Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:01:00 (3632)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli sem vissulega er brýnt. Svör ráðherra voru á þann veg að þau voru upptalning á því af hverju þessi verðmunur stafaði. Það eru engin tíðindi fyrir okkur. Við viljum frekar vita hvort ríkisstjórnin hugsar sér að gera eitthvað í þessu máli. Að gera úttekt og halda fund á næstunni er góðra gjalda vert. En hins vegar er veruleikinn þannig að ríkisstjórnin hefur gert sitt til að auka þennan verðmun með því t.d. að fella niður alla flutningsstyrki út á land, með því að leggja á hafnagjald og vörugjald sem margfaldar þennan kostnað og margfaldar þennan verðmun. Þetta er veruleikinn sem menn búa við. Síðan er hægt að halda fundi með sveitarstjórnarmönnum og athuga hvað er hægt að gera. Ég held að það væri nærtækast að afturkalla þær nýju álögur sem lagðar hafa verið á dreifbýlisverslunina. Ég held að það væri gott að byrja á því, hæstv. viðskrh.