Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 13:54:01 (3732)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Vegáætlun fyrir árin 1991--1994 var samþykkt á Alþingi í mars sl. Þar var gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnir yrðu nýttir til hins ýtrasta, þ.e. þeir yrðu hækkaðir eins og lög heimiluðu. Þá

var einnig miðað við að afsláttur sá af blýlausu bensíni sem tekinn var upp 1989 af þáv. ríkisstjórn yrði lagður niður. Með hliðsjón af markmiðum ríkisstjórnarinnar um að halda verðbólgu niðri og stuðla að hófsömum samningum á vinnumarkaði þykir ekki fært að nýta markaða tekjustofna eins og fyrirhugað var. Bensíngjald og þungaskattur var hækkað um 2% í upphafi árs og verður ekki hækkað frekar á árinu.
    Samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar mætti hækka bensíngjald um 5% og þungaskatt um 10% umfram það sem gert var um áramót. Þessar heimildir verða hins vegar ekki notaðar eins og á stendur. Þá verður heldur ekki lagður niður afsláttur af blýlausu bensíni eins og áformað var en hann nemur nú 2 kr. og 4 aurum á lítra. Af þeim ástæðum sem hér eru raktar verða markaðar tekjur um 250 millj. kr. lægri 1992 en reiknað var með við samþykkt vegáætlunar. Til að draga úr halla ríkissjóðs var enn fremur ákveðið við afgreiðslu fjárlaga að 265 millj. kr. af tekjum Vegasjóðs rynni í ríkissjóð. Til ráðstöfunar í vegáætlun verður því 515 millj. kr. lægri fjárhæð en gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir og eru þá tölur bornar saman á sambærilegu verðlagi. Lækka verður gjaldahlið áætlunarinnar til samræmis við þetta. Þar sem öllum útgjöldum var skipt á verkefnaliði og öllum fjárveitingum til nýrra framkvæmda skipt á einstök verkefni verður ekki komist hjá að endurskoða vegáætlunina á Alþingi og því er tillagan flutt.
    Við lækkun útgjalda í tillögunni hefur viðhalds- og þjónustuliðunum verið hlíft. Er það byggt á þeirri skoðun að þessir liðir þola ekki lækkun ef halda á vegakerfinu í nothæfu ástandi og tryggja umferðinni sæmilega þjónustu. Þó vil ég geta þess að vegna hagstæðrar tíðar í haust og fram undir þetta af þessum vetri hefur tíð verið góð og af þeim sökum var greiðsluafgangur af vetrarþjónustu um síðustu áramót.
    Liðurinn Stjórn og undirbúningur er lækkaður um 15 millj. kr. en þar er um að ræða hina almennu lækkun launa og rekstrargjalda sem ákveðin var við gerð fjárlaga. Aðrir liðir lækka samtals um 500 millj. kr. Sú lækkun dreifist hlutfallslega á aðalliði en tilraunir, fjallvegir og brúargerð lækka þó hlutfallslega heldur minna en aðrir. Þar er þó um smáar tölur að ræða sem litlu breyta í heildardæminu. Einstakir verkefnaflokkar innan nýbygginga lækka hlutfallslega jafnt með tveimur undantekningum. Í apríl sl. gerði þáv. fjmrh. og borgarstjóri Reykjavíkur samning um greiðslu skuldar ríkisins við borgina sem myndast hefur á undanförnum árum vegna mikilla framkvæmda borgarinnar á þjóðvegum í þéttbýli. Samningurinn kveður á um mun hærri greiðslu 1992 en tiltekið var í vegáætlun. Til að standa við samninginn þarf að hækka fjarveitingu til skuldargreiðslunnar um nálega 74 millj. kr. á árinu. Þetta veldur því að fjárveiting til höfuðborgarsvæðisins hækkar lítillega í heild þó að allar aðrar fjárveitingar innan þessa liðar lækki. Þá er reiknað með í tillögunni að fjárveiting til Vestfjarðaganga lækki ekki. Við afgreiðslu vegáætlunar var gert ráð fyrir að aflað yrði lánsfjár til viðbótar fjárveitingu í vegáætlun til að halda mætti uppi eðlilegum framkvæmdahraða. Verksamningur sem gerður var sl. sumar var í samræmi við þetta. Samkvæmt honum þyrfti að afla lánsfjár að upphæð 250 millj. kr. til viðbótar fjárveitingunni en það er um þriðjungur heildarkostnaðar við verkið á árinu. Við gerð fjárlaga var ákveðið að afla ekki þessa lánsfjár. Við þær aðstæður er lagt til í tillögunni að fjárveitingin haldist óbreytt. Semja verður við verktaka verksins um að hægja á verkinu og eru viðræður um það hafnar og eftir því sem ég veit best ekki annað fyrirsjáanlegt en góð niðurstaða verði á þeim. Aðrar fjárveitingar innan stórverkefna lækka hlutfallslega eins og aðrar nýbyggingar. Í heild lækkar liðurinn þó minna en aðrir vegna þess að fjárveiting til Vestfjarðaganga er óbreytt eins og áður sagði. Þrátt fyrir þá lækkun útgjalda sem felst í tillögunni verða heildarútgjöld til vegamála heldur meiri en verið hefur undanfarin ár. Fjárveitingar til nýrra framkvæmda verða svipaðar nú og á síðasta ári en viðhald og þjónusta fær heldur meira í sinn hlut en verið hefur undanfarin ár.
    Ég tel ástæðu til að víkja nokkrum orðum að vegalögum. Þau eru að stofni til frá árinu 1963 og eru því að nálgast þrítugsaldurinn. Lögunum hefur að vísu verið breytt nokkrum sinnum en þær breytingar hafa beinst að einstökum atriðum laganna. Engin heildstæð endurskoðun hefur farið fram á lögunum og lætur að líkum að full þörf er orðin á því. Forveri minn á stóli samgrh. fól vegamálastjóra að vinna upp hugmyndir að endurskoðun vegalaga. Hefur verið unnið að því í Vegagerðinni undanfarin missiri. Um áramótin fékk ég þessar hugmyndir í hendur og var það raunar síðasta embættisverk fráfarandi vegamálastjóra, Snæbjarnar Jónassonar, að afhenda mér þær. Ég hef skipað nefnd sem tekur þessar hugmyndir til skoðunar og frekari vinnslu. Formaður hennar er Þórhallur Jósefsson en aðrir nefndarmenn eru Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Vegagerðar ríkisins, og alþingismennirnir Árni Mathiesen, Gunnlaugur Stefánsson, Karl Steinar Guðnason og Pálmi Jónsson. Ég vænti þess að þeir muni skila niðurstöðu nú á þessum vetri.
    Hæstv. forseti. Það er álitamál til hvaða nefndar rétt sé að vísa þáltill. þessari og umbreyting á þál. um vegáætlun fyrir árin 1991--1994 og enn fremur till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1992--1995 sem einnig er á dagskrá þessa fundar. Að athuguðu máli og höfðu samráði við hæstv. forseta og formenn fjárln. og samgn. legg ég til að tillögunum verði báðum vísað til samgn. Ég tek fram að ég tel eðlilegt að fjárln. fái tillögurnar til umsagnar til að fara yfir útgjalda- eða tekjurammann og ganga þannig úr skugga um að hann sé í samræmi við forsendur fjárlaga. Ef tillögur eru uppi um að brjóta upp ramma fjárlaga er rétt að fjárln. fjalli sérstaklega um þær.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.