Dýravernd

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:15:00 (3703)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að það er hv. umhvn. sem fær þetta mál til meðferðar. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hafa talað, fyrir þeirra undirtektir. Tími er til kominn að við rekum af okkur slyðruorðið og látum því verki lokið sem í rauninni hófst fyrir 18 árum. Það var alveg rétt ábending sem kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. að það orðalag sem hann nefndi kann að gefa tilefni til mistúlkunar. Ég hygg þó að öllum sé ljóst við hvað er átt en auðvitað hlýtur nefndin að taka þetta til athugunar.
    Varðandi athugasemdir hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hygg ég að það sem hún fjallaði um, þ.e. valdsvið og verkefni nefndanna, sé býsna vel skýrt í 20. gr. frv. En það er svo álitamál og raunar nefndi ég það í framsögu að auðvitað hefði mátt gera frv. miklu þykkara, stærra, ítarlegra og taka þar til fleiri atriði. En ég er í sjálfu sér ekki sannfærður um að það hefði verið betri löggjöf. En um slíkt má auðvitað deila. Ég hygg að við séum sammála um tilganginn og nauðsyn laga á þessu sviði.
    Varðandi dýraverndarráðið sem kemur í stað dýraverndarnefndar núna og síðan dýraverndarnefndir sem munu starfa í umdæmum héraðsdómstólanna. Verið er að laga þetta kerfi að því kerfi sem við höfum tekið upp varðandi héraðsdómstólana og ég held að það sé skynsamlegt. Hún nefndi hin stórvirku tæknibú og í síðari mgr. 4. gr. er fjallað um þau. Ef mönnum þykir ekki, við nánari athugun, nægilega vel haldið utan um og að meira eftirlit þurfi þá er það að sjálfsögðu til athugunar. Umhvn. mun væntanlega hafa athugasemdir hv. þm. til hliðsjónar í umfjöllun sinni um málið. Í umhvrn. var talið að þetta mundi duga, þ.e. að haft skuli alveg sérstakt eftirlit með dýrum sem eru á slíkum stórvirkum tæknibúum og áður en slík bú eru tekin í notkun skuli héraðsdýralæknir eða fulltrúi yfirdýralæknis skoða vistarverur og tæknibúnað og fullvissa sig um að allt sé þar í samræmi við lög og reglugerðir. En ég ítreka þakkir til þeirra hv. þm. sem hafa tjáð sig um málið og vona að málið fái greiðan gang í gegnum þingið.