Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:45:02 (3739)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Áður en haldið er áfram með 6. dagskrármálið vill forseti láta þess getið að sú málsmeðferð sem fyrirhuguð var á málinu, þ.e. að hér mætti aðeins frsm. þáltill. tala í fimmtán mínútur en aðrir þingmenn í átta mínútur tvisvar hver, er skv. 44. gr. þingskapalaga þar sem gert er ráð fyrir að umræðan fari fram með þessum hætti nema ósk liggi fyrir um annað, þ.e. að ræður séu án tímamarka. Hins vegar getur forseti alveg fallist á að eðlilegt hefði verið og tillitssemi við hv. þm. að taka þetta fram í upphafi vegna þess að hér er um nýtt ákvæði í þingskapalögunum að ræða og ekki hefur áður reynt á þetta nú á þessu þingi. Því vill forseti taka tillit til þess og leyfa að umræðan fari fram eftir almennum ákvæðum 55. gr.
    Forseta langar jafnframt til að gefnu tilefni, af því að það hefur nú nokkrum sinnum verið gerð athugasemd við það að forseti væri tekinn upp á því að gefa orðið um ,,gæslu þingskapa`` taka fram að það er gert samkvæmt orðanna hljóðan eins og 2. mgr. 55. gr. þingskapalaganna segir til um. Vill nú forseti lesa það til upplýsingar:
    ,,Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um gæslu þingskapa og til þess að bera af sér sakir.``
    Þegar menn biðja um orðið um þingsköp, eins og áður var sagt, gefur forseti orðið um gæslu þingskapa eins og stendur í 2. mgr. 55. gr. Vonast forseti til þess að nú hafi þingmenn skilið hvers vegna þetta orðalag er notað. Það er ekki fundið upp af forseta heldur er það samkvæmt þingskapalögum.
    Um gæslu þingskapa tekur til máls hv. 4. þm. Norðurl. e. og nú þætti forseta gaman að því að hv. þm. notuðu líka þetta orðalag eins og þingsköpin gera ráð fyrir.