Vandi rækjuiðnaðarins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:45:00 (3668)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans við fsp. minni um vanda rækjuvinnslunnar. Mér er það mætavel ljóst að það er ákaflega erfitt að finna ákjósanlega lausn á þessu mikla vandamáli sem afkoma rækjuvinnslunnar er og ef sú lausn væri auðfundin hefðu menn vitaskuld farið í að framkvæma þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru.
    Ég vil hins vegar árétta nokkur atriði sem hæstv. sjútvrh. nefndi í ræðu sinni og þá í fyrsta lagi það hversu nauðsynlegt það er að standa vel að baki því markaðsátaki sem greinin sjálf hyggst núna efna til í því skyni að tryggja að verðmyndunin á markaðnum erlendis skili sér með fullum hætti inn til greinarinnar hér á landi. Ég veit að þetta mál er ekki alveg einfalt vegna þess að við kunnum í því sambandi að tefla öðrum hagsmunum okkar í greininni í nokkra tvísýnu en engu að síður er það auðvitað grundvallaratriði að við getum komist fram hjá þeim milliliðum sem selja vörur okkar á neytendamarkaðnum og við getum notið afrakstursins af þeirri sölu beint inn í atvinnugreinina okkur til hagsbóta.
    Í öðru lagi það sem hæstv. sjútvrh. nefndi varðandi innri hagræðingu sem þyrfti að eiga sér stað í greininni og ég er honum sammála um. Hins vegar er ástæða til þess að árétta það að slík innri hagræðing hefur verið að eiga sér stað og rækjuverksmiðjum hefur fækkað mjög frá því sem þær voru flestar, ég hygg um allt að 40% á bara örfáum árum. Jafnframt er alveg ljóst að greinin sjálf megnar ekki við óbreyttar aðstæður að láta þessa úreldingu fara fram og ég vil þess vegna ítreka þá hugmynd sem ég setti raunar fram fyrr í vetur í umræðum um byggðamál að sá kostur sé skoðaður mjög rækilega að reynt sé að setja upp úreldingarsjóð fiskvinnslunnar líkt eins og við erum nú með úreldingarsjóð fiskiskipa í því skyni að fækka fiskiskipunum í landinu. Þetta er raunar hugmynd sem hefur verið að fá byr undir báða vængi í umræðunum upp á síðkastið um þennan almenna vanda sem við er að glíma í íslenskum sjávarútvegi og snertir vitaskuld rækjuna eins og aðra þætti þeirrar atvinnugreinar.
    Þriðja atriðið er auðvitað það sem er langsamlega stærst og það eru þær almennu aðgerðir sem nauðsynlegt verður að grípa til gagnvart sjávarútveginum í heild í ljósi þeirra skelfilegu upplýsinga sem birst hafa upp á síðkastið, bæði í útreikningum Þjóðhagsstofnunar og Hagfræðistofnunar Háskólans sem sýna það einfaldlega að skuldsetning greinarinnar af ýmsum ástæðum er orðin svo mikil í heildina séð að ljóst er að meiri hluti fyrirtækjanna ræður ekki við hana þegar til lengri tíma er litið.
    Ég vil að lokum árétta það og hvetja til þess að þeirri vinnu sem hæstv. sjútvrh. nefndi að nú færi fram til þess að létta á byrðunum hjá rækjuvinnslunni verði hraðað í því skyni að skapa þessari mikilvægu atvinnugrein eðlilegt rekstrarumhverfi, ekki síst í ljósi þess að fyrir ýmsar hinar dreifðu byggðir landsins, byggðirnar við Ísafjarðardjúp, Hólmavík, Hvammstanga, Siglufjörð og fleiri, er hér um að ræða svo gríðarlegt hagsmunamál að öllum má vera ljóst að ef illa fer mun það líka kosta okkar þjóðfélag ómældar fjárhæðir.