lítið sem ekkert hækkað og í sumum tilfellum lækkað núna hin síðustu missiri.
    Önnur ástæða fyrir auknum verðmun á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins er m.a., eins og ég hef þegar nefnt, síaukin samkeppni á höfuðborgarsvæðinu sem hefur leitt til aukins afsláttar sem verslanir á því svæði fá frá framleiðendum og heildsölum. Aukin umsvif umboðs- og heildverslana úti um land eru líka að áliti Verðlagsstofnunar ein af ástæðunum fyrir hækkandi vöruverði þar. Þar má t.d. nefna að dreifbýlisverslunum er í mörgum tilfellum meinað að kaupa inn beint frá framleiðendum eða innflytjendum heldur er þeim gert að kaupa af umboðsmanni í héraði. Á þessum aðstæðum fer nú fram athugun og Verðlagsstofnun vinnur að því að kanna hvort óeðlileg mismunun kunni að eiga sér stað í afsláttarkjörum hjá þeim sem versla hjá framleiðendum og heildsölum hér og úti um land. Jafnframt hef ég beðið stofnunina að kanna áhrif umboðsverslunar á landsbyggðinni á vöruverð. Það hafa þegar verið lögð fram gögn í málinu og drög að þessari vinnu og að henni verður áfram unnið og reynt að þrýsta þar á að innkaupsverð til dreifbýlisverslananna verði hagstæðara.
    Þá vil ég líka láta það koma fram að viðskrn. hefur látið gera sérstaka úttekt á vandamálum dagvöruverslunarinnar í strjálbýli og byrjað á því að taka fyrir dagvöruverslun á Vestfjörðum en eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda þá er verðmunur á höfuðborgarsvæði og Vestfjörðum mestur í samanburði við önnur svæði á landinu. Af þeirri úttekt, sem þegar liggur fyrir, er mjög ljóst að víða eru þarna miklir erfiðleikar að halda uppi þessari nauðsynlegu þjónustu og þrátt fyrir hærra vöruverð en í stórmörkuðum höfuðborgarsvæðisins á verslunin á Vestfjörðum við mikla fjárhagserfiðleika að stríða. Ég ráðgeri á næstunni sérstakan fund viðskrn. með verslunareigendum, fulltrúum sveitarstjórna og fleiri aðilum í því skyni að leita lausnar á þessum vanda, sérstaklega fyrir Vestfirði. Þess er vænst að við finnum þar einhverjar þær lausnir sem einnig gætu átt við í öðrum landshlutum. Einkum er ég þar með í huga ráðgjöf, samstarf um innkaup og fleira af því tagi en ráðuneytið hyggst síðar gera sams konar úttekt á dagvöruverslun á öðrum landsvæðum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari a.m.k. að nokkru þeirri spurningu sem hér var fram borin.