Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 17:32:00 (3755)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið. Mér finnst að skaðinn sé skeður og þá veit ég ekki hvað við bætum okkur á því að ræða þessa ferð mikið hér í þinginu. Kannski væri best að reyna að gleyma henni. Ég reyndi að fá hæstv. forsrh. til að hætta við að fara þessa för eða fresta henni og hóf máls hér utan dagskrár nokkrum dögum áður en hann fór. Hæstv. forsrh. þáði því miður ekki góðar leiðbeiningar mínar eða annarra þeirra sem voru sama sinnis. Hann fór för sem betur hefði ekki verið farin.

    Nú veit ég ósköp vel að hæstv. forsrh. réðst ekki inn í Líbanon og hann hlýtur að harma þau hervirki Ísraela sem voru unnin meðan hann dvaldi í Ísrael eða nokkrum klukkutímum áður en hann kom þangað og eins í kjölfar heimsóknar hans. En hann dróst vegna óvarlegrar ferðar sinnar inn í atburðarás sem hann réð ekki við. Hann veitti stjórnvöldum í Ísrael því miður ákveðinn siðferðilegan styrk með nærveru sinni og heimurinn kann að líta svo á að Íslendingar séu á bandi Ísraelsmanna og séu samþykkir því framferði sem þeir hafa sýnt af sér undanfarna daga.
    Hæstv. forsrh. var persónulega auðmýktur með viðtökunum í Ísrael. Það er út af fyrir sig hans mál og Ísraela. Það sem verra er er hins vegar að íslensku þjóðinni var sýnd óvirðing með því að veita honum ekki virðulegri viðtökur og það er í mínum huga hið alvarlega í málinu. Hæstv. forsrh. er hér býsna kokhraustur og lætur sem hann skilji ekki hvað hefur gerst. Kannski vill hann ekki láta bera á því að hann skammist sín og það tel ég líklegra. Ég vona að hann kunni það. Íslendingar vilja að forsrh. þjóðarinnar sé sómi sýndur hvarvetna þar sem hann kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar. Um það held ég að allir séu sammála, hver svo sem forsrh. er á hverjum tíma, eða hver sem í hlut á, hvort sem hann fylgir forsrh. að málum í stjórnmálum eða ekki. Þess vegna tek ég upp þykkjuna fyrir hæstv. forsrh. þó að hann geri það ekki sjálfur eða láti ekki á því bera að hann geri það sjálfur.
    Við þekkjum viðtökurnar í Ísrael af þeim fréttum sem við höfum fengið og ég er sammála því mati sumra fréttamanna að hæstv. forsrh. hafi verið leiddur í gildru. Tækifærið var notað til að fá honum í hendur bréf frá Simon Wiesenthal-stofnuninni. Þetta bréf var engin sakleysisleg óvænt uppákoma. Að vísu var hún óvænt. Forsrh. var ekki varaður við því fyrir fram að honum mundi verða afhent þetta bréf og það skiptir ósköp litlu máli hvort það hefur farið um hendur sendiherrans, Yngva Yngvasonar, eða hvort hæstv. forsrh. tók við því áður en hann setti niður töskuna sína á Hótel King David í Ísrael. Það sem máli skiptir er það að forsrh. var ekki varaður við því fyrir fram að hann ætti von á þessu bréfi eða það mundi berast honum í hendur. Ég ætla ekki að ræða efni þessa bréfs og mér finnst hvorki staður eða stund til þess. Hæstv. forsrh. er hissa á því að þetta bréf hafi vakið sterkar tilfinningar og umræðu hér á Íslandi. Ég er ekki hissa á því. Það eru bornar þyngstu sakir á íslenskan ríkisborgara og ég tel að forsrh. hafi brugðist rangt við þegar hann lét þessa auðmýkingu yfir sig ganga. Hann spjallaði við blaðamenn um efni bréfsins og hvað hann mundi gera í málinu þegar hann kæmi heim.
    Hæstv. utanrrh. líka hefur tjáð sig um þetta mál opinberlega og skýrt frá því hvað hann hefði gert hefði hann verið í sporum hæstv. forsrh. Hann telur að rétt viðbrögð hefðu verið að slíta þessari heimsókn og ég er sammála honum. Meðan á heimsókninni stóð, rétt fyrir hana og eins rétt eftir að henni lauk, gengu Ísraelar lengra í hervirkjum en þeir hafa gert um langt skeið. Árásin á leiðtoga Hizbollah og fjölskyldu hans var vandlega undirbúin. Henni var frestað að sögn fréttamanna vegna þess að Hizbollah-menn höfðu gísla á valdi sínu en þegar Hizbollah-menn höfðu látið gísla lausa var látið til skarar skríða. Þetta finnst mér ekki sérstaklega viturlegt athæfi hjá Ísraelsmönnum eða hernaðarfræði þeirra líkleg til árangurs til að gera friðsamlegra í þessum heimshluta. Þetta getur ekki kennt Hizbollah-mönnum annað en það að það er ákveðin trygging í því að hafa gísla og Ísraelsmenn eru beinlínis að mana þetta lið, sem ég ætla síður en svo að bera í bætifláka fyrir, til að taka nýja gísla.
    Hæstv. forsrh. túlkaði hér úr þessum stól, með talsverðum þunga, málstað Ísraelsmanna en ég get ekki að því gert að mér finnst þessi afstaða Ísraelsmanna ekki vera skynsamleg og ég tel að þeir séu að safna glóðum elds að höfði sér. Þeir fara eftir kenningum Gamla testamentisins um hefndina sem þar má finna. Þeir vilja auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.
