Staðfesting alþjóðasamþykktar um jafnrétti karla og kvenna

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:10:00 (3658)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða sennilega eitt allra stærsta mál sem komið hefur fyrir þingið mjög lengi vegna þess að ef á þessum málum yrði tekið mundi það sjálfsagt breyta þjóðfélaginu meira en mjög margt annað. Ef víðtæk samstaða næðist um að þjóðfélagið, vinnumarkaðurinn sérstaklega, viðurkenndi fjölskylduábyrgð, þá værum við í allt öðru þjóðfélagi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt sem fram kom í máli hæstv. félmrh. og vil þakka henni fyrir góðar undirtektir og skilning á þessu máli. Ég vek athygli á því sem hún sagði að í rauninni þyrfti að breyta lögum að hluta til, sérstaklega vegna 8. gr. þar sem segir: ,,Fjölskylduábyrgð sem slík skal ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs.`` Það væri byltingarkennd breyting ef þetta tæki gildi. Og ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hvort ætlunin er í þessum þríhliða viðræðum við aðila vinnumarkaðarins að taka á þessu máli í því skyni að breyta lögunum um uppsagnir verkafólks og rétt verkafólks við uppsagnir. Það er auðvitað alveg augljóst að eins og sakir standa eru þau lög mjög rúm og menn geta sagt upp fólki svo að segja að ástæðulausu eða án þess að gefa upp

ástæðu. Ég er sannfærður um að ef þetta ákvæði væri bundið í lög mundi það breyta mjög miklu að því er varðar stöðu fólks á vinnumarkaði en þó alveg sérstaklega að því er varðar stöðu fjölskyldunnar yfirleitt.
    Ég vil einnig leyfa mér að inna hæstv. félmrh. eftir því hvað líður starfi fjölskyldunefndar, vegna árs fjölskyldunnar, og spyrja að því hvort það er hugsanlegt að einhver bráðabirgðaskýrsla eða skýrsla um áform nefndarinnar komi til umræðu á Alþingi þannig að við getum áttað okkur á því strax á þessu ári hvað ætlunin er að gera á árinu 1994 til þess að styrkja fjölskylduna og stöðu hennar á Íslandi. Um það sem gerst hefur í þeim efnum eru mjög skiptar skoðanir eins og kunnugt er. Spurningin er hins vegar sú hvort okkur gæti auðnast að ná samstöðu um það sem á að gera þrátt fyrir það sem gerst hefur.