Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:55:00 (3709)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að veita andsvar við hluta af fyrri parti ræðu hv. síðasta ræðumanns sem hér var fluttur fyrir helgi. Ræðumaður, hv. 14. þm. Reykv., sá þá ástæðu til að vega sérstaklega að starfsheiðri og framgöngu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur hér í þinginu og gefa í skyn að hún væri ekki starfi sínu vaxin og lét þess getið að til hennar þyrfti ekki að sækja sérstök ráð þegar kæmi að málefnum sjúkra og fatlaðra. Eins og kunnugt er þá hefur þessi þingmaður sérmenntað sig í málefnum heilsugæslu og í heilbrigðismálum. Ég vil eingöngu, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að mótmæla þessum ummælum. Ég tel að þau séu ósanngjörn, ómakleg og ekki sæmandi.