Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 16:36:00 (3752)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka mál þetta fyrir. Rætt hafði verið um það hygg ég að eðlilegt væri að taka málið fyrir eftir að ég kæmi heim og ég hafði lýst því yfir að ég væri því sammála að gera það við fyrsta hentugt tækifæri sem er núna.
    Ég mundi kannski ekki almennt svara spurningarlista af þessu tagi í umræðum eins og þessum. En ég ætla samt sem áður að leitast við að gera það hér á eftir, eftir því sem efni standa til. Ég tel nauðsynlegt að fara aðeins nánar yfir þetta mál því ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur fundist umræðan um heimsókn til Ísraels og reyndar samskipti við ríki á þessu viðkvæma svæði hafi verið afskaplega sérkennileg hér á Íslandi, bæði í blöðum og jafnvel hér á Alþingi og mjög úr takt við það sem gerist með öðrum ríkjum. --- Er takmarkaður tími? ( Forseti: Forseti vill ítreka að hæstv. ráðherra hefur hálftíma tvisvar sinnum, hálftími í senn.)
    Ég vil þá í upphafi rekja nokkuð ástand á þessum svæðum sem menn hafa rætt hér um og að mínu viti oft mjög villandi. Ef við tökum undanfarin tvö ár, vegna þess að vikið er að stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar, þá hafa helstu áhrifaþættir og atburðarás á þessu svæði að undanförnu verið að ríkisstjórn Likud-bandalagsins og Verkamannaflokksins féll 15. mars 1990 og það var í fyrsta sinn sem ísraelsk ríkisstjórn féll vegna deilna Araba og Ísraelsmanna. Klofningur var þá um friðartillögur Bakers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, einkum snerist deilan um það hvaða Palestínumenn, þ.e. frá hvaða svæðum, gætu tekið þátt í friðarviðræðunum. Likud-bandalagið vildi ekki samþykkja Palestínumenn frá austurhluta Jerúsalem því að sá hluti væri ekki hernuminn heldur hluti af Ísrael. Þeir vildu ekki heldur landfótta Palestínumenn því að þar með væri PLO, sem Ísraelsmenn viðurkenna ekki, komið með fingurna í þessa samninga. Verkamannaflokkurinn var hins vegar reiðubúinn til að fallast á að tveir landflótta Palestínumenn, búsettir erlendis, og tveir búsettir í austurhluta Jerúsalem gætu tekið þátt í viðræðum af þessu tagi. Afleiðingin varð sem sagt sú að þessi stjórn sprakk. Verkamannaflokkurinn reyndi að mynda nýja ríkisstjórn, það tókst ekki. Likud-bandalaginu tókst að mynda bandalag með heittrúuðum og sú stjórn sprakk fyrir skömmu. Eftir að Jassir Arafat neitaði að fordæma hryðjuverk félaga úr PLO hætti Bandaríkjastjórn um hríð að leita eftir möguleikum á friðarviðræðum á þessu svæði.
    Síðan hefur mjög margt gerst á svæðinu og þó má kannski segja að það sem meginmáli hefur skipt er að Sovétríkin, sem bökkuðu upp Sýrlendinga og aðra áhrifaaðila á svæðinu --- því það eru aðrir aðilar sem stýra þar ferð í samningaviðræðum við Ísrael en Palestínumenn sem eru meira peð í því tafli en áhrifavaldar --- hrundu í þeirri mynd sem menn þekktu þau og eftir að Jassir Arafat studdi Saddam Hussein við innrás í Kúvæt minnkuðu verulega hans áhrif á svæðinu. Segja má að þar með hafi verið hægt að leggja grundvöll að þeim samningaviðræðum sem nú hafa staðið yfir.
    Við Íslendingar höfum alla tíð stutt þau sjónarmið að það sé nauðsynlegt til að ná fram niðurstöðu á svæðinu að aðilarnir ættust við beint og sjálfir. Utanaðkomandi aðilar mundu aldrei finna þá lausn sem duga mundi á þessu svæði.
