Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:53:00 (3694)

     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég stend hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við tillöguna svo langt sem hún nær. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. 15. þm. Reykv., Kristínu Einarsdóttur, að á síðasta þingi var lagt fram frv. til laga um ferðaþjónustu sem hún, eins og hún orðaði það, sagði að því miður varð ekki samþykkt. Ég skal fúslega taka hluta af því á mig því að ég gagnrýndi mjög harkalega það frv. þar sem mér fannst það hreint ekki nógu gott.
    Ég held að á Alþingi hafi aldrei verið nein alvara að baki þegar aðgerðir í ferðamálum hafa verið á dagskrá. Það er nú einu sinni svo að þeir sem eiga þess kost að fara hvert á land sem þeir vilja og búa á bestu hótelum hafa ekki hugmynd um hvað hér er verið að tala um. Það sem við erum að tala um er að reyna að byggja upp ferðaþjónustu fyrir allan þorra manna, fjölskyldufólk, launþega og láglaunafólk sem vill ferðast til annarra landa og kynnast íbúum þeirra, en ekki lúxusferðamönnum sem geta svo sem verið hvar sem er og búið hvernig sem er og gert það sem þeim sýnist.
    Ég held að nokkur meginatriði hafi verið gerð eins illa og möguleiki er á. Það er í fyrsta lagi svokölluð landkynning. Hvernig er hún? Við þurfum ekki annað en að líta í algengustu tímarit sem nú eru gefin út eins og Iceland Review, hvers konar bæklinga um Ísland. Hvernig eru þeir? Þar eru myndir af auðnum Íslands, kannski einum fallegum hlut eftir einhvern listamann og síðan getið um að það sé hægt að komast á veitingastað á kvöldin. Fólk er engu nær um það í hvers konar landi við búum og ég held að við sem höfum allnokkuð farið ættum að hætta að skrökva að sjálfum okkur að umheimurinn viti eitthvað um Ísland. Hann veit ekki neitt um Ísland. Svo furðulegar spurningar fær maður erlendis um það mannlíf sem hér er lifað að það satt best að segja sætir undrun. Nægir að nefna að ég á sæti í svokallaðri EFTA-nefnd og hef tvisvar sinnum verið suður í Genfarborg í Sviss. Í bæði skiptin hefur það reynst hótelmóttökustjóranum gersamlega ómögulegt að finna út frá hvaða landi ég væri. Ég hygg þó að íslensku sendinefndirnar búi ævinlega á þessu eina og sama hóteli. Þegar hann komst að því að við bjuggum ekki á Írlandi þá gafst hann bara upp. Ég hirði ekki um að skýra frá því hvernig nafn landsins míns leit út á reikningnum sem Alþingi barst síðan. Þannig að við skulum byrja á byrjuninni, landkynningunni.
    Ég opnaði skandinavískt tímarit um daginn og þar var Íslandi aldrei þessu vant gefið dálítið rými. Um hvað skyldi það nú hafa verið? Jú, það var viðtal við eina spákonu og einn allsherjargoða. Þetta eru hugmyndir manna um Ísland. Skrýtið fólk í reyndar fallegu landi, um það eru allir sammála. En að hér sé venjulegt og tiltölulega háþróað nútímaþjóðfélag hefur fólk bara ekki hugmynd um. (Gripið fram í.) Jú, jú, þá skal ég koma að því. Og þetta er nefnilega misskilningurinn sem Íslendingar ganga með að við séum svo skrýtin og sérkennileg og að það sé það sem við eigum að lokka ferðamenn með. Þetta held ég að sé allsendis alrangt. Landið okkar er auðvitað engu líkt og ekkert land er neinu öðru líkt. Það á vissulega mikinn þátt í að draga hingað ferðamenn. En eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan, venjulegt fólk í sumarfríi vill auðvitað líka láta sér líða vel. Það vill kannski eyða einhverjum peningum í það, ekki endilega mjög miklum en það vill búa vel, borða vel og almennt láta fara vel um sig. Vitaskuld er svo víðs fjarri að upp á þetta sé boðið hér á landi. Ég tók nærtækasta dæmið sem ég hef í ræðu minni í fyrra sem mjög fór fyrir brjóstið á þáv. hæstv. samgrh., flokksfélaga mínum Steingrími J. Sigfússyni. Hvað ætli komi margir ferðamenn til Íslands án þess að líta á Gullfoss og Geysi? Enn þann dag í dag er ekki hreinlætisaðstaða á þessum stað. Í raun og veru er stórfurðulegt að annað eins og þetta skuli geta gerst. Svo lokaðir eru Íslendingar fyrir frumstæðustu þörfum mannanna þegar landslagið er annars vegar að þeir halda að meira þurfi bara ekki til.
