Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 17:49:00 (3756)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að lýsa vonbrigðum mínum með það að hæstv. forsrh. skyldi fara í þá ferð sem hann fór til Ísraels. Tel ég að hann hefði betur hlustað á viðvörunarorð þeirra sem hér tóku til máls á Alþingi áður en hann fór og hefði þá hætt við ferðina. Þá hefði verið betri svipur á stefnu Íslands gagnvart því sem er að gerast í Ísrael og þar í kring.
    Heimsóknin var afskaplega vel heppnuð, sagði hæstv. forsrh. og samkvæmt því sem hann sagði hér, virtist hann ekki hafa lært mikið um það sem þarna fer fram. Hann lýsti því áður en hann fór að hann mundi að sjálfsögðu heimsækja bæði Ísraelsmenn og jafnframt fulltrúa Palestínumanna. Mér þætti fróðlegt að vita hvaða fulltrúa Palestínumanna hann hefur heimsótt og hvort þeir fulltrúar sem hann heimsótti hafi verið ánægðir með ástandið á þessu svæði og hvort þeir voru réttir fulltrúar Palestínumanna, þ.e. hvort Palestínumenn líti á þá sem sína réttkjörnu fulltrúa til að tala við forsrh. Íslands. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki í máli hans áðan að það kæmi fram. Hann lýsti eingöngu sjónarmiðum Ísraelsmanna.
    Ég tel því að það hafi verið mjög óheppilegt að þessi ferð var farin en hún hefði þó getað orðið til góðs á einn þátt ef ríkisstjórnin hefði endurskoðað afstöðu sína því að ég get ekki sagt að ég sé ánægð með þá afstöðu og þá stefnu sem hefur komið fram í stefnu ríkisstjórnarinnar hingað til.
    Hér var vitnað til ályktunar Alþingis frá maí 1989. Hæstv. forsrh. vitnaði til hennar, og langar mig til að ítreka nokkur orð af því sem kom fram í máli hans, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.``
    Hæstv. viðskrh. sem gegnir stöðu utanrrh. talaði um að ríkisstjórn Íslands færi eftir þessari ályktun. Mér hefur fundist nokkuð skorta á að það væri gert. Ég hef ekki orðið vör við það að íslenska ríkisstjórnin viðurkenni sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar, því miður. Ég hef reyndar talið nauðsynlegt og að ekki verði hjá því komist að Ísland viðurkenni ríki Palestínumanna og viðurkenni einnig PLO sem réttmætan fulltrúa palestínsku þjóðarinnar þar sem palestínska þjóðin telur þau samtök vera sína fulltrúa. Ég tel að það væri mjög í samræmi við ýmislegt annað sem ríkisstjórnin hefur gert varðandi viðurkenningu á ríkjum, t.d. baltnesku ríkjunum og Króatíu þar sem ríkisstjórnin hefur haft forgöngu á þessu sviði og því hefði ég talið eðlilegt að ríkisstjórn Íslands hefði forgöngu um það að viðurkenna ríki Palestínumanna og mundi þá að mínu mati stíga stórt skref í áttina til þess að þarna gæti orðið friðsamleg lausn á deilumálum. Ég spyr því hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki rétt að þarna verði tvö rétthá ríki, þ.e. að auk þess að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis, eins og Ísland hefur gert, eigi ekkert síður að viðurkenna ríki Palestínumanna. Ég tel að ekki komi annað til greina.

    Við verðum að athuga það að Ísland ber mikla ábyrgð, meiri ábyrgð en margar aðrar þjóðir vegna aðildar okkar að stofnun Ísraelsríkis. Við getum ekki setið hjá og látið sem okkur komi ekki við það sem er að gerast á þessu svæði. Ísraelsmenn hafa gengið fram með þeim hætti að ekki verður við unað. Margoft hefur verið vitnað til skýrslu Amnesty International og ég vænti þess að hæstv. forsrh. hafi kynnt sér þá skýrslu. Ég veit ekki hvort það er að bera í bakkafullan lækinn að vitna til hennar en það er óhuggulegt að lesa það sem þar kemur fram. Talað er um pyndingar við yfirheyrslur, talað er um alls konar aðferðir, hryllilegar aðferðir sem notaðar eru við yfirheyrslur. Fólk er barið með kylfum og byssuskeftum, séð er til þess að það geti ekki sofið. Það er talað um hér að eistu karlmanna séu kreist. Þeir eru lokaðir inni í dimmum klefum. Þetta eru hryllilegar lýsingar sem hér eru dregnar upp og fullyrt að Ísraelsmenn noti við sína fanga. Ég tala ekki um alla þá fanga sem eru í fangelsi án dóms og laga upp í ár eða meira. Þessi skýrsla sýnir svo ekki verður um villst að Ísraelsmenn eru sakaðir um mannréttindabrot og ég held að það þurfi ekkert að fara í grafgötur um það.
    Með því að fordæma þessi mannréttindabrot er ekki verið að segja að það sem aðrir hafi gert sé eitthvað betra. Ég tel ekki sambærilegt að tala um Palestínumenn í sömu andrá sem eru að berjast fyrir að lifa af. Hér er talað að vopn þeirra séu fyrst og fremst grjót og að það séu unglingar sem kasta grjóti. Síðan eru þeir pyndaðir og her er beint gegn þessu fólki. Ekki er hægt að bera þetta tvennt saman og segja svo að líta verði á þetta eins og tvo deiluaðila sem eru jafnréttháir. Ríkisstjórnin og hæstv. forsrh. hljóta að viðurkenna að þarna eru menn ekki jafnir. Ísraelsmenn virðast ekki telja sig þurfa að fara að nokkrum alþjóðasáttmálum um mannréttindi og þeir hunsa allar samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
    Það sem veldur kannski mestum óhug er að þeir skuli beita Palestínumenn sömu aðferðum og þeir voru sjálfir beittir í síðari heimsstyrjöldinni og sýnir einna best að ofbeldi getur aldrei leitt annað af sér en ofbeldi. Þessar deilur sem þarna eru verða aldrei leystar með átökum. Það verður að leita friðsamlegra leiða og það er verið að reyna að gera núna með þessum friðarviðræðum. En einmitt þá telja Ísraelsmenn sig umkomna að ráðast inn í önnur ríki. Framferði þeirra og hegðun gengur út yfir allt velsæmi í þessum málum.
    Hvað er forsrh. Íslands að gera með að heimsækja slíka þjóð? Það hefur ekki komið fram enn til hvers var farið. Af hverju taldi forsrh. Íslands nauðsynlegt að fara? Hæstv. viðskrh. taldi einnig að mjög eðlilegt væri að íslenskur forsætisráðherra færi til Ísraels, en ég heyrði ekki af hverju.
    Norðurlönd njóta virðingar á alþjóðavettvangi vegna afstöðu til friðar og mannréttinda. Ég tel að forsrh. hafi með heimsókn sinni sett blett á þessa mynd. Ég harma að forsrh. skyldi ekki fara að ráðum góðra manna. Úr því sem komið er verðum við að taka því. Ég vona enn að hann hafi lært eitthvað þótt ég gæti því miður ekki heyrt það af hans máli hér áðan. Ísland á að beita sér fyrir friði og auknum mannréttindum. Ferð forsrh. var ekki í samræmi við slíka stefnu.