Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 13:38:02 (3725)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. Ég vil spyrja hann hvort ríkisstjórnin hyggist eitthvað fyrir varðandi það að greiða fyrir eða reyna að koma hreyfingu á viðræður um kjarasamninga í landinu og afstýra þannig því sem annars virðist blasa við, yfirvofandi átökum, jafnvel allsherjarátökum á vinnumarkaði innan fárra vikna. Ég vil sem sagt spyrja hæstv. forsrh. í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem sjáanlega er komin upp í viðræðum um kjarasamninga hvort hæstv. ríkisstjórn hyggist aðhafast eitthvað í þeim málum og þá hvað eða hvort hæstv. ríkisstjórnin líti e.t.v. svo á í þessum málum sem fleirum að henni komi þetta ekki við.