Gjafakort sem heimila líffæraflutninga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:22:00 (3643)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans þótt ég hafi vissulega gert mér vonir um að ákveðnari afstaða lægi fyrir. Ég tel það ekki rétt að einstaklingum eða félagasamtökum sé gefin frjáls heimild til þess að hefja útgáfu og dreifingu svokallaðra gjafakorta vegna líffæraflutninga vegna þess að ég tel að eðli málsins samkvæmt þurfi slík útgáfa og dreifing að vera undir eftirliti og samkvæmt ákveðnum reglum sem heilbrigðisyfirvöld setja.
    Viðbrögðin við kortadreifingu Snorra Ólafssonar, sem reyndar á dóttur sem nú dvelur á sjúkrahúsi í London þar sem hún bíður eftir líffærum, lungum og hjarta, hafa verið svo mikil að það sýnir að Íslendingar vilja gjarnan bera slík kort á sér og gefa líffæri eftir andlát sitt ef það megi verða öðrum til bjargar. Ég get hins vegar ekki hugsað mér að það gerist að líffærakort eða gjafakort vegna líffæraflutninga séu t.d. meðal ýmissa spjalda eða korta sem maður sér liggja frammi í hinum ýmsu opinberu stofnunum eða bankastofnunum landsins og þar geti bæði börn og kannski aðrir, sem vita ekki hvað um er að ræða, tekið og gengið með á sér. Þessi kort verður að undirrita og í flestum tilvikum eru settar ákveðnar reglur um aldur þess sem undirritar og jafnframt er það gert undir eftirliti eða eftir heimild frá lækni þannig að ég teldi að þetta þyrfti að gerast eftir ákvörðun ráðuneytis.