Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 18:35:00 (3759)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það að þessar umræður eru leyfðar og fara hér fram. Ég held að það sé mikilvægt að menn fái tækifæri til að skiptast á skoðunum um þetta efni. Fyrst leikur mér sérstök forvitni á að fá að heyra það frá hæstv. forsrh. að ef þessi ferð, sem hér hefur verið til umræðu, er að hans mati vel heppnuð opinber heimsókn, hvernig er þá illa heppnuð opinber heimsókn? Hvað þarf eiginlega að draga til tíðinda í heimsóknum svo að þær geti talist miður vel heppnaðar að mati hæstv. forsrh. ef þetta er vel heppnað? Ég veit það, hæstv. forsrh., að það vefst ekki fyrir hæstv. ráðherra að svara þessari litlu spurningu.
    Ég vil einnig fjalla örlítið um það sem hv. 3 þm. Reykv. ræddi, sumt nokkuð sérkennilega að mínu mati. Sú túlkun hans, sem hér kom fram á samþykkt Alþingis frá 1989, er auðvitað mjög sérkennileg, að í henni hafi falist alveg sérstök réttlæting þess og viðurkenning á Ísraelsríki og tilvist þess og nýmælin í þeirri ályktun hafi snúið að Ísraelsríki. Það veit auðvitað hvert mannsbarn sem fylgst hefur með umræðum um utanríkismál að tíðindin í þeirri samþykkt var sá stuðningur sem palestínsku þjóðinni var með þeirri ályktun sýndur hér á Alþingi. Það var sú staðreynd að lýst var stuðningi við sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Það er nýmæli og boðaði viss tímamót í afstöðu Alþingis og Íslendinga að ég hygg til deilumála fyrir botni Miðjarðarhafs. Og það er einmitt þessi sami sjálfsákvörðunarréttur sem ályktun Alþingis fjallar ekki síst um sem Ísraelsríki fótumtreður og viðurkennir ekki. Ég er því hræddur um að hv. 3. þm. Reykv. lendi harkalega í mótsögn við sjálfan sig og verði fyrir barðinu á eigin rökfimi ef hann fer lengra út á þessa braut túlkana á ályktun Alþingis frá 1989.
    Í öðru lagi sagði hv. 3. þm. Reykv. að honum hefði fundist það mjög vel til fundið að einmitt Ísrael væri annað í röðinni í heimsóknaprógrammi hæstv. forsrh. Mig langar til að spyrja hv. 3. þm. Reykv. hvað honum fyndist vera hæfilegt ríki númer þrjú. Væri það t.d. Suður-Afríka, gæti þá Tyrkland orðið númer fjögur og kannski Indónesía númer fimm? Þeim Indónesíumönnum gengur bærilega í samskiptum við þjóðina sem byggði áður Austur-Tímor. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem ég hef úr erlendum tímaritum telst svo til að það sé búið að myrða um helming þjóðarinnar sem byggði Austur-Tímor áður en Indónesíumenn réðust þangað inn. Hvers konar klúbbar eru það, hvaða þjóðir eru það sem hv. 3. þm. Reykv. finnst sérstaklega vel til fundið og við hæfi að séu svona fremst í heimsóknaröð hæstv. núv. forsrh. ef honum endist aldur til að fara í mikið fleiri heimsóknir í þessu embætti?
    Að lokum varðandi málflutning hv. 3. þm. Reykv., þá voru auðvitað tilburðir hans til að rökstyðja það að afþökkun utanrrh. á heimboðinu væri ekki í nokkru minnsta samhengi við opinbera heimsókn forsrh. sem stóð yfir sömu daga næsta broslegir. Ég hygg að íslenska þjóðin hafi upplifað þetta það sterklega með öðrum hætti og í raun og veru allir sem með málinu fylgdust að þá a.m.k. gruni að það sé eitthvað meira en tilviljun að hæstv. utanrrh. skyldi allt í einu á nákvæmlega þessum sólarhringum, mörgum mánuðum fyrir fram afþakka þetta tilboð. Það sé eitthvað pínulítið meira en tilviljun. Það læðist nú sá grunur að einum og einum manni. Það finnst mér a.m.k.
    Herra forseti. Það er þannig að þessi ferð hæstv. forsrh. lagðist illa í mig frá upphafi. Ég skrifaði lítið greinarkorn í blöð daginn eftir að þessi ferð var gerð heyrum kunnug og lagði þá nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsrh. og varaði hann við að fara í ferðina. Og sömuleiðis var þetta mál tekið hér upp á Alþingi til umræðu nokkrum dögum síðar. Þá var hæstv. forsrh. staffírugur mjög og lét engan bilbug á sér finna og vísað til föðurhúsanna öllum spurningum, ábendingum og ráðleggingum varðandi þessa för. Ég átti satt best að segja von á því að hæstv. forsrh. bæri gæfu til þess þegar hann kæmi heim að hafa lært eitthvað pínulítið og hagaði orðum sínum með svolítið gætilegri hætti gagnvart þessum hlutum nú eftir ferðina og þá þær hörmungar sem yfir hæstv. forsrh. gengu í þessari ferð en lítið fór fyrir því satt best að segja. Og heldur fannst mér ömurlegur sá endurómur málflutnings Ísraelsmanna, harðlínuaflanna í Ísrael, sem meira og minna kom fram í svörum hans áðan. Satt best að segja fannst mér það heldur dapurlegt að heyra málflutning harðlínuaflanna í Ísrael enduróma meira og minna í svörum hæstv. forsrh.