    Ef ég fer aðeins lauslega yfir stefnu Íslendinga frá 1989 til þessa dags, þá kom hún fram í skýrslu utanrrh. til Alþingis vorið 1989. Þar kemur fram að vænlegasta leiðin til að koma á friði í Miðausturlöndum sé að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu undir merki Sameinuðu þjóðanna. Þar verði samningaumleitanir grundvallaðar á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 1967, þ.e. ályktun 242 og ályktun 338 frá 1973. Alþingi ályktaði síðan 18. maí 1989 um deilur Ísraels og Palestínumanna. Um það orðalag var, eins og kom hér fram í umræðum áður en ég fór til Ísraels, samstaða allra flokka í utanrmn. Í þeirri ályktun segir m.a. að ísraelsk stjórnvöld verði að vernda óbreytta borgara samkvæmt alþjóðasamþykktum um íbúa hernuminna landsvæða. Einnig er talið nauðsynlegt að báðir aðilar forðist ofbeldisverk. Einnig kemur fram að tafarlaust eigi að halda ráðstefnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt sé að bæði Palestínumenn og Ísraelsmenn viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 1967 og frá 1973. Viðurkenna ber sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna og loks er sagt að Alþingi telji að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við PLO.
    Í skýrslu utanrrh. til Alþingis vorið 1990 segir að brýna nauðsyn beri til að binda enda á hernám Ísraelsmanna á vesturbakkanum og Gasa. Ástandið á herteknu svæðunum sé óviðunandi og harkalegar aðgerðir ísraelskra yfirvalda séu áhyggjuefni. Það verður að krefjast þess að Ísrael sem hernámsaðili virði ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum og að deiluaðilar forðist að grípa til ofbeldis og sýni þannig fram á einlægan vilja til að ná varanlegum friði. Hins vegar sé ekki unnt að líta eingöngu á aðra hlið málsins og skella allri ábyrgðinni á Ísraelsmenn eða halda að málið verði leyst á þann hátt eingöngu að þeir yfirgefi hin herteknu svæði. Palestína verði viðurkennd sem ríki og PLO sem ríkisstjórn þess. Aðstæður krefjist þess að litið sé á málið í víðara samhengi. Vert sé að ítreka að Ísrael sé umkringt af ríkjum sem ekki viðurkenni tilvistarrétt þess og að sérhver lausn verði því að tryggja tilverurétt Ísraelsríkis. Þetta er stefna sem kom fram þegar málshefjandinn var í ríkisstjórn Íslands.
    Í óformlegum viðræðum sem Steingrímur Hermannsson þáv. forsrh. átti við Jassir Arafat í Túnis 2. maí 1990 var Arafat kynnt þessi ályktun en Steingrímur tók jafnframt fram að í þeirri heimsókn sinni fælist engin viðurkenning Íslands á Palestínuríki og nauðsynlegt væri að viðræður hæfust milli Ísraels og Arabaríkja um friðsamlega og réttláta lausn deilumála.
    Í skýrslu utanrrh. til Alþingis haustið 1990 kemur aftur fram gagnrýni á aðgerðir Ísraelsmanna á herteknu svæðunum. Í umræðum um skýrsluna kom einnig fram að utanrrh. hefði sent David Levy, utanríkisráðherra Ísraels, bréf þar sem þess var óskað að Ísraelsstjórn tryggði vernd á lífi og limum íbúa á hernumdu svæðunum í samræmi við alþjóðasamþykktir um rétt íbúa á hernumdum landsvæðum. Þetta kom sérstaklega til vegna manndrápa ísraelsku lögreglunnar í Jerúsalem 8. okt. 1990 sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi einróma. Hjá utanrrh. kom og fram að friðsamleg lausn á deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna yrði að vera hluti af nýrri heildarlausn í Miðausturlöndum sem Arabar og Ísraelsmenn yrðu sjálfir að hafa forgöngu um að koma til leiðar. Taka yrði tillit til tveggja grundvallarsjónarmiða: Í fyrsta lagi nauðsynjar þess að tryggja Ísraelsríki tilverurétt og öryggi innan umsaminna landamæra. Í öðru lagi yrði að taka fullt tillit til eðlilegra krafna Palestínumanna um rétt til sjálfstjórnar.
    Íslendingar voru í fyrra meðflytjendur ásamt 80 öðrum ríkjum að tillögu um að ógilda ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1975 sem lagði síonisma og kynþáttamisrétti að jöfnu en allsherjarþingið samþykkti þessa tillögu með atkvæðum 111 ríkja.
