Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:48:00 (3747)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir þessi orð. Mér finnst sjálfsagt mál að samgn. kanni það hvort þetta er lögformlegur gerningur eða ekki. Og fjárln. líka og kannski Ríkisendurskoðun. Hvernig væri að láta hana kanna þetta líka? Ég tek eindregið undir það og vona að þetta verði kannað af öllum. En það er rétt að Landsbankinn fái vitneskju um að hér hafi, ef ég man rétt, nefndarmaður í fjárln. Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, dregið í efa að þessi samningur væri lögformlegur. Þar með er útstrikun Landsbankans á vanskilaskuld við Reykjavíkurborg á síðustu vikum og mánuðum í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar ógild. Sú gagnrýni sem fram hefur komið í bankaráði Landsbankans á þann gerning á við rök að styðjast. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir í opinberum gögnum að Reykjavík var með yfirdrátt í Landsbankanum sem ég kalla vanskilaskuld, yfirdráttur af þessari stærðargráðu, var u.þ.b. 2 milljarðar eða svo. Hann var minnkaður á grundvelli þessa bréfs af Sverri Hermannssyni, bankastjóra Landsbankans. Nú hefur Einar K. Guðfinnsson dregið í efa að það sé lögformlegt. Það eina sem Landsbankinn getur gert nú er að hækka skuld Reykjavíkur á yfirdráttarreikningnum um þennan rúma milljarð og innheimta vexti af Reykjavíkurborg fyrir það. Ég veit að innan Landsbankans hafa menn dregið í efa hvort það hafi verið rétt hjá bankastjóranum að nota framtíðarbréf af þessu tagi til að minnka skuldina á yfirdráttarreikningnum gagnvart Reykjavíkurborg þó það liti pent út fyrir fráfarandi borgarstjóra. Flokksbróðir hans bankastjórinn gerði honum þennan greiða. Svo ég fagna því í sjálfu sér að þetta hefur komið hér upp og hvet til þess að þingmaðurinn fylgi þessu eftir og að samgn. geri þinginu grein fyrir athugun sinni, fjárln. einnig og væntanlega Ríkisendurskoðun og svo verði Landsbankinn látinn vita.