Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 14:54:00 (3778)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Mitt erindi hingað í ræðustól er aðallega það að lýsa stuðningi við meginefni þessa frv. og fagna framkomu þess. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að flytja frv. hér og styðja þannig við tillögur þær um framtíðarþróun Háskólans á Akureyri sem frv. felur í sér og tillögur þess starfshóps, hvert efni er uppistaða í frv., bera í sér. Ég vil einnig við þetta tækifæri leyfa mér að þakka hv. fyrrv. menntmrh., sem hér tók til máls áðan, sömuleiðis fyrir hans þátt í því að hlúa að og efla Háskólann á Akureyri, úr því að farið er út í umræður um slíka hluti og liðinn tíma á annað borð. Einn hv. ræðumaður sagði hér áðan að menn ættu að njóta sannmælis og það er vissulega rétt og best að allir geri það.
    Ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að fara yfir töflur sem fylgja hér í fylgiskjali þar sem fram kemur aukning fjárveitinga til Háskólans á Akureyri sl. fjögur ár, þar sem tekist hefur að meira en tvöfalda að raungildi fjárveitingar til háskólans á þessum tíma, úr 60 millj. rúmum í 130 millj. á síðasta ári. Nú er það að sjálfsögðu eðlilegt við stofnun sem er í uppbyggingu og er að hefja starfsemi að fjárveitingar aukist. En þeir sem þekkja til fjárlagagerðar, bæði nú um stundir og á undanförnum árum, vita að það er ekki alltaf það léttasta sem menn glíma við að stórauka milli ára fjárveitingar til einstakra liða af þessu tagi. Það hefur tekist á þessum tíma fyrir Háskólann á Akureyri og skiptir auðvitað sköpum um fyrstu árin í tilvist stofnunarinnar að hann hefur mætt þeim skilningi og haft þann stuðning sem til hefur þurft að byggjast upp með eðlilegum hætti á sínu fyrstu starfsárum.
    Hér er á ferðinni endurskoðun laga um háskólann frá árinu 1988 og vegna þess sem menn hafa minnst á varðandi það sem þeim lögum kann að hafa verið áfátt um vil ég segja að það var vissulega með vilja gert og með fullri meðvitund um það að lagasetningin þyrfti að koma til endurskoðunar í ljósi þess hvernig háskólanum reiddi af á sínum fyrstu árum. Þess vegna var innbyggt í lögin á þeim tíma endurskoðunarákvæði sem hér er verið að framkvæma með þessu frv. Ég held að það sé samdóma álit þeirra sem fylgst hafa með þróun háskólans að hann hafi í öllum aðalatriðum farið vel af stað og þær vonir sem við hann voru bundnar hafi að mestu leyti ræst. Ég held að aðsókn, metnaður í starfi og annað því um líkt sem þar skiptir sköpum hafi verið í góðu lagi og reynslan sýni að það var rétt ákvörðun og skynsamleg að stofna til háskólanámsins nyrðra. Það er óþarft að taka fram að metnaður starfsmanna við stofnunina stendur til þess að afsanna þær hrakspár sem uppi voru á sínum tíma. Þeir voru sem betur fer fáir sem síkt höfðu í frammi og ég hygg að þær raddir séu nú að mestu leyti þagnaðar.
    Ég er sammála þeim sem hér hafa tjáð sig um mikilvægi þess að rannsóknastarfsemin er mjög styrkt með ákvæðum þessa frv., ef að lögum verða, og ég held að það sé úrslitaatriði fyrir Háskólann á Akureyri að rannsókna- og vísindaþátturinn í starfsemi skólans styrkist nú þannig að hér geti orðið um fullburða akademíska stofnun að ræða.
    Sömuleiðis er með þessu frv. fest í sessi sjávarútvegsdeildin við Háskólann á Akureyri, sem byggt hefur á heimild frá ráðuneytinu frá 4. jan. 1990 en er ekki inni í gildandi lögum sem ein af deildum stofnunarinnar. Það er tvímælalaust mikilvægt að fá sjávarútvegsdeildina þannig tekna upp í lagatextann sjálfan sem eina af þremur deildum skólans eins og það yrði þá skilgreint. Ég vil enn fremur í þessu sambandi undirstrika gildi þess að Háskólinn á Akureyri er að sérhæfast sem háskólastofnun varðandi málefni sjávarútvegsins. Ég held að það frumkvæði sem þar hefur þegar verið sýnt í ýmsum málum sanni hversu mikilvægt það er, þó seint sé, að við Íslendingar förum á æðri menntunarstigum að fást við meginviðfangsefni þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Ég vil nefna sérstaklega það starf sem farið hefur fram í samstarfi fyrirtækja og Háskólans á Akureyri og reyndar fleiri aðila varðandi gæðamál sjávarútvegsins og gæðamálefni almennt, þar á meðal kennsluna í gæðastjórnunarbraut við háskólann. Það er enginn vafi á því, og það hef ég iðulega sannreynt í viðtölum við forsvarsmenn fyrirtækja, ekki síst í sjávarútvegi, að menn binda beinlínis miklar vonir við það starf sem fer fram innan Háskólans á Akureyri varðandi málefni sjávarútvegsins og sjá þar möguleika nýsköpunar og vaxtarbrodda þróunar í ýmsum efnum, til að mynda í öllum þeim greinum sem lúta að gæðamálum í framleiðslunni. Og svo sannarlega veitir okkur ekki af eins og nú blæs í okkar atvinnumálum, Íslendingum, að sjá þarna einhver ljós af þessu tagi. Það er ástæða til að fagna því að sú samtvinnun kennslunnar, rannsóknastarfsemi og atvinnulífsins, sem er ein grunnhugsunin á bak við Háskólann á Akureyri, hefur a.m.k. á þessu sviði gengið bærilega, stór og öflug fyrirtæki á Norðurlandi og Austurlandi standa á bak við samstarf af því tagi sem ég hef hér verið að nefna.
