Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 18:47:00 (3760)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða sem hefur farið fram hér í dag um för forsrh. til Ísraels hefur að mörgu leyti verið mjög gagnleg og málefnaleg þó að menn hafi kannski seilst mislangt eftir rökum í þessu máli. Lengst fannst mér hv. 3. þm. Reykv. sækjast eftir rökum þegar hann sagði áðan að það hefði ekki aðeins verið æskilegt heldur beinlínis nauðsynlegt að forsrh. færi þessa ferð til að umræða eins og þessi gæti átt sér stað hér á Alþingi. Ég verð að segja það að mér finnst lítið leggjast fyrir alla þá kappa sem hér sitja dags daglega ef þeir þurfa slík stórtíðindi og slíkt deiluefni til þess að verma þessa pontu. Ég hef ekki orðið vör við að þess þyrfti og þessi umræða gæti farið fram án þess að við þyrftum að senda hæstv. forsrh. alla leið til Ísraels.
    Hæstv. 3. þm. Reykv. gerði að umtalsefni ályktun Alþingis frá 18. maí 1989 og sagði að það væri náttúrlega full ástæða til þess að kynna mönnum þá ályktun því að það væri einsdæmi að Íslendingar ályktuðu um tilverurétt Ísraelsríkis. Í fyrsta lagi vil ég segja að það hefði þá verið ástæða til þess að kynna hana fyrr en ekki núna og í öðru lagi vil ég taka það fram að þetta er auðvitað áréttun hvað varðar tilverurétt Ísraelsríkis á þekktum og viðteknum skoðunum hér á Alþingi þannig að það er ekkert nýtt í því máli. Íslendingar viðurkenndu það þegar árið 1947 þannig að það er ekkert nýtt í því máli, hv. þm. Og mér finnst athyglisvert í þessu samhengi fyrst þingmaðurinn benti á þennan punkt að kanna hvort það sé ekki þannig að Steingrímur Hermannsson þáv. forsrh. hafi einmitt heimsótt Arafat eftir að Alþingi gerði þessa ályktun. Hafi svo verið þá get ég ekki séð neitt athugavert við það í sjálfu sér vegna þess að það er nýmæli í ályktuninni, eins og hv. þm. sem hér talaði á undan mér benti á. Nýmælið er viðurkenning á sjálfsákvörðunarrétti palestínsku þjóðarinnar. Og hafi þáv. forsrh. farið eftir að sú ályktun var gerð þá get ég ekki séð með rökum þess þingmanns sem hér talaði, hv. 3. þm. Reykv., að það væri neitt athugavert við það að hann kynnti Arafat þessa ályktun Alþingis.
    Hæstv. viðskrh. og núv. utanrrh. í forföllum sagði með réttu að grunntónninn í afstöðu Alþingis væri annars vegar sá að virða bæri tilverurétt Ísraelsríkis, og það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt mál og ætti ekki að vefjast fyrir mönnum hér, Alþingi hefur lýst því yfir oftar en einu sinni, og í öðru lagi væri grunntónninn sá að virða bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og það er einmitt nýmæli sem ég gat um áðan.
    Ef við tökum fyrst þetta með tilveru Ísraelsríkis, þá sagði ég að það væri sjálfsagt og eðlilegt mál að gera það. En það er ekki þar með sagt að það sé ástæða til að viðurkenna að það sé ríki síonismans vegna þess að það er það í dag. Mér finnst sjálfsagt að viðurkenna að það sé ríki allra sem þar búa. Og ég vil aftur ítreka þetta með þjóðernið í Ísraelsríki. Það er ekki til neitt sem heitir ísraelskt þjóðerni í Ísrael. Á persónuskilríkjum manna er gefið upp þjóðerni og þar stendur annaðhvort fyrir aftan gyðingur eða eitthvað annað. Og ef einhver fær persónuskilríki sem stendur á gyðingur, þá koma þar líka fram trúarbrögð: gyðingur. Það getur ekki komið fram að þjóðerni sé gyðingur og trúarbrögð kristni vegna þess að þetta verður að fara saman. Og sá einn fær persónuskilríki með þjóðerni gyðingur sem er líka trúaður gyðingur. Aðrir eru eitthvað allt annað. Það er ekki til og ekki hægt að fá það upp gefið að maður sé ísraelskur að þjóðerni.
    Hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar þá finnst mér kannski ástæða til þess að spyrja að því hvernig stjórnvöld á Íslandi, ef þetta er nú grunntónninn í þeirra stefnu gagnvart málum í Ísrael og fyrir botni Miðjarðarhafs, ætla að standa að því að virða þennan sjálfsákvörðunarrétt? Með hvaða hætti ætla þau að gera það? Það kom fram í máli hæstv. forsrh. áðan að helstu áhrifaþættirnir í málum þarna sl. tvö ár væru deilurnar um það hvaða Palestínumenn gætu tekið þátt í friðarsamningunum í Washington vegna þess að ísraelsk stjórnvöld vildu ekki fallast á Palestínumenn sem eru búsettir erlendis þar sem þá væri PLO komið inn í málið. Það eru með öðrum orðum ísraelsk stjórnvöld sem eiga að ákvarða það og hafa puttana í því hverjir taka þátt í friðarviðræðum fyrir hönd Palestínumanna og forsrh. réttlætti það eiginlega hér í pontunni áðan. Er þetta að virða sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar? Ég fæ ekki séð það. Og ég spyr, hvar getur forusta Palestínumanna verið annars staðar en erlendis? Hvar getur hún verið annars staðar? Getur hún verið innan núverandi landamæra Ísraelsríkis eftir að það hefur hertekið svæðin bæði 1948 og núna 1967? Halda menn að hún fengi þrifist þar? Ég er ansi hrædd um ekki. Ég er ansi hrædd um að hún þurfi að vera einhvers staðar annars staðar.
    Þetta er það sem mig langar helst til þess að vekja athygli á. Mér finnst það skipta meginmáli að Íslendingar setji ekki bara í einhverjar ályktanir, einhver pappírsgögn, að þeir ætli að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar heldur sýni það þá í verki með einhverjum hætti að þeir virða hann,

hæstv. forsrh.