Viðskiptahættir í tengslum við gjaldþrot einstaklinga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:09:00 (3675)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. greinargóð svör. Mér býður samt í grun að lög okkar séu ekki nægilega afdráttarlaus gagnvart því fólki sem stundar slíkt atferli eins og ég lýsti áðan. Ég vil skora á stjórnvöld og hið háa Alþingi að setja miklu strangari reglur um meðferð og rannsókn á slíkum málum. Ég skora á ráðherra og Alþingi að þegar um gjaldþrot er að ræða sé í hverju tilviki athugað hvernig lánveitendur hafa staðið að málinu.
    Mér finnst líta út eins og hið íslenska þjóðfélag sé að ala upp peningahrægamma innan hagkerfisins, fólk sem eirir engu og skirrist ekki við að eyðileggja heilsu og framtíð fólks sér til auðsuppsprettu.