Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 13:50:00 (3770)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi lýsa ánægju með það að þetta frv. skuli vera fram komið og að hæstv. menntmrh. hafi þegar mælt fyrir því hér á Alþingi. Ég vil láta þá ósk í ljósi strax að það verði að lögum á þessu þingi, en samkvæmt núgildandi lögum skyldu lögin endurskoðuð og er staðið við það með þessu frv.
    Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra á Háskólinn á Akureyri sér alllangan aðdraganda og stofnsetning hans. Það er ekki ástæða til þess að rekja það í smáatriðum en það eru að ég held 30 ár nákvæmlega, eða á 100 ára afmæli Akureyrar, síðan Davíð Stefánsson frá Fagraskógi viðraði þessa hugmynd fyrst opinberlega að stofnaður skyldi háskóli á Akureyri. Síðan er það 1964 sem málið er gert að þingmáli að frumkvæði Ingvars Gíslasonar, fyrrv. menntmrh., með þáltill. sem vísað var til ríkisstjórnarinnar. Árið 1982 skipaði þáv. menntmrh., Ingvar Gíslason, nefnd þriggja manna til þess að móta tillögur um hugsanlega stofnun háskóla á Akureyri. Sú nefnd skilaði jákvæði áliti, og það er svo 1987 sem skólinn tekur til starfa.
    Það hefur alltaf verið mikill einhugur um það á Norðurlandi og mikil samstaða um að þessi skóli fái að dafna og eflast og reyndar vil ég meina að sú samstaða og sá áhugi nái miklu víðar yfir heldur en Norðurland og það sé orðin nokkuð góð samstaða um skólann almennt í landinu.
    Ég minnist þess líka að hafa lesið það haft eftir Steindóri Steindórssyni, fyrrv. skólameistara, að það væri betra að byrja af vanefnum en að byrja ekki og það má í sjálfu sér segja að það var byrjað af vanefnum. Þau lög sem nú eru í gildi bera það með sér, sérstaklega í sambandi við rannsóknaþáttinn sem aldrei var fullmótaður en er aftur á móti tekið á í því frv. sem hér er til umræðu. Ég vil því sérstaklega lýsa ánægju með að þar er gert ráð fyrir að heimila að sett verði á stofn rannsóknastofnun við skólann og tel það eitt mikilvægasta atriðið í þessu nýja frv.
    Skólinn hefur verið að sanna sig og þróast en það fer þó ekki á milli mála að það þarf að skjóta styrkari stoðum undir starfið. Það er að hluta til gert með þessu frv. Það var gert með stofnun sjávarútvegsbrautarinnar um áramótin 1989--1990. Hún hefur virkilega sýnt það að hennar var þörf í þessu þjóðfélagi. Það má geta þess að félag stúdenta í sjávarútvegsfræðum hefur núna í vetur sýnt það frumkvæði að efna til fyrirlestraraðar og ráðstefnu um fiskveiðistjórnun og sjávarútvegsstefnu á Íslandi víðs vegar um Norðurland sem hefur mælst mjög vel fyrir og ber að þakka.
    Það var á síðasta ári sem fyrrv. sjútvrh. tók þá ákvörðun að rannsóknaskipið Mímir skyldi flutt til Akureyrar og tengjast háskólanum þar og það var mjög mikilvæg ákvörðun fyrir framtíð skólans. Það mætti nokkurri andstöðu, sem ég ætla ekki að tíunda hér, við Háskóla Íslands þegar þessi ákvörðun var tekin og ég hef hér grein undir höndum sem ber yfirskriftina ,,Glapræði sjávarútvegsráðherra``. Því miður þekkjum við örlög þess skips en okkur er ekki ljóst hvað kemur í staðinn og við trúum því og vonum að fyrir því verði séð að nýtt skip verði keypt í stað þess sem fórst og það verði staðsett við Háskólann á Akureyri og sjávarútvegsbraut þess. --- Nú er hæstv. sjútvrh. ekki hér viðstaddur en það hefði verið forvitnilegt að heyra álit hans á því máli.
    Mig langar í örfáum orðum, hæstv. forseti, að koma inn á einstaka atriði í þessu frv. en vil að sjálfsögðu að það komist sem allra fyrst til nefndar þannig að það eigi greiða leið í gegnum þingið. Það er t.d. ákvæði þess efnis að aðilar utan skólans bæði frá Akureyrarbæ og samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eigi aðild að stjórnun skólans. Ég veit að það er nokkuð umdeilt mál, eitthvað umdeilt alla vega, en ég held að það sé mjög af hinu góða og reyndar var það í lögunum frá 1988 í bráðabirgðaákvæði þess efnis sem nú er fallið úr gildi. En það má fullyrða að sú reynsla hafi leitt það af sér að nú er það ákvæði sett inn í þetta frv. sem er miklu ítarlegra frv. og tekur miklu betur á framtíð skólans heldur en þau lög sem nú eru í gildi. Það er eins og hæstv. ráðherra sagði að Háskólinn á Akureyri er byggðamál. Það er byggðapólitík sem liggur að baki þess að hann er stofnsettur og alveg ástæðulaust að fara í launkofa með það en eins og ég sagði áðan er mikilvægt að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir skólann. M.a. er mikill áhugi á að stofnsetja kennaradeild við skólann og ég veit að hæstv. ráðherra hefur lýst stuðningi við þá hugmynd, en spurningin er hvenær hún verður stofnsett og vona ég að sjálfsögðu að það verði sem fyrst.
    Þetta frv. ber það með sér að verið er að auka sjálfstæði skólans sem ég lýsi miklum stuðningi við. 8. gr. er ein af allra mikilvægustu greinum frv. en þar er fjallað um samvinnu skólans við aðra skóla og aðrar stofnanir sem tengjast starfssviði hans, sérstaklega hvað varðar menntun og rannsóknir.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð að sinni um þetta ágæta frv. Þar sem ég sit í menntmn. hef ég tækifæri þar til þess að fjalla ítarlegar um málið en ég vil endurtaka það að ég lýsi ánægju með það að frv. skuli vera fram komið.