Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:59:00 (3713)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra frá árinu 1983. Með þeim lögum varð gjörbylting á málefnum fatlaðra og í kjölfar þeirra jókst uppbygging og viðhorf almennings breyttust og skilningur á málefnum fatlaðra hefur stóraukist á þessu tímabili með nokkrum leiðinlegum undantekningum þó sem ég ætla ekki að gera sérstaklega að umræðuefni hér.
    Ég tel mig tala fyrir munn þingflokks Framsfl. þegar ég segi að þetta frv. horfi til jákvæðrar áttar. Það er jákvætt í öllum meginatriðum og þeir þingmenn sem um þetta mál fjalla í félmn. eru reiðubúnir að vinna ötullega að því svo að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Eigi að síður eru nokkur atriði sem ég vil koma að við þessa 1. umr. málsins. Ég vil fyrst geta um nokkur atriði sem mér finnst jákvæð og nefni ákvæði í 3. og 4. gr. frv. um að félmrn. eitt fari með málefni fatlaðra. Það er mjög til bóta og einfaldar meðferð málefna þeirra að þeir falli undir sömu lög og aðrir varðandi menntunarmál og heilbrigðismál. Þetta er meginatriði í þessu frv. sem við teljum mjög til bóta. Jafnframt eru í frv. ákvæði um að styrkja og efla Greiningarstöð ríkisins og setja henni sérstaka stjórn. Það atriði teljum við einnig til mikilla bóta.
    Í 25. og 26. gr., X. kafla frv., eru ákvæði sem varða þátttöku sveitarfélaga í málefnum fatlaðra. Við teljum ástæðu til þess að félmn. skoði sérstaklega þetta ákvæði og fleiri því að mikil þörf er á að vanda sig í þessum efnum þar sem verið er að skipta málaflokknum milli stjórnsýslustiga. Það er vart nægilega skilgreint í frv. hvaða þjónustu eða hvers konar þjónustu sveitarfélögin eiga að veita. Þegar löggjöf

er loðin í þessu efni og mikið af vafaatriðum getur það haft í för með sér leiðindamál í framkvæmdinni, dregið dilk á eftir sér og leitt til árekstra.
    Ég er með þessu ekki að segja að ekki sé eðlilegt að sveitarfélög komi inn í einhverja liðveislu við fatlaða, eins og hún er kölluð í frv., en það verður að vera vel skilgreint í hverju sú liðveisla er fólgin, hvað er liðveisla og hvað er sérstök liðveisla. Að vísu eru talin upp nokkur atriði í frv. um þau mál en eigi að síður þarfnast þessi ákvæði frv. mjög náinnar skoðunar í nefnd.
    Í 11. gr. frv. er rætt um búsetu fatlaðra og þar segir: ,,Fatlaðir skulu eiga kost á búsetu í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er.`` Síðan eru taldir upp ýmsir kostir í þessu efni og segir svo: ,,Búseta fatlaðra samkvæmt lögum þessum skal vera í almennri íbúðabyggð.``
    Ég er sammála þessu atriði, þessari stefnumörkun, og geri ekki athugasemd við hana út af fyrir sig. En ég vil samt spyrja hæstv. félmrh.: Hvað flokkast undir almenna íbúðabyggð í þessum efnum? Hvað er, að þessum lögum samþykktum, með þær sjálfseignarstofnanir sem reknar eru og vista fatlaða? Nefna má sem dæmi Sólheima í Grímsnesi. Flokkast það sem almenn íbúðabyggð? Á það aðeins við þéttbýli eða á það við dreifbýli einnig? Er meiningin að þessar sjálfseignarstofnanir sæki um starfsleyfi á ný að þessum lögum samþykktum? Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir þessu.
    Koma mætti inn á fjölmargt í þessu frv. en ég ætla ekki að halda langa ræðu hér við 1. umr. Ég á sæti í þeirri nefnd sem um málið mun fjalla og get komið þar að athugasemdum. Við félagsmálanefndarmenn þingflokks Framsfl. höfum fyrirvara um málið og áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til þess að athuga alla þætti þess í nefnd.
    Af því að það hefur komið hér til umræðu varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra og aðild fulltrúa fjárln. að Framkvæmdasjóðnum vil ég segja að ég tel það til bóta að fulltrúi fjárln. eigi þar aðild. Ég er sannfærður um að það eru menn í fjárln. sem hafa skilning og þekkingu á málefnum fatlaðra hverju sinni. Ef þeir hafa ekki þekkinguna þá held ég að þeir öðlist hana það með því að starfa að málefnum Framkvæmdasjóðsins og nefndin hafi þar með tengingu við þessi mál og betra yfirlit um þá fjármuni sem þar er fjallað um. Ég held að þetta sé til bóta fyrir báða aðila og þess vegna er ég fylgjandi því sem segir í 39. gr. frv. um Framkvæmdasjóðinn.
    Ég tek undir það sem hv. ræðumenn, sem talað hafa á undan mér, hafa sagt um atvinnumál fatlaðra. Því miður er ég ekki bjartsýnn á að það vinnist stórir sigrar á almennum vinnumarkaði eins og atvinnuástandi er háttað nú um stundir. Það stóra mál, atvinnumál fatlaðra og atvinnumál almennt, ætla ég ekki að taka til umræðu nú. Það er mál sem þarfnast sérstakrar umræðu og meðferðar hér í hv. Alþingi ef svo heldur fram sem horfir og ætti náttúrlega að vera okkur þingmönnum mesta áhyggjuefnið af öllu þessa dagana sem hér fer fram í þessu þjóðfélagi. Við eigum auðvitað að hafa áhyggjur af atvinnumálum fatlaðra en það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af atvinnumálum almennt. Ég vil taka undir það að lagasetning í þessum efnum gerir enga stoð ef ekki er vilji til þess að aðrar aðgerðir fylgi.
    Ég tel að frv. horfi til bóta í heildina. Það er ávöxtur af nokkuð ítarlegri vinnu en auðvitað má alltaf gera betur og frv. þetta þarfnast auðvitað vandlegrar yfirferðar í hv. félmn. Ég mun taka þátt í því að frv. geti orðið að lögum en tek auðvitað undir það að lagasetningin ein er ekki nóg. Framkvæmdin fer eftir þeim fjármunum sem til þessa málaflokks er veitt. Ég verð hins vegar að segja að þessi málaflokkur hefur orðið betur úti núna samanborið við marga aðra og verða menn að eiga það sem jákvætt er í þessum efnum. Ég vil láta það koma fram. En eigi að síður má alltaf gera betur og ég vona að þessi lagasetning verði til þess.