Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 15:04:00 (3695)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram strax um þessa þáltill. að ég tel hana allra góðra gjalda verða og markmiðið með henni gott og við ættum að sameinast um að reyna að láta hana ná fram að ganga. Þó svo að flm. hafi kosið að taka fyrir afmarkaðan þátt í ferðamannaþjónustunni er ályktunin ekki verri fyrir það og ég tel fulla nauðsyn á því að menn gangi skipulega til verka í þessum málum. Það er einu sinni þannig að við búum í það agnarlitlu samfélagi að við getum ekki látið markaðslögmálin leysa alla þætti tilviljunarkennt. Við verðum að leyfa okkur að vera dálítið aðhaldssöm á það fé sem við leggjum til þessa málaflokks hvort sem það er af opinberri hálfu eða frá einkageiranum. Því þurfum við oft og tíðum að vera með miðstýrðar áætlanir að nokkru leyti og best er í þeirri stöðu þegar af litlu er að taka að hið opinbera hafi frumkvæðið. Þetta verðum við líka að hafa í huga þegar við erum að reyna að skipuleggja ferðaþjónustu um allt land, ekki bara hér á suðvesturhorni landsins. Það hlýtur að vera markmið okkar að stuðla að því að ferðamenn ferðist líka til hinna fámennu byggða og að þar sé fyrir hendi sú lágmarksaðstaða að hægt sé að taka á móti hópum ferðamanna.
    Ég vil minna á að á síðasta reglulega þingi var lagt fram frv. til laga um ferðaþjónustu eins og hér hefur verið getið um og einnig var lögð fram till. til þál. um ferðamálastefnu. Hvort tveggja var lagt fram af þáv. hæstv. samgrh. og var afrakstur nefndar sem ráðherrann skipaði og starfaði undir forustu hv. 4. þm. Austurl. Ég tel að þessi nefnd hafi unnið óvenjugott starf í þessum málum og skilað af sér mjög ítarlegum tillögum, bæði um ferðamálastefnu og um ferðaþjónustu. Það væri margt betra í þessum málaflokki núna ef ekki hefði verið komið í veg fyrir samþykkt þessara ályktana. Þar ber auðvitað Sjálfstfl. höfuðábyrgð þar sem hann beitti sér fyrir því sérstaklega að koma í veg fyrir samþykkt þessara tveggja mála sem ég nefndi. Og undir forustu hv. þáv. þm. Halldórs Blöndals, sem Sjálfstfl. var svo ánægður með að hann gerði að ráðherra ferðamála á eftir. Eins og við sjáum þá sést ekki einn einasti sjálfstæðisþingmaður í salnum, hvorki ráðherrar né aðrir og það segir okkur hver áhugi þeirra sjálfstæðismanna er á ferðamálum. Ég sé að vísu að hv. 5. þm. Reykv. er í salnum en ég vissi af því þegar ég sagði þetta.
    Virðulegi forseti. Ég hef vakið athygli á þessum tveimur málum sem lögð voru fram og ég vil aðeins benda á að t.d. í till. til þál. um ferðamálastefnu eru markmið m.a. rækilega skilgreind og gerðar eru tillögur um leiðir til að ná þeim markmiðum. Þar kemur t.d. mjög skýrlega fram að ein leiðin er að ná fram sem bestri nýtingu á fjármagni sem lagt er í ferðaþjónustu m.a. með því að lengja ferðamannatímann og samnýta húsnæði og samgöngutæki þar á meðal í samvinnu við aðrar atvinnugreinar. Auðvitað er afar skynsamlegt að reyna að koma upp nauðsynlegri aðstöðu sem víðast fyrir sem minnst fé og fellur saman við markmið það sem er í þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Fleira get ég nefnt úr þessari þáltill. sem að mínu mati er hið merkilegasta plagg og hefði farið betur að hefði verið samþykkt.

    Eitt vil ég þó nefna að lokum sem kemur fram í frv. til laga um ferðaþjónustu sem er mjög athyglisvert, þ.e. að framlag hins opinbera til ferðamála sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins 1980--1990 var minnst árið 1987. Það er árið sem Alþfl. gekk inn í ríkisstjórn eftir nokkurra ára útlegð. Þá náði þessi málaflokkur botni. Strax árið eftir, þegar skipt hafði verið um ríkisstjórn og nýjar áherslur teknar upp í samgöngumálum og ferðamálum, þá vex þetta hlutfall og það vex á árunum 1988--1990 um nærfellt 100%, úr liðlega 0,04% af útgjöldum ríkisins upp í 0,09%. Það segir okkur að þær áherslur sem síðasta ríkisstjórn hafði í þessum málum stefndu greinilega til réttrar áttar, virðulegi forseti. Nú getum við ekki annað en vonað að núverandi ríkisstjórn fylgi þessu háleita markmiði eftir.