Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 17:23:00 (3754)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Málshefjandi fór mörgum orðum um nýafstaðna heimsókn forsrh. til Ísraels. Ég vil láta það koma fram hér að ég taldi það í alla staði eðlilegt að forsrh. þekktist boð forsætisrráðherra Ísraels um að koma þangað í opinbera heimsókn. Meira en aldarfjórðungur er liðinn frá því að íslenskur forsrh. fór til Ísraels í slíka heimsókn og samskipti landanna hafa lengi verið vinsamleg. Heimsóknir æðstu manna og ráðherra Evrópuríkja til Ísraels hafa, eins og kom fram hjá forsrh. hér áðan, verið ákaflega margar á síðustu mánuðum og engin þessara heimsókna er talin eða hefur verið talin fela í sér nokkra viðurkenningu á stefnu eða yfirráðarétti Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum. Heimsókn forsrh. var m.a. liður í þeirri viðleitni Íslendinga að stuðla að friðsamlegum, samningsbundnum lausnum á deilum Ísraelsmanna og nágranna þeirra.
    Ég ætla hér ekki að víkja að einstökum spurningum málshefjanda en vil þó láta það koma fram að auðvitað harmar íslenska ríkisstjórnin árásir og líflát saklausra manna í þessum átökum og sérstaklega vegna þeirra atburða sem til var vitnað í spurningum hans. Það er að sjálfsögðu skoðun sem íslenska ríkisstjórnin tekur undir að fordæma beri árásir á friðsama borgara og friðargæslusveitir eins og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur gert og öryggisráðið hefur ályktað um.
    Það var einkar óheppilegt, svo ég víki að öðru atriði sem báðir ræðumenn, hv. málshefjandi 8. þm. Reykn. og 10. þm. Reykv. nefndu, að heimsókn forsrh. var notuð sem tilefni til þess að afhenda bréf Wiesenthal-stofnunarinnar með alvarlegum ásökunum á hendur íslenskum ríkisborgara. Það mál fær nú vitaskuld eðlilega meðferð eftir viðeigandi farvegum. Þessi atburður varpar því miður nokkrum skugga á heimsóknina en er henni annars algjörlega óviðkomandi.
    Eins og kunnugt er hefur utanrrh. nýlega ákveðið að hætta við áformaða opinbera heimsókn til Ísraels í vor, m.a. með vísan til þess að heimsókn forsrh. er nú nýafstaðin. Þessa ákvörðun hefur utanrrh. tilkynnt starfsbróður sínum ísraelskum með bréfi.
    Virðulegi forseti. Þessi umræða gefur tilefni til þess að fara nokkrum orðum um afstöðu Íslands til deilna Ísraels og Arabaríkja. Kjarnann í þeirri afstöðu og í þeirri stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt gagnvart deilum Ísraels og Arabaríkja er að finna í ályktun Alþingis frá 1989 um deilur Ísraels og Palestínumanna. Þar eru tvö sjónarmið lögð til grundvallar.
    Í fyrsta lagi að tryggja verði tilverurétt Ísraelsríkis. Í öðru lagi að virða beri í verki sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Í samræmi við þessa ályktun Alþingis um deilurnar hafa þessi tvö grundvallaratriði ætíð verið höfð að leiðarljósi þegar tekin er afstaða til deilna Ísraels og Arabaríkja á alþjóðavettvangi.
    Hv. 10. þm. Reykv. vék hér sérstaklega að mannréttindabrotum á herteknu svæðunum. Hvað varðar ástandið á þeim svæðum, á vesturbakkanum, Gólanhæðum, Gasa og Jerúsalem, hefur afstaða Íslands jafnan verið afdráttarlaus, þ.e. að brýna nauðsyn beri til að binda endi á hernámið sem varað hefur í meira en 20 ár. Ástandið á herteknu svæðunum hefur verið óviðunandi á undanförnum árum og harkalegar aðgerðir ísraelska stjórnvalda mikið áhyggjuefni. Í því sambandi má minna á að Bandaríkjastjórn hefur sett Ísraelsmönnum þau skilyrði fyrir áframhaldandi efnahagsaðstoð og lánsábyrgðum að þeir hætti við áform sín um að hefja þar frekara landnám gyðinga eins og fram hefur komið í fréttum nýlega.
    En á þessum vanda á herteknu svæðunum eru engar auðteknar lausnir. Afstaða íslenskra stjórnvalda hefur komið mjög skýrt fram í ræðu og riti og í samtölum við ráðherra Ísraels, í atkvæðagreiðslum, meðflutningi að tillögum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í tvíhliða samskiptum við Ísraelsríki á öllum stigum.
