Úrræði fyrir vegalaus börn

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:42:00 (3651)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. 5. febr. 1990 skilaði starfshópur áliti um málefni vegalausra barna. Í starfshópnum voru Arthur Morthens, Gunnar Sandholt, yfirmaður fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, Ingvar Kristjánsson geðlæknir, Halla Þorbjörnsdóttir barnageðlæknir og Víðir Kristinsson, forstöðumaður sálfræðideildar skóla, en Arthur Morthens er sérkennslufulltrúi á fræðsluskrifstofu Reykjavíkur.
    Niðurstaða hópsins var sú að hann lagði fyrir ríkisstjórnina tillögu um málið þar sem megináhersla er lögð á að stofnuð verði tvö meðferðarheimili fyrir vegalaus börn þar sem verði möguleiki á vistun í allt að tvö ár, en auk þess yrði stofnað fjölskylduheimili fyrir svokallaða langtímavistun.
    Niðurstaðan varð sú að þetta mál færi til meðferðar í félmrn. og af þeirri ástæðu hef ég lagt fyrirspurnir hér fyrir hæstv. félmrh. í fjórum liðum:
  ,,1. Hve mörg börn eru talin ,,vegalaus`` að mati félagsmálaráðuneytisins?
    2. Hvar eru þau börn aðallega vistuð um þessar mundir?
    3. Hvaða úrræði eru nauðsynleg að mati ráðherra til þess að koma til móts við þarfir þessara barna?
    4. Hvaða áform eru á döfinni af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum?``
    Hvaða börn eru vegalaus? Það eru börn sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Samkvæmt íslenskri málvenju er langbest að orða það þannig. Skilgreiningin sem notuð var í starfi nefndarinnar var þessi:
    Í fyrsta lagi börn sem eiga enga trausta forsjáraðila. Í öðru lagi börn sem eiga við geðræna og félagslega erfiðleika að stríða. Í þriðja lagi börn sem eiga við svo alvarlega hegðunarörðugleika að etja að fósturheimili megna ekki að taka við þeim eða sinna þeim. Í fjórða lagi börn sem eiga við að stríða mikla náms- og félagslega örðugleika í skóla. Talað er um að þau börn sem hér um ræðir séu á aldrinum 7--12 ára.
    Þær tölur sem heyrst hafa um fjölda þessara barna eru mismunandi. Menn hafa talað um allt að 200 börn í þessu sambandi og án þess að það liggi út af fyrir sig fyrir nákvæm rannsókn á því er fullkomlega ljóst að um er að ræða allmarga tugi barna sem ekki er hægt að koma neins staðar fyrir samkvæmt venjulegum vistunarúrræðum í þessum efnum. Stjórnvöld, hvort sem þau eru á vegum menntmrn., félmrn., heilbrrn. eða sveitarfélaga kunna engin úrræði í þessu efni vegna þess að ekki hefur verið tekið skipulega á málinu af því fyrst og fremst að þessi málefni ganga þvert á ráðuneyti og heyra undir margar og mismunandi stofnanir.
    Félagið Barnaheill hefur ákveðið að efna til söfnunar núna á útmánuðum fyrir meðferðarheimili í þágu vegalausra barna. Frá því er skýrt í síðasta tímariti Barnaheilla sem kom út núna í desembermánuði þar sem formaður samtakanna, Arthur Morthens, skýrir frá því hvaða hugmyndir eru þarna á ferðinni. Um leið og ég legg þessar fyrirspurnir fyrir hæstv. félmrh. vil ég bæta þeirri fyrirspurn við hvort hugsanlegt sé að ríkið muni koma til móts við þetta söfnunarátak með beinum hætti að því er varðar stofnkostnað og síðar að því er varðar rekstrarkostnað þessa meðferðarheimilis fyrir vegalaus börn.