Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:07:00 (3779)


     Sigbjörn Gunnarsson :
    Herra forseti. Það er langur aðdragandi að stofnun Háskólans á Akureyri. Sú saga er löng og eflaust efni í stóra bók og mun án efa verða skráð þótt síðar verði. Ég held að ég megi fullyrða að þingmenn Norðurl. e., svo og flestir þeir sem hafa tekið þátt í umræðum og tóku þátt í umræðum þegar lögin voru samþykkt um háskólann í mars 1988, hafi verið nokkuð sammála um mikilvægi þess að sá háskóli yrði sú stofnun sem hún er í dag og vilji hafi verið til að auka hana og efla. Ég tel í sjálfu sér óþarft að hafa uppi flokkspólitískar deilur um það en ég tek þó undir að það er sjálfsagt og eðlilegt að menn njóti sannmælis.
    Þegar lögin um háskólann voru sett í mars 1988 urðu nokkrar umræður hér á hinu háa Alþingi og ekki síður utan þings um þá stofnun. Það er í sjálfu sér eðlilegt að skoðanir á slíkum málum séu skiptar og það er óþarft að rifja þær deilur upp frekar. Það má þó til gamans minna á að þessar deilur voru ekki ósvipaðar þeim sem áttu sér stað þegar verið var að heimila Gagnfræðaskólanum á Akureyri, síðar Menntaskólanum á Akureyri, að útskrifa stúdenta 60 árum áður. M.a. sagði Bjarni frá Vogi í ræðu við það tækifæri að yrði frv. að lögum yrði þess vart langt að bíða að Norðlendingar heimtuðu háskóla. Bjarni var nokkuð sannspár þó svo að það liðu u.þ.b. 60 ár þar til spádómurinn rættist. Því má e.t.v. til sanns vegar færa að hugmyndin um háskóla á Norðurlandi sé komin frá Bjarna frá Vogi.
    Menntmrh. og ræðumenn hér á undan hafa farið efnislega yfir það frv. sem hér er til umræðu og er óþarft í sjálfu sér að bæta þar miklu við. Það eru þó nokkrar greinar frv. sem ég vil gera sérstaklega að umræðuefni. Hér hefur verið minnst á 8. gr. frv., sem er nýmæli og tekur til samráðs háskólans við aðrar háskólastofnanir. Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni sem sagði hér á undan að það væri mikilvægt að stofnanir á háskólastigi hafi með sér samráð og samstarf en berjist ekki hver gegn annarri eins og dæmi eru um.
    Í 2. mgr. 9. gr. frv. eru nýmæli frá fyrri lögum. Þar segir:
    ,,Deildir háskólans skulu hafa með sér náið samstarf. Þannig skal með samnýtingu mannafla, bókasafns, kennslutækja og annarrar aðstöðu stefnt að því að efla fjölbreytta menntunarkosti og tryggja hagkvæmni í rekstri. Í þessu skyni má nýta starfsskyldu þeirra sem ráðnir eru til starfa við einhverja deild háskólans í þágu annarra deilda eða skólans í heild.``
    Þessi grein þykir mér til mikillar fyrirmyndar. Þar eru tekin af öll tvímæli um að starfsskylda sé ekki takmörkuð við eina deild, sem mun auka fjölbreytni námstækifæra og koma í veg fyrir tvíverknað í kennslu. Lögfesting þessa ákvæðis mun leiða til aukinnar hagkvæmni, fyrir stjórnendur og nemendur og þá ekki síður fjárveitingavaldið.
    Í 12. gr. er kannski það sem hvað mikilvægast er í þessu frv. en þar er fjallað um að háskólanum sé heimilt með samþykki menntmrn. að koma á fót rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra aðila. Í umræðum á Alþingi í mars 1988 kom fram að ýmsir höfðu af því áhyggjur að kennarar við skólann mundu ekki og hafa ekki aðstöðu til að sinna rannsóknum sem skyldi. Raunin hefur sem betur fer orðið önnur með samstarfi við ýmsar stofnanir sem tengjast Háskólanum á Akureyri, svo sem útibú Hafrannsóknastofnunar þar fyrir norðan. Þessi grein mun festa og efla rannsóknir við þær deildir háskólans sem starfa nú og koma til með að starfa á Akureyri og er því fagnaðarefni.
    Þá er í þessu sambandi rétt að geta þess að fyrir hinu háa Alþingi liggja tvær till. til þál. um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs annars vegar og um sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri hins vegar. Þessar tillögur ganga mjög í sömu átt og í báðum tillögum er gert ráð fyrir miklum tengslum við Háskólann á Akureyri.
    Í 9. gr. frv. er talið upp hvaða deildir skulu vera við háskólann. Þar er jafnframt kveðið á um að menntmrn. geti samþykkt stofnun fleiri deilda. Öllum ætti að vera ljóst að mikill áhugi er meðal norðanmanna á stofnun kennaradeildar eða menntadeildar eins og ýmsir kjósa að nefna deildina. Menntmrh. hefur tekið vel í stofnun þessarar deildar. Á því leikur vart vafi að stofnun kennaradeildar við skólann mundi gera mörgum kleift að öðlast kennaramenntun sem ekki hafa til þess möguleika í dag. Á því leikur heldur ekki vafi að stofnun kennaradeildar á Akureyri mundi draga úr kennaraskorti á landsbyggðinni sem mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um hér á hinu háa Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég hvet til að frv. fái vandaða og skjóta meðferð hjá menntmn. og Alþingi þannig að það verði að lögum fyrir vorið.