Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 15:41:00 (3717)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir viðhafði í umræðum í dag vil ég gjarnan taka fram eftirfarandi:
    Ég tel mig fullfæra um að svara gagnrýni á sjálfa mig en hitt er annað að ég kýs að velja þann tíma sjálf. Athugasemdir mínar við frv. þetta um málefni fatlaðra eru gerðar á málefnalegum grunni og er ekki nema eðlilegt að einhver áherslumunur sé á milli manna í svo viðkvæmum og viðamiklum málaflokki. Slíkt eru ekki nema sjálfsögð vinnubrögð. Ég ætla ekki að endurtaka athugasemdir mínar við frv. sem ég viðhafði í sl. viku en ég hef ekki trú á öðru en þau vinnubrögð sem ég hef lýst verði málefni fatlaðra til bóta og væntanleg lög þar af leiðandi verði því enn betri að öllu leyti. En ég vil við þetta tækifæri segja að ég hef átt því láni að fagna að gegna fjölbreyttu starfi bæði hérlendis og erlendis. Á sl. ári var ég kjörin til Alþingis í fyrsta sinn. Alls staðar sem ég hef unnið fram til þessa hef ég notið þess að starfa á málefnalegum grundvelli og án persónulegra ávirðinga þótt menn hafi auðvitað greint á og ég vonast til þess að ég geti starfað á sama grundvelli hér á hinu háa Alþingi. Eins og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og mörgum öðrum er kunnugt hef ég starfað mestmegnis við heilbrigðisþjónustuna á undanförnum 25 árum en ég hef einnig komið að starfsemi í þjónustu þroskaheftra, einkum á Kópavogshæli og á Sólheimum í Grímsnesi. Ég hef mikinn áhuga á þjónustu við fatlaða vegna þessara starfa og ekki síður af löngum kynnum mínum af starfsemi Reykjalundar sem endurhæfingarstofnunar.
    Ég veit vart hvort ég á að taka þessa skoðun hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og jafnvel fleiri þingmanna Alþb. sem hrós þegar mér er kennd hugmyndasmíði í stefnu heilbrrh. Verra þykir mér þó það persónulega skens í minn garð sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur viðhaft hér í umræðum um frv. um málefni fatlaðra. Mér er kunnugt um í viðræðum við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem forseta sameinaðs þings hversu annt henni hefur verið um virðingu Alþingis og mikilvægi málefnalegra umræðna. Því þykir mér miður að hv. þm. skuli ekki hafa verið samkvæm sjálfri sér að þessu sinni og fylgt þessari þáverandi skoðun sinni.