    Íslendingar hafa tekið þátt í að ítreka þá skoðun Sameinuðu þjóðanna að einhliða ákvörðun Ísraelsmanna að Jerúsalem skuli vera höfuðborg Ísraels sé ógild. Síðast greiddu Íslendingar atkvæði með slíkri ályktun á allsherjarþinginu í fyrra. Þá greiddu Íslendingar einnig atkvæði með ályktunum þar sem stefna Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum er gagnrýnd og tekið fram að ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum næðu til allra hernumdu svæðanna, þar á meðal til Jerúsalem. Í annarri ályktun sem Ísland greiddi atkvæði um er landnám Ísraels á hernumdu svæðunum harðlega gagnrýnt. Í þessum atkvæðagreiðslum sem og öðrum um málefni Miðausturlanda var afstaða Norðurlandanna samræmd.
    Íslendingar hafa, eins og fram kom í svari mínu hér áður en ég fór í heimsókn til Ísraels, gerst meðflytjendur að tillögu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf, sem á rætur að rekja til Evrópubandalagsins, um byggðir Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum. Þar er minnt á að samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna hafi hver maður rétt til að yfirgefa hvaða ríki sem er, þar á meðal sitt eigið, og rétt til að snúa aftur til eigin lands. Ítrekað er að ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stíðstímum eigi við palestínskt landsvæði og öll arabísk landsvæði sem Ísraelsmenn hernámu 1967, þar á meðal austurhluta Jerúsalem sem er innifalinn í þessum ályktunum. Þar er lýst yfir alvarlegum áhyggjum vegna stórfellds landnáms Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum og ítrekað að landnám ísraelskra borgara á hernumdu svæðunum sé ólöglegt og brjóti í bága við ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Bent er á að nauðsynlegt sé að skapa aðstæður sem hvetji til árangurs í friðarviðræðum en það eru þær viðræður sem hófust með Madrid-ráðstefnunni 1991. Þeirri skoðun er lýst að ef Ísraelsmenn hætta landnámsstefnu sinni mundi það verða jákvætt framlag til að skapa slíkar aðstæður.
    Ég tel að þetta yfirlit sýni að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar, en að henni er vikið í spurningum málshefjanda, sé afgerandi og skýr, samstæð, heildstæð stefna, og í þessari stefnu felist, og þess er jafnan gætt þegar hún er kynnt, að taka verði tilliti til réttmætra hagsmuna beggja deiluaðila. Jafnframt hefur komið fram bæði hjá þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum og engin breyting hefur verið þar á gerð, að það sé óhagganleg skoðun íslensku ríkisstjórnarinnar og hafi ætíð verið að tryggja verði tilverurétt Ísraelsríkis.
    Þessi stefna, eins og ég rakti, byggist á stuðningi Íslands við helstu ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur stefna íslenskra stjórnvalda fram svo að enginn þarf að fara í grafgötur um hana. Þessi stefna Íslendinga er í samræmi við stefnu yfirgnæfandi meiri hluta ríkja hinna Sameinuðu þjóða. Auðvitað er það ljóst að í þessari stefnu felst ekki viðurkenning á yfirráðarétti Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum eða um réttindi Palestínumanna þar sem Íslendingar telja að séu í samræmi við Genfarsáttmálann. Það er litið þannig á af hálfu Íslendinga að þau svæði sem umdeild eru séu hernumin svæði í alþjóðlegum skilningi þeirra orða og með þau eigi að fara samkvæmt því. Það er alveg fráleitt að halda því fram, enda heldur enginn aðili slíku fram erlendis, að í heimsókn forsætisráðherra ríkis, hvort sem það er Íslands eða annarra ríkja, til Jerúsalem til að mynda, felist viðurkenning eða staðfesting á réttmæti aðgerða Ísraelsmanna innan hernumdu svæðanna eða viðurkenning yfirleitt á yfirráðarétti þeirra þar. Hins vegar er algerlega ljóst að það er verið að nálgast öll þessi mál að mínu viti sem pólitísk vandamál.
    Ég hef haldið því fram að ef menn einblíndu á lagabókstafinn varðandi þessa þætti mundi enginn árangur nást. Ef aðilar gerðu það sjálfir þá stæðu ekki yfir núna neinar friðarviðræður í Madrid eða innan Madrid-formúlunnar.
