Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:28:00 (3646)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. spyr um veðurathuganir við strönd Austurlands. Veðurathuganir féllu niður á Kambanesi um síðustu áramót þegar vitinn þar varð sjálfvirkur og starf vitavarðar var lagt niður en vitavörðurinn annaðist jöfnum höndum vitavörslu og veðurathugun. Óvíða er búseta á ystu annesjum og þess vegna var úr vöndu að ráða fyrir Veðurstofuna þegar þessar athuganir féllu niður. Það varð að ráði að setja upp veðurstöð á Núpi á Berufjarðarströnd sem er næsti bær innan við Streiti en á Streiti er ekki föst búseta. Athuganir á Núpi hófust 23. jan. og daginn eftir var byrjað að lesa veðurfregnir þaðan í útvarpi. Athugunartímar eru þeir sömu og áður voru á Kambanesi, þ.e. kl. 6, 9, 12, 18 og 21.
    Núpur er mjög miðsvæðis milli veðurstöðvanna Dalatanga og Hjarðarness í Hornafirði og að því leyti heppilegur athugunarstaður að mati Veðurstofu. Stöðin er fyrir opnu hafi og því ættu sjólagsathuganir að vera allvel marktækar. Hins vegar ber að viðurkenna að Kambanes er betur sett en Núpur vegna vindmælinga til leiðbeininga fyrir sjómenn. Af þeirri ástæðu og til að koma til móts við óskir sjómanna og annarra aðila um áframhaldandi veðurathuganir á Kambanesi hefur veðurstofan ákveðið að gera tilraun með sjálfvirkar mælingar á vindátt, vindhraða og lofthita á Kambanesi allan sólarhringinn. Á þessu eru þó ýmsir erfiðleikar, bæði fjárhagslegir og tæknilegir enda var ekki gert ráð fyrir þessari starfsemi í fjárhagsáætlun. Starfsmenn tæknideildar Veðurstofu hafa sett upp nauðsynleg mælitæki á Kambanesi og þar hófust tilraunamælingar 25. jan. Mjög æskilegt hefði verið að fá viðbótar símanúmer til að koma þessum athugunum inn á gagnanet Landsímans en því fylgir allnokkur kostnaður og fyrst í stað verður því notaður farsími við þessar tilraunasendingar. Reynslan verður að skera úr um hvernig tekst til með þessa sjálfvirku veðurstöð og mæta þarf nokkrum rekstrar- og viðhaldskostnaði auk stofnkostnaðar sem er um 800 þús. kr.

    Skeytasendingar frá þessari nýju stöð á Kambanesi eru nú komnar í allgott horf. Vind- og hitamælingar koma reglulega á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn og ekki annað að sjá en að þeim beri vel saman við skeyti frá nálægum stöðvum eftir því sem við er að búast og þetta eru upplýsingar frá Veðurstofu Íslands frá því í gær. Þó telja Veðurstofumenn að skeytasendingarnar séu enn á tilraunastigi. Skeytum frá Kambanesi er útvarpað klukkan 6.45, 10.10 og 18.45 og að auki klukkan 1 að nóttu.
    Nýja stöðin að Núpi reynist ekki síður en vænst var og skeytin eru lesin í útvarp þaðan þrisvar á dag eins og var um veðurfregnir frá Kambanesi fyrir breytinguna. Það er von Veðurstofu Íslands að með þessum aðgerðum verði sómasamlega bætt fyrir þá skerðingu veðurathugana sem varð þegar búseta á Kambanesi vegna vitavörslu lagðist niður.
    Það er rétt í þessu sambandi, ekki aðeins að því er varðar þetta landssvæði, að benda á að verði framhald á því að vitavarsla verði skert í sparnaðarskyni þá mun það auðvitað gera Veðurstofunni erfiðara fyrir um veðurathuganir á annesjum. Við því verður reynt að bregðast með öllum tiltækum ráðum og til þess þarf þá aukið fjármagn en þjónusta við sjómenn er auðvitað einn allra þýðingarmesti þátturinn í starfsemi Veðurstofunnar, bæði af öryggis- og hagkvæmniástæðum.
    Vona ég þá að þessari fsp. hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sé svarað.