Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 13:32:01 (3769)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Háskólann á Akureyri, það er 218. mál þessa þings.
    Umræður um stofnun háskóla á Akureyri hófust af fullri alvöru snemma á níunda áratugnum. Á vegum menntmrn. starfaði um hríð nefnd er sinnti undirbúningi málsins auk undirnefnda sem fjölluðu um einstakar námsgreinar. Frá því í nóvember 1985 vann svo nefnd á vegum Akureyrarbæjar að stofnun skólans í samvinnu við aðra undirbúningsaðila. Skilaði nefndin þremur skýrslum um væntanlegan háskóla á Akureyri á tímabilinu frá því hún var sett á fót og fram til febrúar 1987.
    Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi í samræmi við heimild í fjárlögum með kennslu á tveimur brautum, iðnrekstrar- og hjúkrunarbraut, hinn 5. sept. 1987. Þáv. menntmrh., Birgir Ísl. Gunnarsson, mælti fyrir stjfrv. um Háskólann á Akureyri 12. des. 1987 en það frv. var síðan eftir nokkrar breytingar samþykkt á Alþingi 5. maí 1988 sem lög nr. 18/1988. Reglugerð fyrir Háskólann á Akureyri var svo undirrituð af þáv. menntmrh., Svavari Gestssyni, 1. okt. 1990.
    Samkvæmt núgildandi reglugerð eru þrjár deildir við Háskólann á Akureyri: heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Síðastliðið haust hófu um 170 nemendur nám við skólann og er það töluverð fjölgun frá undanförnum árum. Auk fleiri beinna umsókna má einnig greina vaxandi fjölda fyrirspurna um þá námskosti sem skólinn býður upp á.
    Háskólinn er nú til húsa á tveimur stöðum í bænum. Annars vegar hefur hann aðstöðu í mestöllum fyrri húsakynnum Verkmenntaskólans, áður Iðnskólans, á horni Þingvalla- og Þórunnarstrætis. Það hús er að hálfu í eigu Akureyrarbæjar en að hálfu í eigu ríkisins. Hins vegar léði Kaupfélag Eyfirðinga skólanum húsnæði í Glerárgötu 36, leigulaust til þriggja ára. Þá hefur sjávarútvegsdeild rúmar tvær hæðir til afnota í húsnæðinu, en í húsnæðinu eru jafnframt útibú Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.
    Í 14. gr. laga nr. 18/1988 er kveðið á um endurskoðun þeirra áður en þrjú ár eru liðin frá setningu þeirra og að niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi fyrir árslok 1991. Í samræmi við þetta ákvæði skipaði Svavar Gestsson, þáv. menntmrh., nefnd 28. júní 1990 til þess að endurskoða umrædd lög. Í nefndina voru skipaðir Haraldur Bessason, rektor Háskólans á Akureyri, Lárus Ægir Guðmundsson framkvæmdastjóri, Skagaströnd, og Þorsteinn Gunnarsson, deildarsérfræðingur í menntmrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Ólafur Búi Gunnlaugsson, skrifstofustjóri Háskólans á Akureyri, var ritari nefndarinnar.

    Nefndin skilaði drögum að lagafrv. 17. maí 1991 og það frv. var síðan sent eftirtöldum aðilum til umsagnar: Háskólanefnd Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Bæjarstjórn Akureyrar, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknaráði ríkisins, Vísindaráði og Bandalagi háskólamanna.
    Við lokafrágang frv. í menntmrn. var höfð hliðsjón af þeim athugasemdum sem borist höfðu. Frv. var síðan lagt fram á Alþingi í desember sl. en ekki hefur gefist tími til að mæla fyrir því fyrr en nú.
    Í stefnu- og starfsáætlun núv. ríkisstjórnar kemur fram eindreginn vilji um eflingu Háskólans á Akureyri. Þar er bent á að öflugur háskóli á Akureyri fjölgi námsmöguleikum í landinu og geti orðið ný vagga menningar og menntalífs. Ég vil einnig minna á að starfsemi Háskólans á Akureyri er mikilvægur þáttur í byggðastefnu, þ.e. að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins fái aukna möguleika á að notfæra sér þá menningu og þau lífsgæði sem felast í þróttmikilli háskólamenntun og vísindastarfsemi. Í þessu ljósi ber að skilja þau nýmæli og breytingar frá núgildandi lögum sem hér eru lögð til.
    Frv. það sem hér liggur fyrir er reist á grunni laga nr. 18/1988 en þó eru þar lagðar til ýmsar breytingar og viðbætur sem hafa eftirfarandi mennta-, vísinda- og byggðapólitísk markmið að leiðarljósi, þ.e. að stuðla að eflingu Háskólans á Akureyri sem rannsóknastofnunar. Þannig er skýrar kveðið á um rannsóknahlutverk Háskólans og jafnframt er heimilað að koma á fót rannsóknastofnun við hann. Einnig er gert ráð fyrir samstarfi háskólans við aðra háskóla og rannsóknastofnanir í því skyni að styrkja kennslu og rannsóknir í skólanum og gera menntunartækifæri fjölbreyttari. Enn fremur eru sett ákvæði um rannsóknaorlof kennara og annarra fastráðinna starfsmanna háskólans. Síðast en ekki síst er lagt til að bundið verði í lög að rannsókna- og sérfræðibókasafn starfi við skólann.
