Viðskiptahættir í tengslum við gjaldþrot einstaklinga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:05:00 (3674)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sem svar við fsp. er það að segja að stjórnvöld hafa ekki almennt eftirlit með lánastarfsemi fyrirtækja eða einstaklinga nema að því leyti sem það á lögum samkvæmt undir bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Í reglum um bankaeftirlitið í VI. kafla laga um Seðlabanka Íslands er verksvið þess afmarkað þannig að það tekur til starfsemi innlánsstofnana, þ.e. viðskiptabanka og sparisjóða. Því til viðbótar má finna sérreglur í öðrum lögum um eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins svo sem ákvæði III. kafla laga um eignarleigustarfsemi og VI. kafla laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Eftir þessum lagareglum felst hlutverk bankaeftirlitsins öðru fremur í því að gæta að fjárhagsstöðu bankastofnana, eignarleigufyrirtækja og verðbréfafyrirtækja m.a. með tilliti til áhættu af viðskiptum þeirra og fyrirgreiðslu við einstaka viðskiptamenn sem getur talist óeðlileg í ljósi fjárhagsstöðu þeirra. Með þessu má segja að eftirlit sé haft með viðskiptaháttum vissra stofnana og fyrirtækja sem hafa gagngert með höndum lánastarfsemi og skyldan rekstur. Þetta eftirlit beinist hins vegar að áhrifum viðskipta á hag lánveitandans eða kröfu eigandans en ekki að aðstöðunni gagnvart lánþeganum eða skuldaranum.
    Á öðrum vettvangi en þeim sem nú hefur verið getið er ekki um að ræða afskipti stjórnvalda eða annarra handhafa ríkisvaldsins af lánastarfsemi fyrirtækja eða einstaklinga með tilliti til þess hvort eðlilegum viðskiptaháttum sé beitt nema að því leyti sem refsiverð háttsemi kann að vera drýgð í viðskiptum. Ef litið er sérstaklega í þessu sambandi til lánafyrirgreiðslu við einstaklinga í fjárþröng má hafa í huga að í 20. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, er mælt fyrir um refsinæmi þess að hagnýta sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjenda síns eða annan aðstöðumun til að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Varðar slík háttsemi sektum, varðhaldi eða fangelsi sem getur numið allt að tveimur árum fyrir ítrekað brot. Þá liggur sama refsing við því skv. 253. gr. almennra hegningarlaga að maður noti sér bágindi annars manns, einfeldni, fákunnáttu eða það að annar maður sé honum háður til að áskilja eða afla sér hagsmuna í samningum þannig að bersýnilegur munur sé milli þess sem hvor lætur af hendi. Mál vegna brota af þessum toga geta almennt ekki komið til kasta yfirvalda nema með kæru af hendi þess sem misgert er við eða eftir atvikum í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi þess sem brot hefur beinst að.
    Í síðari spurningunni sem borin er fram er leitað svara við því hve mörg mál hafi komið til kasta dómstóla af þessum sökum á síðustu fjórum árum. Eftir því sem næst verður komist hefur ekkert sakamál á þessu tímabili varðað brot af þeim meiði sem fsp. lýtur að. Enginn kostur virðist vera á því að afla upplýsinga um hvort einkamál hafi verið rekin á síðustu fjórum árum vegna atvika af þessum uppruna, t.d. til ógildingar á lánssamningum eða riftunar á ráðstöfunum vegna þeirra, enda eru málaskrár um einkamál við dómstólana ekki svo ítarlega færðar að hægt sé að rekja þar uppruna hvers og eins máls með þeim hætti sem hér þyrfti til.