Vandi rækjuiðnaðarins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:36:00 (3666)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hef ég átt nokkrum sinnum viðræður við forustumenn í samtökum rækjuframleiðenda og stjórnendur einstakra fyrirtækja í þessari atvinnugrein um þann mikla vanda sem hún hefur staðið frammi fyrir. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hefur verið verulegur hallarekstur í rækjuframleiðslunni að undanförnu og að sumu leyti hefur hún átt við mun meiri erfiðleika að etja en aðrar greinar í sjávarútvegi vegna þess að á sama tíma og aðrar greinar hafa búið við mjög hátt markaðsverð hefur orðið verðfall í rækjuframleiðslu. Það er úr vöndu að ráða þegar þannig stendur á. En hitt er ljóst að um mjög mikilvæga atvinnustarfsemi er að ræða eins og kom reyndar fram í máli hv. þm. Eftir því sem úthafsveiðar á rækju hafa vaxið hefur þýðing rækjuframleiðslunnar fyrir þjóðarbúskapinn og atvinnu í einstökum byggðum vaxið mjög verulega. Fyrir áratug var útflutningur á rækjum um 1--2% af útflutningstekjum en er nú 7--8% þannig að hér er um mjög umtalsverðan þátt að ræða í útflutningi á sjávarafurðum.
    Ljóst er að að hluta til hefur verðfallið ekki komið fram í lækkuðu útsöluverði á erlendum mörkuðum þannig að milliliðir hafa tekið til sín aukinn hlut og það gefur ástæðu til þess að atvinnugreinin beini sjónum sínum að markaðsstarfsemi. Hún hefur verið mjög sundurlaus. Ekki hafa verið skipuleg samtök eða samstarf rækjuframleiðenda um útflutningsmál. Mér er kunnugt um að á vettvangi þeirra hefur hins vegar farið fram umræða um skipulagt átak í þessum efnum. Ráðuneytið hefur fylgst með þeim umræðum og boðist til þess að greiða fyrir átaki í því efnum og ég tel að það sé mikilvægur þáttur í aðgerðum til að treysta rekstrarstöðu atvinnugreinarinnar.
    Þá var verð á hráefni allt of hátt miðað við afurðaverð og á því hefur orðið nokkur breyting þannig að hallareksturinn er ekki jafngeigvænlegur og hann var við lok sl. árs en er enn svo mikill að ekki verður við unað til lengri tíma. Á það er svo að líta að mikil nauðsyn er á frekari hagræðingu innan greinarinnar. Athugun sem gerð hefur verið á vegum nefndar sjútvrn. um stefnumótun í sjávarútvegsmálum hefur leitt í ljós að nýting á vélakosti sem fyrir hendi er til rækjuframleiðslu er ekki nema 61%. Unnt er að vinna um 57 þús. lestir í þeim vélum sem eru fyrir í landinu en framleiðslan er um 35 þús. lestir. Því væri auðveldlega hægt með 38% minni vélakosti að vinna þá rækju sem fyrir hendi er. Mikilvægt er að aukin hagræðing eigi sér stað í greininni til þess að almennar aðgerðir treysti frekari undirstöðu í rekstri fyrirtækjanna.
    Þegar litið er á stöðu greinarinnar í heild og þær aðgerðir sem óhjákvæmilegt er að grípa til innan greinarinnar, bæði í markaðsmálum og innri hagræðingu, er augljóst að ekki er við því að búast að verðsveiflur verði upp á við á erlendum mörkuðum. Því er ekki þess að vænta að ytri skilyrði batni á komandi árum að þessu leyti. Fyrir þá sök hljóta aðgerðir til þess að treysta rekstrarstöðuna að tengjast almennum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til þess að styrkja rekstur sjávarútvegsfyrirtækja í landinu.
    Þær upplýsingar sem birtar hafa verið um afkomu í sjávarútvegi eru þannig, eins og öllum hv. þm.

er kunnugt, að með ótvíræðum hætti þarf að bregðast við þeim vanda og rækjuiðnaðurinn er hluti af því viðfangsefni. Ég vænti þess að þegar menn hafa komist að niðurstöðu um með hvaða hætti er eðlilegast að taka á þeim vanda verði um leið skotið sterkari stoðum undir rekstur rækjuframleiðslunnar í landinu. Ég ítreka að rækjuframleiðslan er svo veigamikill þáttur í sjávarafurðaframleiðslu landsmanna að á þennan vanda verður að líta með sama hætti og aðra mikilvæga þætti í sjávarútvegi okkar Íslendinga.