    Rannsóknir eru undirstöðuþáttur í starfi nútímaháskóla og eins og fram kemur í áfangaskýrslu þróunarnefndar háskólans sem birt er sem fskj. með frv. þessu hafa umtalsverðar rannsóknir farið þar fram allt frá stofnun hans. Gert er ráð fyrir að rannsóknirnar tengist einkum fræðasviðum skólans, sbr. 9. gr. og þeim rannsóknastofnunum sem starfa á Akureyri.
    Háskólinn hefur þegar hafið umfangsmikið samstarf um rannsóknir við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hefur tekist samkomulag um að tiltekinn fjöldi sérfræðinga við þessar rannsóknastofnanir hafi kennsluskyldu við háskólann. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og er til fyrirmyndar um samstarf háskóla og rannsóknastofnana atvinnuveganna.
    Sjálfstæði háskólans er eflt og stjórnsýsla hans skilgreind betur en áður. Lagt er til að háskólinn fái aukið forræði um mannaráðningar og inntöku nemenda. Ítarlegri ákvæði eru um verkaskiptingu og hlutverk stjórnsýslu háskólans svo sem háskólanefndar, rektors, framkvæmdastjóra, forstöðumanna deilda og deildafunda.
    Lagt er til að skipaðar verði dómnefndir um hæfi umsækjenda um rektorsembætti. Í þessu sambandi skal bent á að frv. gerir ráð fyrir að Háskólinn á Akureyri skipi meiri hluta þeirra dómnefndarmanna sem fjalla um hæfi umsækjenda um rektorsembætti. Frv. leggur einnig til að háskólanefnd, þar sem fulltrúar sem kjörnir eru innan háskólans eru í meiri hluta, hafi í raun endanlegt vald yfir ráðningu rektors.
    Háskólinn er skoðaður í samhengi við umhverfi sitt. Lagt er til að háskólinn tengist nágrenni sínu traustari böndum með því að einn fulltrúi tilnefndur af bæjarstjórn Akureyrar og annar af heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eigi aðild að háskólanefnd. Þannig er aðilum utan háskólans gert kleift með beinni þátttöku í yfirstjórn að setja sig inn í málefni skólans og að þeir geti á grundvelli reynslu sinnar aukið skilning annarra aðila sem næst honum standa á þörfum hans. Þrátt fyrir þetta ákvæði um aðild fulltrúa utan háskólans að yfirstjórn er sjálfsstjórn hans og starfsmannalýðræði tryggt á þann hátt að af ellefu nefndarmönnum sem sæti eiga í háskólanefnd eru sjö valdir í beinum lýðræðislegum kosningum innan háskólans.
    Mun ég nú gera grein fyrir einstökum greinum frv. og breytingum sem í þeim felast.
    Í 1. gr. er kveðið á um hlutverk Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram sú breyting frá gildandi lögum að skýrt er kveðið á um rannsóknahlutverk háskólans. Gert er ráð fyrir að rannsóknirnar tengist þeim greinum sem kenndar eru við skólann svo og þeim rannsóknastofnunum sem starfa á Akureyri. Þar er nú gert ráð fyrir að háskólanum verði heimilt að annast endurmenntun.
    Í II. kafla frv. er fjallað um stjórn háskólans. 2. gr. er að nokkru leyti byggð á 2. og 4. gr. gildandi laga en einnig koma fram nokkur nýmæli. Lögð er áhersla á að háskólinn tengist umhverfi sínu og nágrenni traustari böndum en nú er með því að aðild fái að háskólanefnd fulltrúar frá bæjarstjórn Akureyrar og heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eins og ég sagði áðan. Hér er reynt að fara leið málamiðlunar milli nokkuð andstæðra sjónarmiða þar sem annars vegar eru uppi skoðanir um að yfirstjórn háskóla skuli alfarið vera í höndum starfsmanna hans og hins vegar að einungis skuli þar koma að aðilar utan skólans. Í þessari grein er hnykkt á því að þar er háskólanefnd sem er yfirstjórn Háskólans á Akureyri.
    3. gr. byggist á 2. og 3. gr. gildandi laga en felur jafnframt í sér eftirtaldar breytingar. Lagt er til að dómnefnd fjalli um umsækjendur um rektorsembætti. Rektor Háskólans á Akureyri er ekki valinn í beinni kosningu eins og tíðkast í Háskóla Íslands og því þykir rétt að dómnefnd fjalli um umsækjendur og hæfni þeirra til að gegna rektorsembætti. Búast má við að endurskoða þurfi ákvæði um ráðningu rektors eftir því sem nemendum og kennurum við háskólann fjölgar og færa það til samræmis við það sem tíðkast í Háskóla Íslands.
