Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 15:20:00 (3697)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forsti. Þessi tillaga sem hefur verið lögð fram er vissulega tímabær. Ég vil þakka flm. fyrir að hafa komið fram með hana. Svo sannarlega veitir ekki af nú á tímum þegar við ræðum samdrátt í atvinnulífinu og fyrirsjáanlegt atvinnuleysi fram undan að styðja við það sem helst er einhver vaxtarbroddur í og hefur verið vaxtarbroddur í. Ekki hvað síst á það við dreifbýlið því að þau störf sem hafa bæst við í ferðaþjónustunni á undanförnum árum hafa að miklum meiri hluta orðið þar til. Það hefur sýnt sig að Ferðaþjónusta bænda á þar drjúgan hlut að máli og er mjög gott að bændur finni nýja möguleika til þess að treysta búsetu sína. Þessi tillaga virðist fyrst og fremst vera tilkomin til þess að hægt sé að gera eitthvað strax því að talað er um að strax á næsta ári þurfi að ráðast í þau verkefni sem þessi athugun mundi leiða í ljós að þyrfti að vinna.
    Ég vil aðeins nefna nokkur verkefni sem ég þekki að gætu verið mjög brýn og er það að efla tengsl á milli ferðamöguleikanna. Víða myndast þröskuldar eins og segir reyndar í greinargerð með þessari tillögu. Sem dæmi get ég nefnt það að þar sem ferjurnar sigla með ferðafólk, sem mikið notar þær á sumrin, er það iðulega svo að þegar fólk kemur einhvers staðar að bryggju þá er ekkert farartæki á bryggjunni sem flytur það áfram. T.d. eru ferðir með Baldri yfir Breiðafjörð en engar rútuferðir eru í tengslum við þær ferðir. Reyndar hefur verið reynt að skipuleggja ferðir að einhverju leyti á Látrabjarg einu sinni til tvisvar í viku en að öðru leyti getur fólk ferðast þarna á milli og staðið svo bara á bryggjusporðinum, vegalaust. Þarna myndast því oft og tíðum þröskuldur.
    Í öðru lagi þarf að byggja upp þá staði úti um landið sem hafa aðdráttarafl. Þar nefni ég fyrst og fremst ýmsar gamlar byggingar sem þurfa viðhald. Það eru byggðasöfnin og það eru hugsanlega fleiri söfn, t.d. náttúrusöfn ýmiss konar. Margar gamlar byggingar liggja undir skemmdum sem ekki yrði hægt að bæta ef ekki verður brugðist við og viðhald þeirra tryggt mjög fljótlega. Enn eitt atriði vil ég nefna sem er kannski ekki mjög stórt mál en það er að merkja þá staði sem áhugaverðir eru að sjá. Við þekkjum það úr kvæði að ,,landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt.`` Það er mjög mikils virði að merkja heiti þeirra staða sem fólk langar til að skoða.
    Síðan vil ég einnig nefna að hreinlætisaðstöðu er víða mjög ábótavant. Það gengur afskaplega hægt að koma á lágmarkshreinlætisaðstöðu á fjölsóttum stöðum. Hægt væri að beina fólki á fleiri staði út um landið en það kostar athugun, skipulagningu og síðan framkvæmd. Örugglega væri hægt að efla ferðaþjónustu mikið með því að koma ýmsu slíku í verk.
    Ég ætla ekki að nefna hér fleira. Ég kom inn í umræðuna eftir að hún hófst þannig að ég veit ekki allt sem hefur verið sagt. En eins og ég sagði í upphafi þá þakka ég flutningsmanni fyrir tillöguna og vonast til að hún fái framgang og að eitthvað verði gert í framhaldi af því.