    Ég átti í heimsókn minni mjög gagnlegar viðræður við ráðamenn Ísraelsríkis. Þrátt fyrir það að ástandið hafi auðvitað verið erfitt, eins og kom fram hjá málshefjanda, gáfu þeir sér mjög ríkulegan tíma

til viðræðna af þessu tagi. Viðræðurnar tóku jafnvel lengri tími en venjulega þegar svokallaðar kurteisisheimsóknir eða opinberar heimsóknir standa yfir. Þar átti ég þess kost að láta sjónarmið Íslendinga koma fram og gerði það auðvitað. En það kom líka glöggt fram að gestgjafinn fór mjög nærri um okkar sjónarmið. Þeir hafa auðvitað allar ályktanir okkar, þeir hafa afstöðu okkar þegar málin hafa verið rædd hjá Sameinuðu þjóðunum. Þeir hafa atkvæðagreiðslurnar, þeir sjá hvernig atkvæði eru greidd. Þeir vita um afstöðu okkar til hernumdu svæðanna. Ég ítrekaði andúð mína og andstöðu við byggð á þeim svæðum, taldi þau bæði ólögleg og auk þess líkleg til að sýna að friðarvilji Ísraelsmanna væri ekki heill. Þessu var auðvitað mótmælt af hálfu gestgjafanna en allt þetta var rætt. Amnesty International hefur komið sínum athugasemdum á framfæri við þessa aðila eins og þau alþjóðasamtök gera. Það fór ekkert á milli mála. Auðvitað höfum við komið okkar sjónarmiðum mjög ákveðið á framfæri við þessa aðila.
    Það var líka fróðlegt að fylgjast með þeirra sjónarmiðum, þeirra afstöðu og þeirra áherslu. Hún er auðvitað töluvert önnur en við mundum kjósa og okkar mat og þeirra er mjög öndvert. Ég ætla ekki að vitna í þessi samtöl, það er ekki venja, ekki beint. En ég get þó sagt að þar kemur fram í öllum þessum viðræðum bæði við forsætisráðherrann, forsetann og utanríkisráðherrann og reyndar fleiri embættismenn sem við áttum tal við þarna að þeir leggja mikla áherslu á þessar friðarviðræður og þeir eru sannfærðir um að þær muni skila árangri fyrr eða síðar og jafnvel fyrr en síðar. En þeir segja jafnframt að þessar friðarviðræður muni aldrei breyta þeirri afstöðu þeirra að hermdarverkum, sem þeir kalla svo, og auðvitað eru það hermdarverk í ýmsum skilningi sem þarna eru framin, eins og morðin á hermönnunum sofandi í herskálunum, muni þeir ætíð og alltaf svara af fullkominni hörku. Friðarviðræður munu engu breyta í þeim efnum. Það hafi verið stefna þeirra frá upphafi og það muni þeir gera áfram. Það er engin vafi á því að þetta er þeirra sjónarmið.
    Það er líka ljóst að þeir gera sér fulla grein fyrir því að hernumdu svæðin eru ekki þeirra um aldur og ævi. Þeir tala kannski öðruvísi um austurhluta Jerúsalem sem er þeim heilög borg eins og reyndar fleiri þjóðum og trúarhreyfingum. En þeir gera sér grein fyrir því að þeir munu ekki ríkja á hernumdu svæðunum alla tíð. Þess vegna eru viðræðurnar haldnar núna undir Madrid-formúlunni, sem reyndar útilokar umræður um austurhluta Jerúsalem. Þeir halda því hins vegar fram þegar við vörum við og mótmælum byggingu á hernumdum svæðum að það vandamál leysist og verði úr sögunni þegar sátt náist um þau svæði og um þá sjálfstjórn sem þeir hafa boðið og boðin var fram fyrst í Camp David-viðræðunum á sínum tíma. Þeir halda því fram að þá leysist mál af þessu tagi.
    Svo ég víki, þar sem tíminn er naumur, nokkuð að þeim spurningum sem málshefjandinn, hv. þm., bar hér fram þá ætla ég að lesa þær upp og svara þeim jafnharðan.
    1. Hvers vegna var heimsókn forsrh. til Ísraels ekki rædd í ríkisstjórninni áður en hún var ákveðin? Svarið er: Hún var rædd í ríkisstjórninni.
    Utanrrh. mun hins vegar hafa verið erlendis en starfandi utanrrh. var á fundinum þegar um málið var rætt.
    2. Hver er afstaða forsrh. og ríkisstjórnar til morðsins á Abbas Musawi, eiginkonu hans og ungum syni sem Ísraelsher myrti eftir að hafa skipulagt morðið mánuðum saman? Hver er afstaða forsrh. og ríkisstjórnarinnar til árása Ísraelshers á þorpin Kafra og Yater en í þeirri aðgerð réðst Ísraelsher á friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og skutu á friðargæslumenn Sameinuðu þjóðanna?
