Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:07:00 (3636)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skil vel óþolinmæði þeirra þingmanna úr landsbyggðarkjördæmunum sem hér hafa talað en vil þó beina því til þeirra að það er mjög mikilvægt að fá réttan skilning á þessum vanda og til þess þarf kannanir hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt. Á ég þar sérstaklega við orð hv. 2. þm. Austurl. Það er fráleitt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi staðið fyrir, eins og hann sagði, að fella niður alla flutningsjöfnun í landinu. Þetta er fjarstæða og þingmaðurinn hlýtur að vita betur. Á borðum þingmanna liggur nú tillaga um flutningsjöfnun á olíuvörum. Það er enn í gildi flutningsjöfnun á sementi og ég vil leyfa mér að láta í ljós þá skoðun að aukin hagkvæmni í strandflutningunum kunni að draga úr flutningskostnaði þegar fram í sækir, m.a. vegna samruna Ríkisskipa og Samskipa.
    Það er líka fjarstæða sem þingmaðurinn hélt fram að nýjar álögur hefðu verið lagðar á landsbyggðarverslunina. Hann getur alls ekki fundið þeim orðum sínum stað þótt ég skilji vel að í hita leiksins finnist honum þetta hljóma vel. En þetta er ósatt.
    Ég vildi líka láta það koma fram að ég vonast til þess að eiga gott samstarf við Byggðastofnun og ekki síst formann stjórnar þeirrar stofnunar um þetta byggðaverkefni. Honum verður sannarlega boðið til þeirra funda sem til verður stofnað í kjördæmi hans, Vestfjörðum, til þess að ræða vanda dagvöruverslunar í þeim strjálbýlu héruðum. Það er yfirboð og sýndarmennska að halda því fram að ríkið eigi að veifa einhverjum töfravendi til þess að breyta þessu máli. Þingmenn verða í þessu efni eins og öðrum að sætta sig við að það er skynsamlegt að leita hagkvæmni eftir farvegum markaðarins en jöfnuðar eftir öðrum leiðum og þar kemur til kasta þingsins að ákveða hversu miklu fé menn eru fúsir til að verja til þess. En menn eiga ekki að leita jöfnuðar í hverri einustu úrlausn í atvinnulífinu. Þar þurfum við fyrst og fremst að leita hagkvæmi og þetta tvennt rekst yfirleitt alls ekki á. Þvert á móti er oftast nær hægt að finna lausnir sem eru bæði hagkvæmar og réttlátar með því að sérhæfa þær á sínu sviði.