    En vonandi hefur hæstv. forsrh. lært eitt af þessu: Það að opinberar heimsóknir af þessu tagi, ég tala nú ekki um ósköpin til Ísraelsríkis eins og ástandið er þar nú um stundir, eru bara ekki svona eins og að skreppa út í búð eftir mjólk. Þær eru annað og meira, hæstv. forsrh. Það er sem sagt pólitísk hlið á opinberum heimsóknum. Og hversu margar ræður sem hæstv. forsrh. heldur hér til þess að reyna að afsanna það, hversu margar greinar sem aðstoðarmenn hans skrifa í blöð, þá held ég að það sé alveg borin von að hæstv. forsrh. og hans nánustu bandamenn hafi bolmagn til að breyta þannig viðhorfum heimsbyggðarinnar að menn hverfi frá þeirri túlkun að í opinberum heimsóknum felist ákveðin pólitík því það væru þá ný stórtíðindi í alþjóðlegum samskiptum, þessi kenning sem hér er verið að reyna að flytja um að svona heimsóknir komi yfirleitt stjórnmálum ekkert við, því að hvað eru opinberar heimsóknir ef þær koma ekki pólitík við, hafa ekki á sér stjórnmálalega hlið? Þær eru ekki venjuleg ferðalög. Þær eru ekki skemmtiferðir viðkomandi ráðamanna eða eiga ekki að vera það.
    Eitt nýlegt dæmi fyllir blöðin þessa dagana þar sem eru þrýstingur á þjóðhöfðingja Svía um að hætta við áður ákveðna opinbera heimsókn til Írlands vegna pólitískra atburða þar í landi. Og hvers vegna er það? Það er ósköp einfaldlega vegna þess að sú heimsókn hefur á sér pólitíska hlið og dæmin eru auðvitað óteljandi og mýmörg út um allt. Ég tek undir það sem ég hef áður sagt, að hæstv. forsrh. ætti þá að fara yfir það, ef hann er að birta talnarunur um heimsóknir utanríkisráðherra og þjóðhöfðingja til Ísraels á undanförnum mánuðum og árum, hvers eðlis þær heimsóknir hafa verið og í hvaða samhengi þær hafa verið stjórnmálalega séð. Er t.d. hæstv. forsrh. þar að telja með tugi ferða utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Bakers, sem hefur þvælst fram og aftur um allan þennan heimshluta, heimsótt deiluaðilana á víxl stanslaust og endalaust? Fjölmargar aðrar slíkar heimsóknir hafa farið fram sem maður veit um en jafnan eins og hér hefur komið fram hafa þá hinir hyggnari stjórnmálamenn gætt þess að jafnvægi væri í þeirra íblöndun í málin með einhverjum þeim hætti þannig að báðir deiluaðilar væru heimsóttir, rætt væri við þá báða eða þeim með einhverjum hætti sýnd sambærileg athygli. Það væri fróðlegra fyrir okkur að vita hversu margar einhliða gagnrýnislausar heimsóknir af því tagi sem hæstv. forsrh. fór hafi verið farnar.
    Nei, herra forseti. Staðreyndin er sú að þessi heimsókn sem í fyrstu leit e.t.v. ekki út fyrir að verða meira en minni háttar óhapp snerist upp í pólitískt stórslys og mistök sem hæstv. forsrh. væri maður að meiri að viðurkenna. Honum mundi verða nokkur málsbót í þeim atburðum sem þarna urðu með því ósköp einfaldlega að viðurkenna að hann hefði ekki mátt sjá fyrir að öllu leyti þau ósköp sem þarna dundu á, eða finnst hæstv. forsrh. virkilega ekki neyðarlegt að hafa staðið fyrir opinberri veislu í Ísraelsríki og haft þá gesti hina sömu menn sem á sömu mínútum voru að skipuleggja innrásina í Líbanon? Það liggur fyrir að líklega það kvöld sem þeir sátu veislu hæstv. forsrh. hafi verið lagt á ráðin og teknar ákvarðanir um innrásina sem hófst sömu nótt. Ég hygg að hæstv. forsrh. hefði komið sér miklu betur út úr þessu klúðri með því ósköp einfaldlega að vera nógu stór í stykkinu til þess að viðurkenna a.m.k. eins og málin þróuðust að þá hafi þessi heimsókn snúist upp í mistök.
    Að lokum aðeins þetta, og það er þá önnur spurning til hæstv. forsrh.: Hefur sú tilfinning ekkert sótt á hæstv. forsrh. að hann sé að verða svolítið einmana í þessu hlutverki sem gagnrýnislaus bandamaður Ísraelsríkis og stjórnvalda þar eins og þau hegða sér? Þeirra sömu harðlínuafla og hann réttilega lýsti hér í sinni tveggja ára söguupprifjun að tóku völdin við stjórnarskipti í Ísrael þegar hógværari samsteypustjórn sprakk og harðlínuöflin náðu saman um landsstjórnina og hafa haldið henni síðan. Þegar þeir atburðir hafa nú gerst að Bandaríkjamenn hafa í fyrsta skipti opinberlega sett Ísraelsmönnum stólinn fyrir

dyrnar og reyna með fjármálalegum þvingunaraðgerðum til að koma þeim frá landnámi á hernumdu svæðunum og þar með hafa í raun og veru orðið tímamót í samskiptum bandarískra stjórnvalda og Ísraelsríkis þá leitar það á mann, er það virkilega svo að einasti og síðasti bandamaðurinn sem gagnrýnislaust styðji stjórnvöld í Ísrael sé íslenski forsrh. og hefur ekki einu sinni til þess stuðning síns eigin utanrrh.? Ég leyfi mér þess vegna að spyrja hæstv. forsrh.: Er hann ekkert orðinn einmana í þessu hlutskipti og telur hann að þeir atburðir sem nú síðast hafa orðið í samskiptum Ísraelsríkis og bandarískra stjórnvalda breyti engu um um þá stöðu sem hér hefur verið til umræðu?