    Hér er ekki spurt um afstöðu okkar til árásanna á ísraelsku hermennina sem voru drepnir með öxum og hnífum á mjög viðurstyggilegan hátt. Af einhverjum ástæðum er ekki spurt um það. Hér er heldur ekki spurt um afstöðu okkar til þess að Hizbollah-hreyfingin skaut eldflaugum yfir á svæði Sameinuðu þjóðanna og særði tugi manna og m.a. lést barn, eins og kunnugt er.
    Ég lét það koma fram í samtölum mínum við Shamir forsætisráðherra að auðvitað harmaði ég þessa atburði báða, morðið á ísraelsku hermönnunum og þann atburð sem fyrirspyrjandi fjallar um. Ísraelsmenn halda því fram, reyndar gera það fleiri, að þessi leiðtogi hafi staðið fyrir morðum á ekki bara tugum heldur hundruðum manna. Hann hafi staðið fyrir gíslatökum erlendra manna, verið þar í fyrirsvari, og séð um og gefið fyrirmæli um að slíkir aðilar væru teknir af lífi. Þetta eru þeirra rök. Og þeir halda því fram að þeir hafi haft harma að hefna, ekki sérstaklega vegna árásarinnar á ísraelsku hermennina heldur vegna gamalla synda þessa tiltekna manns, en auðvitað hörmum við þessa atburði alla.
    Innrásin í gegnum línu Sameinuðu þjóðanna. Að vísu er nokkuð deilt um þennan aðdraganda gagnvart liðsmönnum Sameinuðu þjóðanna enn sem komið er og eftir því sem ég best veit. Við vöruðum við þáttum af slíku tagi fyrir fram á fundum með forráðamönnum Ísraelsríkis. Við settum okkur ekki í dómarasæti en vöruðum við atburðum af þessu tagi. Og sem aðilar að Sameinuðu þjóðunum hljótum við að harma að til þessara atburða skuli hafa komið.
    Varðandi skýrslu Amnesty International um mannréttindabrot þá ræddi ég hana ekki við ísraelska forsætisráðherrann. Ljóst er að þessi samtök hafa komið skýrslum sínum á framfæri og að við gagnrýndum ákveðna þætti í stefnu Ísraelsmanna, einkum á hernumdu svæðunum.
    Í fimmta lagi er spurt hvers vegna ég hafi lagt blessun mína yfir herteknu svæðin með heimsókn minni á landsvæði Palestínumanna. Ég svaraði því í yfirliti mínu áðan að í heimsókn forsrh. þessa ríkis eða annarra, utanrrh. þessa ríkis eða annarra, felst auðvitað engin slík blessun og engin slík yfirlýsing. Það er afskaplega merkilegt og menn hafa sagt hér að ég hafi tekið þátt í því að rjúfa einangrun Ísraelsríkis með

heimsókn minni. Það hafa tugir utanríkisráðherra, forsætisráðherra og forseta komið í opinberar og óopinberar heimsóknir til Ísraels. Ég efast um að nokkurt annað land hafi verið jafnmikið heimsótt að undanförnu af opinberum aðilum, ef frá eru taldar Sameinuðu þjóðirnar, vegna þess að á Vesturlöndum telja menn mjög mikilvægt að fá upplýsingar frá fyrstu hendi frá þessum aðilum og láta sjónarmið sín koma fram við þá. Engum dettur í hug, eins og gert hefur verið á þessu þingi og reyndar í blöðunum, að túlka það með þeim hætti sem menn hafa gert hér og lýsir afskaplega miklu þekkingarleysi á samskiptum manna úti í hinum breiða heimi, svo ekki sé nú meira sagt. Ég er hér með lista yfir þessar heimsóknir og það er ótrúlegur fjöldi sem hefur komið í heimsókn á örskömmum tíma. Ætli það hafi ekki komið álíka fjöldi á einu og hálfu ári til Ísraels og komið hefur til Íslands á undanförnum 30 árum eða svo. Og auðvitað er fráleitt að halda því fram að þar með séu allir þeir forustumenn ríkja á Vesturlöndum að viðurkenna allt sem Ísraelsríki gerir.
