Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 14:37:00 (3774)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns koma að því sem hér var rætt um síðast, þ.e. pólitíska forustu í þessu máli. Um það vil ég segja að ég held að í það minnsta meðal stjórnmálamanna á Norðurl. e. hafi ríkt algjör samhugur og samstaða um það að hver reyndi á sínu sviði að þoka þessu máli fram sem hægt væri. Það hefur ekki verið einfalt mál, það var langt frá því að það væri nóg að þetta væri sameiginlegt áhugamál Norðlendinga. Til þess að fá fyrir þessu pólitískan hljómgrunn og samþykki á Alþingi varð að vinna þann hljómgrunn á miklu víðara sviði og það hefur tekist. Ég tel því að deilur á þessu stigi um þætti einstakra stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka þjóni ekki mjög miklum tilgangi. Í okkar upplýsingaþjóðfélagi hafa þegnar landsins alla möguleika á því að fylgjast með málum og draga af þeim sínar ályktanir. Þessu mundi ég kannski beina ekki síst til hv. 9. þm. Reykv. þar sem mér fannst aðeins brydda á því í hans ræðu að hann vildi fara að vekja upp einhverjar pólitískar ýfingar um þetta mál.
    Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á mikilvægi þess að það takist að afgreiða þetta frv., gera það að lögum á þessu þingi. Það er einu sinni þannig að starf háskólans fram að þessu hefur að miklu leyti verið borið uppi af eldhugum sem hafa starfað við skólann og hafa ekkert vílað fyrir sér að leggja í það ómælda vinnu, í raun nótt við dag, að móta skólann og vinna sjónarmiðum hans fylgi. Það endast engir til slíkrar vinnu til langframa, þannig að það er mjög mikilvægt að háskólinn fái nú nýja löggjöf sem setji honum ákveðinn ramma um stöðu hans í stjórnkerfinu og gagnvart hinu opinbera, þannig að starfsmenn hans geti farið að einbeita enn frekar en verið hefur fram að þessu kröftum sínum að því að byggja skólann upp faglega og akademískt. Þess vegna legg ég á það mjög mikla áherslu að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.
    Í þriðja lagi vil ég benda á rannsóknaþáttinn. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er grundvallarskilyrði fyrir viðgang og vöxt skólans að hann nái að festa sig í sessi sem akademísk stofnun sem byggi að verulegu leyti á rannsóknum. Og ég tel að það sé heillaspor fyrir skólann og festi hann í sessi að rannsóknaþátturinn hefur frá upphafi beinst að grundvallaratvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna það að þó svo að viðhorf hæstv. menntmrh. gagnvart skólanum sé mikilvægt fyrir framtíðaruppbyggingu hans, þá hefur reynslan sýnt að fyrir sjávarútvegsdeildina og rannsóknastarfi tengdu henni er það ekki síður mikilvægt að góður vilji og góður hugur sjútvrh. á hverjum tíma til Háskólans á Akureyri og til rannsóknastarfsemi hans liggi fyrir.
    Nú vil ég alls ekki efa það að hæstv. núv. sjútvrh. beri svipaðan hug til skólans og fráfarandi sjútvrh. sýndi í raun í verki og vil ekki eitt augnablik efast um það að hæstv. núv. sjútvrh. muni halda því starfi áfram. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér og nú og ítreka þá spurningu til hæstv. sjútvrh. sem var borin fram óbeint fyrr í umræðunni, hvernig hann hyggist bregðast við gagnvart rekstri rannsóknaskips sem gert verði út frá Akureyri í tengslum við háskólann þar eftir að svo sviplega tókst til með skólabátinn Mími á sl. hausti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir sem allra fyrst á hvern hátt sjútvrh. hyggst koma inn í það mál og sjá til þess að þetta sviplega slys þurfi ekki að verða til þess að niður falli það rannsóknastarf sem var meiningin að tengdist komu bátsins norður.
