Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:39:00 (3650)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið er rétt að ítreka það að þessi starfsemi á Kambanesi er á tilraunastigi og að sjálfsögðu er rétt og skylt að meta málið að nýju þegar meiri reynsla er á það fengin. Hins vegar er það nú svo eins og hv. fyrirspyrjandi þekkir áreiðanlega mætavel að vindmæling á landi segir ekki allt um vind á sjó. Í fyrradag mældist 15 hnúta vindur á Kambanesi, skip á siglingaleið þar skammt fyrir utan mældi hins vegar 30 hnúta vind. Þannig að þó að mikilvægar upplýsingar fáist á slíkri veðurathugunarstöð skiptir auðvitað líka máli að góð tengsl séu við þá farmenn og sjómenn sem eru á miðunum og gefa þaðan upplýsingar.
    Ég hygg að við munum standa andspænis svipuðum vandamálum víðar eftir því sem sjálfvirkni í vitakerfinu verður aukin og störf vitavarða lögð niður og þá kemur auðvitað til álita hvort launa eigi sérstaka veðurathugunarmenn á þessum stöðum. Talið er að því fylgi meiri kostnaður en sjálfvirkum búnaði en auðvitað gefur sjónmat miklu meiri og öðruvísi upplýsingar í flestum tilvikum en hin sjálfvirku mælitæki geta gert. Þá held ég að menn þurfi líka að búa sig undir það sem mér finnst raunar athugunarefni að þá þarf að afla Veðurstofu Íslands aukinna tekna til að standa undir auknum kostnaði og sjálfsagt hljóta að koma þar til álita eins og með marga aðra þjónustu að notendur greiði a.m.k. hluta þjónustunnar.