    Vegna orða hv. 10. þm. Reykv. um Genfarsáttmálann vil ég nefna tvö dæmi um það hvernig þessi afstaða hefur birst. Í fyrsta lagi kom Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. haustið 1990 á framfæri við utanríkisráðherra Ísraels með bréfi áskorun um það að Ísraelsmenn færu að ákvæðum alþjóðalaga og fylgdu Genfarsáttmálanum til varnar almenningi á hernumdu svæðunum. Þetta bréf var sent vegna ítrekaðra frétta af lífláti óbreyttra borgara og hermdarverkum af hálfu Ísraels á hernumdu svæðunum.
    Annað dæmi um þessa afstöðu er að Ísland er nú meðflytjandi að tillögu sem liggur fyrir fundi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem landnám ísraelskra stjórnvalda á hernumdu svæðunum er fordæmt og einmitt minnt á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Tillagan hefur enn ekki verið afgreidd en flest bendir til að hún verði samþykkt. Ég vil líka minna á að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlandaþjóðirnar yfirleitt verið alveg sammála í afstöðu sinni til þeirra mála sem varða Ísrael. Í því sambandi vil ég benda á að á 46. allsherjarþinginu hafa Norðurlandaþjóðirnar haft samhljóða afstöðu í öllum atkvæðagreiðslum sem þessi mál varða. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að alls ekki er hægt að skella allri ábyrgð á Ísraelsmenn í deilum þeirra og Araba og Palestínumanna. Því hefur verið haldið fram að þessar deilur verði ekki leystar á annan hátt en þann að Ísraelar yfirgefi herteknu svæðin, Palestína verði viðurkennd sem ríki og frelsissamtök Palestínumanna, PLO, sem ríkisstjórn þess. Hins vegar krefjast aðstæðurnar þess að litið sé á þetta mál í stærra samhengi og í því sambandi er ástæða til að hafa í huga að Ísrael er umkringt ríkjum sem ekki viðurkenna tilverurétt þess. Friðsamleg lausn deilunnar verður því að vera hluti af heildarlausn í Miðausturlöndum. Ásamt öðrum ríkjum hafa Íslendingar um alllangt skeið hvatt til þess að haldin verði alþjóðleg friðarráðstefna um Miðausturlönd í kjölfar Persaflóastríðsins og breyttra aðstæðna í alþjóðamálum.
     Nú hafa skapast alveg nýjar aðstæður, nýjar forsendur, sem hafa gert það að verkum að loksins hefur tekist, einkum fyrir tilstilli Bandaríkjamanna, að koma af stað formlegum friðarviðræðum milli Ísraels og Arabaríkja. Þessar viðræður sem hófust í Madrid á síðasta hausti eru í senn tvíhliða, milli Ísraels og Arabaríkjanna þar sem Palestínumenn taka þátt í einni sendinefndinni og um leið fara fram fjölþjóðlegar viðræður með þátttöku ríkja bæði utan svæðis og innan. Þau djúpstæðu deilumál sem við er að etja í Miðausturlöndum eru að sjálfsögðu hið beina viðfangsefni tvíhliða viðræðnanna og það er ljóst að fyrst og fremst er undir þeim komið hvort varanlegur friður kemst á í Miðausturlöndum. Upphaf þessara viðræðna hefur gengið brösótt en þó virðist fullkomið tilefni til þess að halda þeim áfram og von um að þær geti skilað einhverjum árangri. Fjölþjóðaviðræðurnar geta hins vegar ekki leyst deilur Ísraels og Arabaríkjanna en þær geta veitt tvíhliða viðræðunum verulegan stuðning með alþjóðlegum aðgerðum og jafnvel ábyrgðum eða tryggingum. Íslendingar hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við þær friðarviðræður sem hafnar eru. Í því sambandi vil ég minna á að Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. tók þátt í sérstökum undirbúningsfundi, skipulagsfundi, vegna fjölþjóðlegu viðræðnanna í Moskvu í síðasta mánuði. Þar kom hann fram sem formaður EFTA-ráðsins þar sem hann gerði grein fyrir afstöðu EFTA-ríkjanna sjö að ósk frumkvöðla Madrid-ráðstefnunnar, þeirra Bakers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og utanríkisráðherra Rússlands.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér í stuttu máli lýst stefnu Íslands gagnvart deilum Ísraels og Arabaríkjanna eins og lýst var eftir í máli málshefjanda og hv. 10. þm. Reykv. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni þá byggir þessi afstaða, þessi stefna Íslands, einkum á ályktun Alþingis frá árinu 1989. Það var að mínu áliti full ástæða til þess að forsrh. sækti Ísraelsmenn heim, kynntist viðhorfum þarlendra ráðamanna og skýrði þeim persónulega frá þeirri afstöðu Íslendinga sem ég hef nú lýst.