Staðfesting alþjóðasamþykktar um jafnrétti karla og kvenna

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:04:00 (3656)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur beint til mín fsp. á þskj. 413 um það hvort félmrh. hyggist beita sér fyrir að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum verði staðfest af ríkisstjórn Íslands, eins og segir í fyrirspurninni. Ég vil fyrst geta þess að Alþjóðavinnumálastofnunin eða réttara sagt Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt samtals 172 alþjóðasamþykktir. Af þessum samþykktum eru tvær sem sérstaklega fjalla um jafnrétti karla og kvenna. Önnur þeirra er nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Hin er nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Ísland hefur fullgilt báðar þessar samþykktir og gefur félmrn. alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra eins og fram kemur í árlegri skýrslu félmrh. til Alþingis.
    Þriðja samþykktin sem hér er til umfjöllunar er alþjóðasamþykkt nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem er hið rétta heiti samþykktarinnar í íslenskri þýðingu, og Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi árið 1981. Þessi samþykkt hefur verið til umfjöllunar í þríhliða samstarfsnefnd félmrn. og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins sem fjalla um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Árið 1988 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að setja lög til að framfylgja ákvæði 8. gr. samþykktarinnar en þar er kveðið á um það að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs. Á Íslandi eru aðstæður þannig að ekki þarf að gefa upp ástæður uppsagnar.
    Ég vil upplýsa það að haustið 1990 var tekin saman skrá yfir nokkrar alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar með fullgildingu að markmiði. Samþykkt nr. 156 var á þeirri skrá. Þann vetur varð þó að ráði að leggja áherslu á fullgildingu alþjóðasamþykktar sem snertir öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Frá því þetta gerðist hef ég síðan skipað landsnefnd sem vinnur að undirbúningi að alþjóðaári fjölskyldunnar 1994 sem Sameinuðu þjóðirnar standa að. Í landsnefndinni eiga m.a. sæti fulltrúar heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og fjölmargra samtaka er láta sig fjölskyldumál varða. Nefndin hefur afar víðtæk markmið sem m.a. felur í sér að styrkja fjölskylduna á þann hátt að hún geti betur annast meðlimi sína samhliða atvinnuþátttöku. Landsnefndin hefur víða skilgreiningu á fjölskyldunni til hliðsjónar þannig að hinar mismunandi fjölskyldugerðir eru teknar með í allri undirbúningsvinnu. Hins vegar hefur verið ákveðið að huga sérstaklega að barnafjölskyldum með það að markmiði að auðvelda þeim að annast ung börn sín ásamt því að taka þátt í atvinnulífinu. Framangreind alþjóðasamþykkt ILO tekur til vinnandi kvenna og karla sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum á sínu framfæri þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra undirbúnings þátttöku eða frama í atvinnulífinu. Ákvæðin taka einnig til þeirra sem hafa skyldum að gegna gagnvart nánum vandamönnum, þ.e. þeirra sem greinilega þarfnast umönnunar. Starfshópur innan landsnefndarinnar er að huga að lögum og reglugerðum sem áhrif hafa á fjölskyldulíf og hefur hann fengið samþykktina til athugunar.
    Ég vil vekja athygli á 9. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt henni má ná markmiðum samþykktarinnar m.a. með setningu laga og ákvæða í kjarasamningum þótt enn hafi ekki farið fram ítarleg úttekt á því hvaða lögum þurfi að breyta eða hvaða atriði þarfnast sérstakrar lagasetningar. Samkvæmt því sem ég sagði hér áðan er ljóst að ef hrinda á markmiðum hennar í framkvæmd kallar það á samstarf ríkis, sveitarfélaga og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Ég hef einnig óskað eftir því, auk þess sem landsnefndin fjallar nú um þessa samþykkt, að samstarfsnefnd félmrn. og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins, sem fjallar um samskiptin við Alþjóðavinnumálastofnunina, taki á nýjan leik upp þetta mál og þar verði kannaðir möguleikar á því að ná samstöðu um fullgildingu umræddrar samþykktar sem fyrirspyrjandi spyr hér um og fyrir mig verði lagt hvaða lagabreytingar þarf að gera til að við getum fullgilt umrædda alþjóðasamþykkt.