Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:10:00 (3637)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þm. sem hafa lagt þessu máli lið. Það má sannarlega um það deila hvernig túlka megi svör ráðherrans en meginmálið er þetta: Hvenær má þess vænta að það sem ráðherrann ætlar að gera skili árangri? ( Gripið fram í: Hvað ætlar hann að gera?) Hvenær má þess vænta að við fáum að sjá verðmun á verðlagi á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar minnka? Er óhætt að gefa hæstv. ráðherra kannski sex mánuði, sjö eða átta mánuði til þess að sýna þennan árangur? Það er náttúrlega það sem skiptir máli. Ef árangur sést ekki þá, þá tel ég nauðsynlegt að það verði íhugað gaumgæfilega að grípa til nýrrar löggjafar sem tryggi með einhverjum ráðum jöfnun á verðlagi á nauðsynjavörum á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Frjáls samkeppni leysir ekki alla hluti. Við verðum að taka tillit til þess að það býr fólk í þessu landi og þau kerfi, sem við veljum okkur til þess að lifa við, eru ekki svo heilög að ekki megi breyta þeim ef við getum hugsað okkur að fólki líði betur

við önnur kerfi. Ég held að við þurfum að taka tillit til þessa þegar við erum að ræða jafnmikilvægt mál sem er nú kannski mál málanna. Það er verðlagið á þeim vörum sem við kaupum.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að ef við ætluðum bara að miða við verðlag í stórmörkuðunum í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við verðlag í smásöluverslunum á landsbyggðinni, þá er um 10% mun að ræða. Og ef þessi þróun heldur áfram sem horfir þá getum við verið að tala um 20% mun hér á næsta eða þar næsta ári ef ekki verður gripið til afgerandi aðgerða. Ég trúi ekki öðru en að ráðherra sé þessi vandi ljós og ætli sér að taka hraustlega á þessu máli ella verðum við hér í þinginu að grípa til sérstakra aðgerða með nýrri löggjöf.