Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 15:20:00 (3715)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja tímann í langri umræðu um þetta annars ágæta frv. sem hefur margt að geyma varðandi málefni fatlaðra og er allrar athygli vert þó ekki sé nema fyrir það eitt hve nauðsynlegt er að líta til þeirra sem oft og tíðum hafa búið við þröngan kost og vegna þess að þeim hefur lítill gaumur verið gefinn í þjóðfélaginu. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði að nauðsynlegt er að málið fái mikla og góða umfjöllun í nefnd og svo verði um búið að allir megi sæmilega við una og lifa í sátt við frv.
    Hvað varðar 11. gr. frv. er athyglisvert þegar talað er um að fatlaðir skulu eiga kost á búsetu í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er. Þar er sagt hvernig búseta fatlaðra getur verið og henni skipt í 6 liði og í 4. liðnum er talað um vistheimili. Hins vegar stangast það á við það sem segir í athugasemdum við einstakar greinar frv. og m.a. um 11. gr. og varðar vistheimili. Þar segir:
    ,,Hér er átt við sólarhringsstofnanir eins og Skálatún, Sólheima og Sólborg. Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um breytt hlutverk þessara stofnana í þágu fatlaðra eða að leggja þær af. Vistun fatlaðra á slíkum stofnunum þykir ekki lengur í samræmi við hugmyndafræði samskipunar.``
    Mér þykir þetta nokkuð einkennilegt orðalag og eins og það sé algert ómark sem stendur í 11. gr., 4. lið. Ég vænti þess að ráðherra gefi frekari skýringar á því hvað hér sé verið að fara. Er það einlægur ásetningur þeirra sem að frv. stóðu að leggja niður hinar ágætu stofnanir sem hér eru tilteknar? Það mál þarf nánar skoðunar við.
    Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að tefja tímann frekar í umræðunni. En ég hnaut um þetta eitt öðru fremur þegar farið var yfir frv. Fjölmörg önnur atriði þurfa ítarlegri skoðunar við og það verður væntanlega gert í nefnd.