    Gagnvart rannsóknaþættinum ætla ég að nefna eitt atriði enn. Ég tel og hef reyndar sagt það áður að í tengslum við það rannsóknastarf sem er að þróast við Háskólann á Akureyri sé fyllilega grundvöllur til þess að þróa það til þeirrar áttar að með tíð og tíma, við getum sagt að um það verði gerð 10 ára áætlun, yrði innan vébanda Háskólans á Akureyri miðstöð matvælarannsókna á Íslandi. Ég held að þarna sé tækifæri til þess að sýna í verki það sem menn hafa oft á orði, að það sé nauðsynlegt að flytja þjónustustofnanir út á land, og þarna sé einmitt tækifæri til þess að gera nokkurra ára þróunaráætlun um slíkt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að slík rannsóknastarfsemi styrkist hér á landi. Við erum matvælaútflytjendur fyrst og fremst. Við viljum ná hærra verði fyrir okkar afurðir með því að skírskota til ómengaðrar hollustuvöru, en við seljum okkar vöru ekki sem slíka nema við getum sýnt fram á það á vísindalegan hátt að við séum með slíka vöru í höndunum og það gerist ekki nema með öflugu rannsóknastarfi, nánast daglegu eftirliti með okkar útflutningsvöru. Ég tel því að hér sé um að ræða mjög mikið hagsmunamál fyrir íslenska þjóð.

    Ég nefni til viðbótar við rannsóknir sem tengjast sjávarútvegi að mér fyndist ekki úr vegi að matvælarannsóknaþáttur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins mundi flytjast norður og tengjast háskólanum.
    Örfá orð um kennaradeildina sem ég tel mjög mikilvægt að komist á laggirnar sem fyrst. Því miður sjáum við ekki eins og mál standa núna að það geti orðið á næsta hausti eins og vonir háskólamanna fyrir norðan stóðu til, en ég vísa til góðra orða hæstv. menntmrh. í þá átt og ég treysti því að hann fylgi því máli eftir. Ég hef áður sagt það hér úr ræðustól að það er tvennt sem að mínu mati er mikilvægt gagnvart kennaradeildinni. Annars vegar er það innra starf skólans, þetta stækkar umfang skólans og honum er það mjög mikilvægt að vaxa að nemendafjölda á næstunni. Í öðru lagi tel ég að þetta gæti verið liður í því að bæta úr kennaraskorti í dreifbýlinu. Það ætla ég að rökstyðja með örfáum orðum.
    Það þarf ekki annað en að skoða samsetningu nemenda við Kennaraháskóla Íslands til að sjá að það er ekki mjög líklegt að stór hluti nemenda þar fari til starfa úti í dreifbýlinu. Meiri hluti nemendanna eru giftar konur sem eru búnar að stofnsetja sín heimili hér á höfuðborgarsvæðinu, eiga sinn maka í vinnu hér, þannig að það er töluvert átak fyrir þá aðila að rífa sig upp til starfa annars staðar á landinu.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég leggja áherslu á að það verði, og þá sameiginlega af öllum stjórnmála- og hagsmunaöflum, farið að huga að því alveg á næstunni hvernig hægt verði að tryggja Háskólanum á Akureyri einhverja sjálfstæða tekjustofna til sinnar uppbyggingar. Ég er þeirrar skoðunar að Háskóli Íslands í Reykjavík hefði ekki náð því umfangi sem hann hefur í dag og alls ekki því akademíska frelsi sem háskólastofnun er nauðsynleg ef hann hefði ekki notið þess fjár til uppbyggingar sem hefur komið frá Happdrætti Háskólans. Nú er ég ekkert að gera kröfu í þann sjóð í þessu tilfelli en ég bendi einfaldlega á þetta. Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir vöxt og viðgang skólans á næstu árum og áratugum að menn finni leið til þess að Háskólinn á Akureyti fái einhverja sjálfstæða tekjustofna.
    Virðulegi forseti. Þetta mun ég hafa mín síðustu orð í þessari umferð en ég legg áherslu á það sem ég sagði í upphafi að þetta frv. fái skjóta meðferð á þessu þingi og verði að lögum áður en þingmenn fara heim í vor.