    Síðan er vikið að leiðurum Morgunblaðsins. Að vísu er ekki spurt um leiðara Dagblaðsins enda geri ég ekki ráð fyrir að menn taki þá leiðara almennt mjög alvarlega hér í þessum sal. En spurt er um leiðara Morgunblaðsins og hvort Ísraelsstjórn eigi að biðja forsrh. og íslensku þjóðina afsökunar á því frumhlaupi sem átti sér stað í heimsókn forsrh. til Ísraels og einnig að á meðan það er ekki gert muni þetta mál valda vandkvæðum í samskiptum Íslands og Ísraels. Ég er hér með skeyti til utanrrn. frá Yngva Yngvasyni sendiherra, sem ég fékk afrit af í dag, og þar stendur:
    ,,Vegna endurtekinna missagna íslenskra fjölmiðla um hvernig margumrætt bréf Simons Wiesenthals Center barst í hendur Davíðs Oddssonar forsrh. skal tekið fram að bréfið var afhent mér af gestamóttöku Hótel King David í Jerúsalem. Bréfið til forsrh. var inni í umslagi sem merkt var mér. Fréttir þess efnis að ísraelska utanríkisráðuneytið hafi afhent bréfið eru því ekki á rökum reistar. Umrædd ákæra barst ekki í tal á fundum sem Davíð Oddsson forsrh. átti við forseta, forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraelsríkis. Hins vegar tók Dov Shilansky þingforseti málið upp er forsætisráðherra heimsótti þingið. Sagðist hann gera það að eigin frumkvæði.``
    Það er rétt að þetta komi fram vegna þess að í raun gerir það flestar þær spurningar sem hér koma á eftir óþarfar því þau ummæli sem þar er vitnað til byggjast að verulegu leyti á þessum misskilningi með hvaða hætti þetta bréf var afhent.
    Þrátt fyrir það vil ég taka fram að mér brá nokkuð þegar ég fékk þetta bréf í hendur, nánast áður en ég var búinn að setja niður handtöskuna inni á mínu hótelherbergi á þessu ágæta hóteli. Ég hefði kosið að slíkir aðilar, sem eru þekktir og viðurkenndir aðilar, heimsþekktir, hefðu sýnt þá kurteisi að koma þessu bréfi til skila annaðhvort áður en ég fór í þessa ferð eða þá eftir hana eða með öðrum hætti. En það að þeir gerðu það með þessum hætti hafði auðvitað engin áhrif á heimsókn mína í Ísrael. Flestar þær spurningar sem koma fyrir síðar tengjast þessum misskilningi og því er ekki ástæða fyrir mig í sjálfu sér að fjalla sérstaklega um þær.
    Ellefta spurningin var hvort við munum endurskoða afstöðu okkar til stefnu Ísraelsríkis í ljósi þess sem gerst hefur, og þá skilst mér að einkum sé verið að vísa til þessa bréfs. Það hefur auðvitað ekki verið gert og ég vek athygli á því að afstaða núv. ríkisstjórnar og þeirrar fyrrverandi er mjög áþekk, ef ekki alveg sú sama, til þeirra deilna sem á þessu svæði hafa verið.
    Síðan er spurt: Hver verða viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við bréfi Wiesenthal-stofnunarinnar sem afhent var forsrh. í Ísrael? Þetta bréf birtir af hálfu þessarar stofnunar mjög alvarlegar ákærur á hendur íslenskum ríkisborgara. Mér fannst það ekki viðeigandi að ég ræddi það mál á erlendri grundu og lýsti því jafnvel yfir að málið mundi ég ekki taka til efnislegrar umræðu nema á Íslandi þar sem það snerti íslenskan ríkisborgara. Þetta mál er um atburði sem gerðust fyrir 50 árum, hálfri öld. Ég tel afskaplega mikilvægt að menn tali mjög varlega um mál af þessu tagi. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skoða réttarstöðu þessa íslenska ríkisborgara. Ég tel að hann eigi kröfu til þess. Ég tel rétt að það sé skoðað mjög vandlega með hvaða hætti íslenska stjórnkerfið tekur á málum af þessu tagi, hvaða kröfur til sannana ber að gera til þess sem lætur uppi jafnþungar ákærur og þessi aðili gerir. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir það að hér sé um mjög virta stofnun að ræða sem hefur margoft reynst hafa rétt fyrir sér í ásökunum af þessu tagi er það fjarri því að vera algilt. Til þess hefur verið vitnað að í Bretlandi hafi um 200 manns verið tilnefndir vegna þátttöku í glæpum af þessu tagi eða svipuðum en rannsóknastofnun breska þingsins hafi aðeins getað samþykkt að fótur væri fyrir eða nægilega sannanir fyrir málum örfárra einstaklinga. Þetta mál er afskaplega viðkvæmt og vandmeðfarið og ég tel ekki rétt að ræða það frekar úr þessum ræðustól núna en vil sem svar við 12. spurningu frá hv. þm. taka fram að ríkisstjórnin mun athuga málið vandlega og skoða réttarstöðu þess einstaklings sem þarna er mjög svo að vegið og jafnframt hver séu eðlileg skref af ríkisstjórnarinnar hálfu áður en þessum aðilum verður svarað. Ég tel að hér verði menn að fara afskaplega varlega.