    Ég skal reyna að stytta mál mitt, hæstv. forseti. Góð ferðamannaþjónusta er spurning um hugarfar. Það er spurning um vilja þjóðarinnar til að taka vel á móti öðru fólki. Það er auðvitað ekkert hægt að kenna og ekki hægt að skipuleggja það. Auðvitað ber stjórnvöldum að aðstoða hinar ýmsu byggðir landsins til að koma sér upp ekki bara gistiaðstöðu, það er ekki nóg, heldur aðstoð við að hlúa að öllu því sem best þrífst í því byggðarlagi. Og það getur enginn fundið á sér og vitað betur en þeir sem búa á hverjum

stað hvað þeir hafa ferðamönnum að bjóða. Ég veit ekki hvað er best að skoða á Vestfjörðum. Ég gæti sagt mönnum hvað væri ráð að skoða í Hafnarfirði og Reykjavík. En það hlýtur að vera eðli góðrar ferðaþjónustu að íbúarnir á hverjum stað hlúi að sinni menningu, uppbyggingu sinna byggðarlaga og langi til að fá gesti, langi til að láta þeim líða vel. Þessu verður ekki skipað sunnan frá Reykjavík með einhverri miðstýringu eins og mér fannst, því miður, frv. á síðasta þingi allt of mikið byggt á.
    Í stuttu máli er ferðamannaþjónusta okkar skelfing frumstæð. Vissulega eru undantekningar. En við skulum ekki gleyma þeim hópum ferðamanna sem við verðum að gera ráð fyrir. Auðnir Íslands eru stórkostlegar en þangað fara ekki fjölskyldur með smábörn nema í undantekningartilvikum. Við vitum hvers konar fólk sækir þangað. Það er ekki endilega fólkið sem skilar okkur miklum peningum enda er það í því tilfelli ekki aðalatriðið. Það er góður hópur og skemmtilegt að fá hann. En ef við ætlum að afla einhverra umtalsverðra tekna af ferðamannaiðnaði erum við að reyna að laða til okkar hinn breiða fjölda, fólkið sem kemur í sumarleyfi með börnin sín, fólk á öllum aldri. Þessu fólki verðum við að finna eitthvað að gera.
    Það er nú einu sinni svo að við þrælar hversdagsins höfum ótrúlega mikinn tíma þegar síminn hættir að hringja, þegar gestir hætta að koma og þegar við förum ekki í vinnuna okkar lengur. Og við erum auðvitað ekki á ferðinni allan þann tíma. Þess vegna þarf fólk að hafa einhverja afþreyingu. Fólk þarf að geta borðað vel og ég ætla að herða upp hugann og þora að segja að það er nú svo með marga erlenda menn að þeim finnst sjálfsagt að geta fengið sér í glas. Ég þekki ekki einn einasta Breta, þó ég hafi búið þar í þrjú ár, sem finnst ekki eins sjálfsagt og að skrúfa frá krana að fá sér bjór einhvern tíma dagsins. Við verðum að geta veitt slíka þjónustu og komið til móts við þarfir þess fólks sem við erum að sækjast eftir.
    Ég veit ekki nema ég verði að taka aftur til máls vegna þess að einn þáttur er eftir sem ég legg jafnmikla áherslu á. Við hv. 2. þm. Austurl. vorum sammála um það í fjárln. að hægt er að gera íslenska list að arðbærri útflutningvöru. Bækur og minjagripi, ég ætla ekki að tala aftur illa um þá vegna þess að það fór líka fyrir brjóstið á einhverjum á síðasta ári. Ég ætla samt að segja að þeir eru hræðilegir og við eigum að nýta það listafólk sem við eigum til þess að búa til almennilega hluti sem við þurfum ekki að blygðast okkar fyrir. Og skal ég nú láta ræðu minni lokið, hæstv. forseti. Það vill svo til að ég er mikil áhugamanneskja um þetta og ég fagna þessari tillögu. Mér finnst kannski svolítið óljóst hvernig veita á þennan stuðning og vildi gjarnan heyra hv. 1. flm. skýra það aðeins hvernig hann hugsar sér að honum væri skipað.