    4. gr. er að mestu nýmæli. Hér er hnykkt á rekstrarlegu sjálfstæði Háskólans á Akureyri með því að lagt er til að rektor verði heimilt að ráða framkvæmdastjóra að háskólanum í stað þess að menntmrh. skipi skrifstofustjóra eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum.
    Í 5. gr. er starfssvið forstöðumanna deilda skilgreint en svo er ekki í gildandi lögum. Einnig eru ákvæði um ráðningu forstöðumanna og hæfniskröfur svo og að dómnefnd skuli meta hæfni umsækjenda um embætti forstöðumanns deildar.
    6. gr. er nýmæli. Hún fjallar um skipan, hlutverk og helstu verkefni deildarfunda.
    7. gr. er að mestu óbreytt frá 7. gr. gildandi laga utan hvað kveðið er á um að með reglugerð skuli fjallað nánar um deildarfundi.
    Í 8. gr. er fjallað um samvinnu háskólans við aðra skóla sem tengjast starfssviði hans. Þetta getur þýtt meiri fjölbreytni í menntun og rannsóknum, auk þess að stuðla að hagkvæmni og sparnaði. Kveðið er á um ráðningu starfsfólks sem ráðið er til starfa við samstarfsverkefni og að réttindi þess og skyldur skuli nánar ákveðin í reglugerð.
    Í III. kafla frv. er fjallað um kennara, deildir og stofnanir háskólans.
    9. gr. fjallar um skiptingu háskólans í deildir og námsbrautir. Nefndar eru til þær deildir sem nú eru starfræktar og heimild til að setja á fót nýjar deildir. Nýmæli eru þau atriði og markmið sem samstarf deilda háskólans á að beinast að. M.a. er heimild til að kveða á um að starfsskylda sé ekki takmörkuð við eina deild háskólans.
    10. gr. fjallar um starfslið háskólans og er að mestu óbreytt frá því sem er í gildandi lögum að öðru leyti en því að forræði háskólans varðandi ráðningu kennara er aukið. Lagt er til að tímabundin ráðning lektora verði í höndum háskólanefndar. Þetta er í samræmi við þá stefnu menntmrn. að auka ábyrgð háskólastofnana í starfsmannahaldi.
    11. gr., sem kveður á um heimild til að veita starfsmönnum orlof til rannsókna, er nýmæli. Sambærilegt ákvæði er í lögum um Kennaraháskóla Íslands. Með þessu ákvæði er verið að tryggja starfsmönnum Háskólans á Akureyri sambærileg réttindi og tíðkast við aðrar háskólastofnanir hérlendis.
    12. gr. heimilar háskólanum að koma á fót rannsóknastofnun þar sem rannsóknir á fræðasviðum skólans yrðu stundaðar.
    13. gr. er ný. Í henni er lagt til að við háskólann starfi rannsókna- og sérfræðibókasafn. Það er mjög mikilvægt að háskólinn hafi yfir að ráða vel búnu bókasafni til að geta sinnt kennslu-, rannsókna- og þjónustuhlutverki sínu. Bókasafnið hefur einnig hlutverki að gegna við að tengja skólann atvinnulífi Norðurlands. Lagt er til að rektor ráði yfirbókavörð að fengnum tillögum háskólanefndar en í gildandi lögum er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi bókavörð.
    IV. kafli fjallar um nemendur, kennslu og próf.
    14. gr. felur í sér þá breytingu frá gildandi lögum að skólaárið er talið hefjast 15. ágúst í stað 1. sept. Þetta er gert til að hægt sé að ná 15 vikna kennslumissiri. Háskólanum er þó heimilt að hafa fleiri en 15 kennsluvikur á missiri.
    Í 15. gr. er sú breyting frá gildandi lögum að háskólanum er heimilað að setja nánari inntökuskilyrði en nú er gert, ef þörf krefur, m.a. er heimild til að takmarka með almennum hætti inntöku nemenda í skólann að fengnu samþykki menntmrn.
    16. gr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki útskýringa.
    V. kafli laganna, ýmis ákvæði, þarfnast heldur ekki skýringa.
    Með frv. eru lögð fram þrjú fylgiskjöl:
    Fskj. 1 er áfangaskýrsla þróunarnefndar Háskólans á Akureyri frá því í október á síðasta ári.
    Fskj. 2 er kostnaðarumsögn menntmrn. um frv. þar sem lagt er mat á það hvaða kostnaðarbreytingar verða vegna breytinga frá gildandi lögum.
    Fskj. 3 er umsögn fjmrn. um þetta frv. þar sem fram kemur að ráðuneytið telur óæskilegt að festa í lög fyrirmæli um kjör starfsmanna ríkisins með þeim hætti sem gert er í 11. gr. frv.
    Rétt er að ítreka að ákvæði 11. gr. um réttindi starfsfólks eru hér sett inn til að tryggja starfsmönnum Háskólans á Akureyri sambærilegan rétt til rannsóknaorlofa og tíðkast við aðrar háskólastofnanir hérlendis.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þessu frv. til laga um Háskólann á Akureyri og ætla ekki í framsögu að orðlengja þetta frekar, en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn. Alþingis og 2. umr.