    Ég tel, virðulegi forseti, að í öllum megindráttum hafi för mín til Ísraels sem ég fór með samstarfsmönnum mínum verið afskaplega vel heppnuð, að frátöldum umræðum um bréf þetta sem olli kannski meiri tilfinningahita hér á Íslandi en efni stóðu til. Hún var stórfróðleg. Það gafst tækifæri til þess fyrir mig, eins og fjölmarga forustumenn lýðræðisþjóða á Vesturlöndum að undanförnu, að láta í ljós mínar skoðanir, heyra um afstöðu þessara aðila sem ráða svo miklu um það hvernig mál munu skipast á þessu viðkvæma svæði. Við vitum öll að ef eitthvað fer úrskeiðis á því svæði getur það haft áhrif miklu víðar en

staðbundin áhrif jafnan gera. Þess vegna hafa Íslendingar fylgst mjög náið með atburðum á þessu svæði. Við höfum stutt þá stöðu Ísraelsríkis að mega tryggja tilveru sína. Við höfum viðurkennt það að hér er um að ræða fjögurra milljón manna þjóð með þjóðir sem eru tugir milljóna í kringum sig sem ekki hafa viðurkennt tilveru þess, ríki sem ekki búa við lýðræðisstjórn eins og Ísraelsríki eitt gerir á þessu svæði, ríki eins og Sýrland þar sem rökstuddar ákærur hafa verið uppi um að þarlendur þjóðarleiðtogi hafi fyrirkomið ekki hundruðum, ekki þúsundum heldur tugþúsundum landa sinna á undanförnum árum. Menn þekkja til annarra ríkja t.d. Íraks sem er ekki lýðræðisríki, Jórdaníu og svo mætti áfram telja. Við höfum viðurkennt þetta land sem er fámennt miðað við þau fjölmörgu ríki sem hafa ekki viljað viðurkenna tilveru þess, reyndar lýst því yfir að hvern Ísraela bæri að reka á haf út. Við höfum viðurkennt að það bæri að fylgja eftir ályktunum Sameinuðu þjóðanna sem við studdum um stofnun þess ríkis. Þar berum við ábyrgð eins og aðrir sem tóku þátt í þeim ákvörðunum. Frá þeirri ábyrgð getum við ekki hlaupið. Ég tel ekki einungis mikilvægt að fara í slíkar ferðir. Það er jafnframt mikilvægt hvernig menn haga sér á þeim stöðum og hvað menn segja í viðræðum.
    Ég taldi heimsókn fyrrv. forsrh. til Jassirs Arafats ekki heppilega. Ég taldi afskaplega óheppilegt þegar Jassir Arafat sýndi þáv. forsrh. pening, nýútgefinn pening, sem sýndi Stór-Ísraelsríki sem átti að taka yfir Sýrland, Jórdaníu og Líbanon og sagði honum að þetta væri nýr peningur sem sýndi yfirráðastefnu Ísraels. Forsrh. kom í íslenska fjölmiðla og sagði: Ég trúi Arafat. Síðan kom á daginn að þessi mynd á peningnum var 2.000 ára gömul. Ég tel það ekki heppilegt. Ég taldi það heldur ekki heppilegt þegar þáv. forsrh. lýsti því yfir að íslenska ríkisstjórnin væri alfarið fylgjandi stefnu Mubaraks, forseta Egyptalands, um friðarviðræður á þessu svæði þegar íslenska ríkisstjórnin, sem hann var í forustu fyrir, hafði aðra stefnu á þeim tíma. Það taldi ég heldur ekki heppilegt.