    Varðandi rök fyrir því að þessi stofnun var sett á fót og starfar má kannski segja að það ætti ekki að þurfa að vera í rökræðum um slíkt, sjálf tilvist skólans og vöxtur hans segja allt sem segja þarf um það efni, og menn geta skilið það eftir til handa sagnfræðingum að fást við síðar meir ef menn svo vilja, hvað leiddi til þess að menn hurfu að því ráði að setja á stofn háskóla norður í landi. Ég vil þó taka undir það sem hér hefur verið sagt að í mínum huga er hin byggðapólitíska hlið málsins, stofnun Háskólans á Akureyri sem byggðapólitísk aðgerð, ekki nema ein af mörgum og ekki endilega sú mikilvægasta. Ég tel að almenn menntunar- og vísindarök séu líka mjög gild varðandi hlutverk Háskólans á Akureyri og enn fremur þau að menn sjá í þessari stofnun og starfsemi hennar, sérhæfðri vísindastofnun á háskólastigi sem m.a. sérhæfir sig í ákveðnum greinum atvinnulífsins, framfara- og þróunarviðleitni af því tagi sem mikið er til umræðu á Íslandi, sérstaklega þegar á móti blæs í atvinnulífinu og efnahagsmálum. Þá er það eins og við manninn mælt að upp hefst mikil umræða um mikilvægi menntunar og gildi rannsókna- og þróunarstarfs. Þetta vill síðan eins og sofna út af þegar skár árar í bili. En ég held að einmitt Háskólinn á Akureyri og starfsemi hans sé eitt af fáu sem við getum beinlínis bent á af þessu tagi sem hefur verið gert en ekki bara talað um og er beinlínis framlag inn í þessa umræðu um framfarasókn og þróunarviðleitni í gegnum æðri menntun og rannsókna- og vísindastörf í tengslum við atvinnulífið. Þann þátt nefni ég og ekki sístan í þessu samhengi.
    Í fjórða lagi mætti svo tína til ef menn svo vilja ýmis réttlætisrök og jöfnunarsjónarmið sem eru fullgild gagnvart þessari stofnun og ákvörðun um að setja hana á fót.
    Ég held að það megi segja að með frv. þessu, ef að lögum verður, séu frumbýlisár, í vissum skilningi, Háskólans á Akureyri að baki. Hér kæmu þá til ótímasett lög án nokkurra sérstakra endurskoðunarákvæða sem ættu við um málefni háskólans og tvímælalaust styrkja stöðu hans, koma honum á fastari framtíðargrundvöll og tryggja með varanlegum hætti stöðu Háskólans á Akureyri í hinu íslenska menntakerfi og

menntasamfélagi.
    Það sem ég hef aflað mér upplýsinga um, m.a. úr röðum háskólamanna á Akureyri með símtölum við rektor o.fl., er að ágæt samstaða ríkir þar á bæ um efni þessa frv. og ég hygg að þar séu menn sammála um það ekki síst að nauðsynlegt sé að hraða afgreiðslu þess og gera það að lögum á yfirstandandi þingi.
    Sem betur fer hefur nánast án undantekninga ríkt mikil samstaða þeirra sem saman hafa þurft að eiga um málefni Háskólans á Akureyri. Þannig hefur það til að mynda ætíð verið í þingmannahópi Norðurl. e., sem eiga þó engan einkarétt á þessari stofnun eða umræðum um málefni hennar, að þar hefur ríkt algjör samstaða og flokksbanda ekki gætt. Ég fyrir mitt leyti hef talið þetta mál svo mikilvægt að ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann látið það eftir mér að ræða um það með tilliti til stjórnmálaskoðana eða flokkspólitískra landamæra. Ég vil gjarnan hafa það hafið yfir þá umræðu. Hitt skiptir held ég mestu máli að gæfa háskólans hefur verið sú að þeir sem á hverjum tíma hafa haft með málefni hans að gera, haft aðstöðu til að hafa áhrif á gang mála, þeir hafa stutt háskólann. Og ég veit ekki hvort einn er þar öðrum meiri. Þeir sem fyrst og fremst hafa farið með málefni hans á hverjum tíma, bæði þegar til umræðu var að stofna hann, þegar hann var stofnaður og þegar hann var studdur á frumbýlisárunum, hafa gert það og afleiðingin er sú stofnun sem við sjáum fyrir okkur í dag og bindum miklar vonir við.
    Ég vil að lokum undirstrika stuðning minn við þetta frv. og óska eftir því og gjarnan leggja því lið að vegferð þess hér í gegnum þingið megi verða sem greiðust. Það er aðeins eitt atriði sem ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. menntmrh. tjá sig eitthvað um ef hann kemur hér í ræðustólinn á nýjan leik og það eru horfurnar varðandi hina nýju kennaradeild við skólann, hvort hæstv. menntmrh. getur eða treystir sér til að segja okkur eitthvað um horfurnar því efni. Vissar vonir voru bundnar við að það tækist að koma henni af stað þó að litlar væru fjárveitingarnar, a.m.k. að undirbúa og tímasetja upphaf þeirrar starfsemi. Ég hygg að mönnum væri í raun og veru mestur akkur í því að fá þar eitthvert fast land undir fætur og meira en kannski nákvæmlega hvenær tækist að hrinda úr vör. Það er þetta sem ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. menntmrh. tjá sig eitthvað meira um.