Yfirtökutilboð

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:11:00 (3687)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er að sumu leyti merkileg tilviljun að mál þetta skuli vera til umræðu tveimur dögum eftir athyglisverðar upplýsingar um stöðu helstu atvinnugreinar landsmanna, sjávarútvegsins. Það sem fram kemur í þeim upplýsingum, sem menn máttu þó vita, að skuldir þeirrar atvinnugreinar eru gríðarlega miklar og hægt að setja mörg spurningarmerki aftan við það hvort þær verði greiddar til fulls. Það er nefnilega þannig í íslensku atvinnulífi að skortur á eigin fé er eitt helsta vandamálið hvort heldur eignarformið er hlutafélag eða samvinnufélag. Því eigum við að reyna að útbúa okkar löggjöf þannig að hún verki hvetjandi á einstaklinga og aðra aðila til að leggja fé til inn í atvinnulífið t.d. með því að kaupa hlutabréf. Þrátt fyrir að hlutafjárlöggjöfin sé nokkuð góð, og þar er ég að mörgu leyti sammála hv. 4. þm. Reykv., eru samt agnúar á löggjöfinni í heild sinni sem ég tel að þurfi að sníða af til að almenningur öðlist nægjanlegt traust sem þarf að vera fyrir hendi þannig að menn séu reiðubúnir að leggja fram fé.
    Mér sýnist að þessi þáltill. komi inn á þessi sjónarmið þannig að hún tekur á einu af þeim atriðum sem er nauðsynlegt að lagfæra, á því atriði að vernda rétt minni hluta í félögum og reyna að draga úr hættunni á samþjöppun valds. Að því leyti fagna ég þessari þáltill. og tel hana vera til góðs og vil hvetja þingheim til þess að ná samstöðu um að afgreiða hana fyrir þinglok, annaðhvort óbreytta eða þá lítillega breytta.
    Ég get nefnt dæmi þar sem einmitt skorturinn á löggjöf af þessu tagi kom berlega í ljós. Það var á síðasta ári þegar bæjarsjóður Bolungarvíkur tók sig til og keypti meiri hluta hlutafjár í einu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á staðnum. Það fyrirtæki var reyndar þannig haldið vegna skorts á eigin fé að hlutabréf í því voru ekki ýkja verðmæt en af því við búum við svo vitlausa löggjöf í fiskveiðimálum þá mynduðust verðmæti þar þannig að íbúar staðarins vildu halda fyrirtækinu innan bæjar og koma í veg fyrir að það yrði selt burt. Á þeirri forsendu gerðist það að bæjarsjóður keypti meiri hluta hlutafjárins á nokkuð háu verði. Í þessu máli reyndust hagsmunir minni hluta hlutafjáreigendanna algjörlega fyrir borð bornir. Það voru bara ákveðnir aðilar sem höfðu yfir að ráða meiri hluta hlutafjár sem seldu, hinir komu málinu ekkert við. Þeir fengu ekkert, fengu engu að ráða. Þeirra hlutabréf eru verðlaus og engin kaupandi fyrir hendi. Hver kaupir hlut í fyrirtæki sem hann ræður engu í? Það gerir enginn nema eiginfjárstaða þess sé þannig að von sé á arði af þeim peningum.
    Ef þessi löggjöf hefði verið fyrir hendi hefði kaupandinn þurft að kaupa öll hlutabréfin sem hefði í þessu tilviki verið mun sanngjarnara og ég er ekki viss um að það hefði leitt til hærra verðs. Ég held að það verð sem menn greiddu fyrir meiri hlutann hefði verið nokkurn veginn sama og menn hefðu greitt fyrir allt þannig verðið hefði lækkað á hlut.
    Fleiri dæmi er hægt að finna sem gera það að verkum að nauðsynlegt er að breyta frá núverandi horfi, einmitt í þá átt að verja stöðu þeirra sem eru í minni hluta í fyrirtækjum. Þetta er mjög mikilvægt finnst mér á landsbyggðinni þar sem þessi fyrirtæki sum hver eru afar stór í sínu byggðarlagi á sínum vinnumarkaði. Þeir sem eru þar í meiri hluta ráða býsna miklu og völdin eru nokkuð eftirsótt. Það er æskilegt að koma í veg fyrir að menn geti tekið sér og fengið svona mikil völd með 51% hlutafjár í einhverju einu fyrirtæki.
    Mér sýnist að sú hugsun, sem liggur hér að baki, muni draga úr þessari hættu og þó ég telji að fleira þurfi að gera til að búa svo um hnútana að fyrirtæki verði fyrst og fremst fyrirtæki og að menn séu reiðubúnir að leggja í það fé, bæði til að verja sína stöðu, síns byggðarlags, atvinnu sína og líka til þess að fá gjald af því fé sem menn leggja þar inn. Alla vega þarf það að vera þannig að sá kostur sé a.m.k. fýsilegur og mun fýsilegri en í dag því að það sem gerði landsbyggðinni mest gagn væri að menn sæju sér fært að verja því fé, sem menn á annað borð eru að verja í aðra hluti en framfærslu, til þess að styrkja atvinnufyrirtækin. Það er það sem staða sjávarútvegsins kallar á, hún kallar á það að fólkið leggi fram fé. Sjávarútvegsfyrirtækin í plássunum eru oft á tíðum grundvöllur, hvert í sínu plássi, þannig að menn eru meira og minna nauðbeygðir að reyna að halda þeim uppi eða endurreisa þau með einhverjum hætti. Það er auðveldara ef löggjöfin er þannig að fólk treystir sér til að leggja fé í atvinnurekstur í stað þess að eyða því í eitthvað annað.
    Þetta eru almenn viðhorf mín til málsins, virðulegi forseti, og læt ég máli mínu lokið.