Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:13:00 (3780)


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ef ég man rétt voru dálítið deildar meiningar innan Kvennalistans um það hvort háskóli á Akureyri væri æskilegur eða ekki. Ég ætla ekki að draga neina dul á að það voru raddir innan okkar hóps sem litu svo á og aðrar voru á annarri skoðun eins og gengur en mér heyrist að allir sem í þennan ræðustól koma núna vildu Lilju kveðið hafa og hafa sjálfsagt gert það en þannig var þetta í okkar hópi og við skömmumst okkar ekkert fyrir það.
    Háskólinn á Akureyri hefur aftur á móti borið gæfu til þess að marka sér svo sérstakan sess innan háskólalífs á Íslandi að hann hefur sýnt það og sannað að hann er lífvænleg stofnun og að rétt var að setja hann á stofn, vegna þess að hann markaði sér braut, markaði sér sess annars staðar en aðrar háskólastofnanir hafa verið á. Og það er mikilvægt fyrir allar skólastofnanir, ef þær ætla að eiga sér líf, að vita hvaða sess þær hafa og hvernig þær geta unnið við hliðina á öðrum stofnunum. Þetta hefur tekist vel til og ég vona svo sannarlega að á brautinni fram undan muni fleiri þættir atvinnulífsins verða teknir sem viðfangsefni í Háskólanum á Akureyri.
    Margir hafa nefnt hér kennaramenntunina. Ég geri ráð fyrir að þá sé verið að ræða um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun sem er það sem við bíðum eftir fyrir landsbyggðina núna. Ég álít að það hafi verið mismæli hjá hv. 9. þm. Reykv. þegar hann sagði að sú menntun ætti að fara fram í samvinnu eða samstarfi við Háskóla Íslands. Ég álít að það sé Kennaraháskóli Íslands sem hún á að vera í samstarfi við, eindregið. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt, eiginlega brennandi nauðsyn, hæstv. menntmrh., að þessi menntun og þetta starf geti komist á næsta haust. Svo lengi hefur landsbyggðin verið í svelti, kennaramenntunarlega séð.
    Mig langar að nefna eitt sem ég hef tekið eftir að Háskólinn á Akureyri hefur rækt kannski betur en aðrar háskólastofnanir sem ég hef séð, það er að hafa skrifað fræðandi greinar fyrir allan almenning. Þó það geti kannski verið rétt að skólinn hafi verið einangraður gagnvart einhverjum stofnunum þá hefur hann borið gæfu til þess að vera ekki einangraður gagnvart öllum almenningi í landinu. T.d. í blaðinu Degi á Akureyri, sem ég sé stundum, hef ég oft séð greinar frá þessum háskóla sem eru girnilegar fyrir almenning í landinu að lesa og í ýmsum öðrum blöðum hef ég séð þetta líka. Þetta kalla ég mjög góða starfsemi og alla vega er engin einangrun frá skólans hendi eða gagnvart skólanum að þessu leyti.
    Einn af hv. þm. Norðurl. e., sem flestir hafa talað hér, nefndi að það væri æskilegt að skólinn yrði miðstöð matvælarannsókna, að þar færu þær fram. Ég álít að það sé góð hugmynd og styð það en ég er ekki eins viss um að það eigi að taka rannsóknir og háskólastarfsemi Bændaskólans á Hvanneyri þaðan og flytja norður af því að Háskólann á Akureyri vanti eitthvað til þess að vinna að. Það er vitleysa. Ef skólinn á Hvanneyri hefur unnið gott og frækilegt starf þá á hann að fá að vinna það áfram án þess að verið sé að reyna að ræna því af honum.
    Ég tók eftir því þegar ég fletti þessu frv. eða skjölunum með því að enginn kennari við Háskólann á Akureyri hefur hærri titil heldur en lektor að því er virðist. Það er enginn dósent, hvað þá prófessor. Þetta þýðir að mínum dómi að þetta fólk er ekki nógu vel launað. Það er illa launað en ég held að það sé yfirleitt mjög vel í stakk búið til þess að hljóta bæði dósents- og prófessorsstöður. Það sem er að er að skólinn er ungur og ekki búið að sjá til þess að fólkið fái þær stöður sem hæfir til þess að það geti unnið að verkefnum sínum. Við vitum það að lektorar vinna auðvitað rannsóknastörf en ekki síður prófessorar. Prófessorar eru þeir sem maður væntir mestra rannsóknastarfa af. Og ef háskólinn á að vinna að rannsóknum þá álít ég að þarna eigi að starfa bæði dósentar og prófessorar hið fyrsta.
    Þegar rætt var um stofnun þessa skóla í upphafi fannst mér hugmyndin dálítið girnileg og ég dreg ekki nokkra dul á að það var ekki síst af því að ég vildi gjarnan veg landsbyggðarinnar meiri. Hins vegar eru til mismunandi tegundir af háskólastofnunum. Það er til sem kallast ,,Universitas``, það er líka til það sem í Danmörku kallast ,,Teknologisk Insitut`` og í Bandaríkjunum kallast ,,Institute of Technology`` og eru skólar á mjög háu stigi og svo það sem heitir á Norðurlandamálunum víða ,,høgskole`` eða ,,højskole`` og

á ensku ,,college``. Ég hélt að það mundi hugsanlega koma þarna á stofn eitthvað sem líktist college eða højskole. En með þessu lagafrv. og þeirri þróun sem mér sýnist vera að verða þá mundi ég frekar segja að skólinn væri hliðstæður teknólógískum skóla þó að deildirnar séu svona margvíslegar og kannski falla ekki beint undir teknólógíu, en að staða skólans sé slík. Ég kalla þetta allt til bóta og mér finnst að frv. sé hið mætasta.
    Það hafa verið örlög margra skólastofnana á Íslandi að starfa æði lengi án þess að fá nokkur lög til að styðjast við. Það mætti nefna ýmsar slíkar stofnanir. Þessi skóli hefur ekki starfað mjög lengi en nú er þetta lagafrv. komið fram og ég held að það muni örugglega hljóta skjóta og góða afgreiðslu, svo vel hefur verið tekið undir þetta lagafrv. frá öllum hliðum.