Staða táknmálstúlkunar

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:17:00 (3678)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Halldórsdóttur fyrir að koma fram með þessa fsp. og eins þakka ég ráðherra. En það er samdóma álit okkar sem stóðum að samþykkt laga um samskiptamiðstöð að við álítum að með samþykkt laganna hafi verið stigið nokkuð stórt skref fram á við og vona ég enn að svo hafi verið og reyndar fannst mér það koma fram í svari hæstv. ráðherra. En mig langar, hæstv. forseti, að lesa hluta úr örstuttu bréfi frá Félagi heyrnarlausra sem þingmönnum barst nú í sumar sem er nokkuð sláandi og ég var einmitt með í höndunum. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Kæra Valgerður. Viltu heyra okkar mál. Segjum að við komum á fund til þín augliti til auglitis. Þú býður okkur sæti. Við setjumst. Enginn segir neitt. Við tökum fram verkefnalistann. Allt hefur gengið eins og í sögu þangað til núna. Listinn er lesinn upp --- á táknmáli auðvitað. Það er okkar móðurmál. En þú skilur ekki, segir samt eitthvað, við skiljum ekki. Aðstæðurnar verða vandræðalegar.``
    Í bréfinu koma einnig fram upplýsingar þar sem bornar eru saman aðstæður hér á landi við aðstæður á hinum Norðurlöndunum og þær segja okkur að við erum því miður komin ákaflega stutt áleiðis í því að bæta málefni heyrarlausra.