    Varðandi það að stjórnvöldum í Ísrael hafi ekki verið kunnugt um það að hæstv. forsrh. yrði afhent þetta bréf er ég ófáanlegur til að trúa því. Ef svo hefði ekki verið, hvaða hættur hefðu þá getað leynst í vegi hæstv. forsrh. --- ef hans heimsókn var ekki betur skipulögð en svo, ef hans öryggis var ekki gætt betur en svo í þessu ófriðarins landi að menn hefðu getað komist að honum eða hans fylgdarliði, í þessu tilfelli væntanlega sendiherranum, með bréf og sendingar?
    Hæstv. forsrh. segist hafa í höndum lista um gesti sem opinberlega hafi heimsótt Ísraela á undanförnum mánuðum. Það væri fróðlegt að heyra af þessum lista hvaða forsætisráðherrar sjálfstæðra lýðvelda eru í þessum hópi, hvaða aðilar jafntignir hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni eru á þeim lista. Ég tel hins vegar að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hafi brugðist myndarlega við þegar hann afþakkaði boð um að koma í opinbera heimsókn til Ísraels og ég hef leyft mér að leggja fram tillögu í utanrmn. þar sem lýst er stuðningi við þá ákvörðun hæstv. utanrrh. Utanrmn. Alþingis á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um utanríkismál samkvæmt þingsköpum og það er einmitt hennar verkefni að láta utanrrh. vita hvað henni líkar og hvaða leið hún vill að utanrrh. fari. Texti þessarar tillögu er ósköp stuttur og hann er á þessa leið:
    ,,Utanríkismálanefnd Alþingis styður þá ákvörðun Jóns Baldvins Hannibalssonar utanrrh. að afþakka með formlegum hætti boð um að koma í opinbera heimsókn til Ísraels.``
    Þessi tillaga bíður afgreiðslu til næsta fundar í utanrmn. en í sjálfu sér getur þessi afgreiðsla ekki orðið nema ein því að utanrmn. hlýtur að sjálfsögðu að styðja ákvörðun utanrrh. Ég tel það hins vegar gott fyrir utanrrh. að fá að vita það formlega hver hugur nefndarinnar er í þessu máli.
    Það kom í ljós í ferðasögu hæstv. forsrh. að Itzhak Shamir virti hann viðlits og talaði meira að segja við hann langa stund. En mig langar að spyrja hvaða gestrisni forsætisráðherra Ísraels sýndi forsætisráðherra Íslands, t.d. hvort hann hafi haldið kvöldverðarboð honum til heiðurs í þessari opinberu heimsókn eða hverjir það voru sem héldu slík boð forsætisráðherra Íslands til heiðurs í þessari ferð. ( Gripið fram í: Og hvað var borðað.) Mig varðar ekkert um hvað var borðað í veislunum, en það skiptir máli hver aðdragandinn er og hver er gestgjafinn.
    Hæstv. forsrh. var að reyna að verja afstöðu sína með því að jafna henni saman við heimsókn fyrrv. forsrh. til Mubaraks í Egyptalandi. Þetta tel ég vera ákaflega ósambærilegt. Egyptar hafa hvað eftir annað á undanförnum árum reynt að bera klæði á vopnin í þessum heimshluta og meira að segja einstöku sinnum sýnt verulega dirfsku í því að ganga lengra til samkomulags og samninga en maður hefði getað búist við. Ég minnist þess ekki að þeir hafi ráðist á nágranna sína meðan hv. þm. Steingrímur Hermannsson, þáv. forsrh. Íslands, dvaldi í opinberri heimsókn í Egyptalandi. Ég minnist ekki að þeir hafi, eða ég hef ekki frétt af því, myrt konur og börn eða stjórnmálaleiðtoga meðan Steingrímur Hermannsson dvaldi sem opinber gestur hjá Egyptum. Ég tel að ferð hæstv. fyrrv. forsrh. Steingríms Hermannssonar til fundar við Arafat í Túnis hafi ekki verið opinber heimsókn, enda Arafat ekki opinber þjóðhöfðingi. Það var einkaheimsókn sem Steingrímur Hermannsson fór í til Arafats, ekki formleg heimsókn sem hann fór í til stéttarbróður heldur einkaheimsókn, hliðstæð því þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson fór og heimsótti Margréti Thatcher. Ég fetti ekkert fingur út í þá heimsókn. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson má hitta eða heimsækja hvaða erlenda aðila sem hann vill í einkaheimsóknum, enda sé það ekki gert í nafni þjóðarinnar.
    Starfandi utanrrh. kom mér dálítið á óvart eins og stundum áður hér í ræðustólnum. Hann reyndi að bera blak af hæstv. forsrh. Það kom mér ekki á óvart því að hæstv. viðskrh. er drengskaparmaður og það var út af fyrir sig eðlilegt. Hann leggur hins vegar annað mat á hlutina en Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., og þar með snuprar hann með óbeinum hætti þennan flokksbróður sinn.
    Það er öðru mikilvægara að reyna að stuðla að friði milli Ísraels og Pelstínumanna. Þeir eiga báðir sök. Ríkisstjórn Bush í Bandaríkjunum á þakkir skildar fyrir þær tilraunir til að knýja Ísraela til friðarviðræðna sem hún hefur sýnt af sér undanfarna daga og það er verðugra verkefni fyrir Íslendinga að reyna að leggjast á sveif með þeim. Að endingu, frú forseti, vonast ég til að þrátt fyrir allt verði þessi heimsókn, þessi gáleysislega heimsókn hæstv. forsrh. til Ísraels, ekki til að spilla varanlega sambandi Íslands og Ísraels.