Yfirtökutilboð

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:25:50 (3689)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill., um athugun á viðbót og lagfæringu á lögum um hlutafélög. Þó að við, sem unnum að setningu laganna um hlutafélög árið 1978, reyndum að gera okkar besta og þau hafa staðið allan þennan tíma þá koma fram nýjar aðstæður sem kalla á að þau séu endurskoðuð og þeim breytt. Nú að undanförnu hefur sérstaklega verið til umræðu sú hætta að hlutafélög safnist í eigu fárra aðila en okkur er auðvitað öllum ljóst að hlutafélög eru undirstaða meginhluta atvinnurekstri okkar og því skiptir mjög miklu máli að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að hún hvetji menn til þátttöku í atvinnurekstrinum. Það er að sjálfsögðu skylda löggjafarvaldsins og ríkisvaldsins að stuðla að því að svo megi verða. Það voru mér því mikil vonbrigði þegar í vetur var verið að breyta ákvæðum skattalaga þannig að það sást ekki annar tilgangur með því en að reyna að fæla almenning frá því að kaupa hlutabréf og styrkja þannig atvinnulífið í landinu. Ég vil vonast til þess að samþykkt þessarar þáltill. leiði til þess að slíkum handarbakavinnubrögðum verði hætt.