Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:34:00 (3785)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég þakka fyrir mjög góðar undirtektir sem komið hafa fram í máli allra hv. ræðumanna við þetta frv. og stuðning við það. Það er mjög mikilvægt að fá slíkar undirtektir eins og hér hafa komið fram. Nokkur atriði sem komið hafa fram í ræðum hv. ræðumanna vil ég gera að umtalsefni.
    Allir hv. ræðumenn, held ég að ég megi segja, hafa nefnt stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri og spurt hverjar líkur séu á að slík deild verði stofnuð og þá hvenær.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri er mjög mikilvægt skref í þá átt annars vegar að efla skólann --- og kannski eitt það besta sem hægt er að gera til þess að efla skólann --- og annað sem einnig hefur komið fram í máli nokkurra ræðumanna hér, er sú trú að

stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri muni hafa mjög ákveðin áhrif í þá átt að draga úr kennaraskortinum í landinu. Ég trúi því að svo muni einmitt verða. Við þekkjum reynslu t.d. Norðmanna af því að stofna til kennaranáms í norðurhluta Noregs. Það liggur fyrir alveg ótvírætt að þegar svo var gert þar dró mjög úr kennaraskortinum, einkum í hinum dreifðu byggðum landsins og ég er alveg sannfærður um að stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri muni hafa áhrif í þessa átt, það verði reynsla okkar sem annarra.
    Ég get ekki svarað því á þessari stundu hvenær af því gæti orðið að til kennaranáms yrði stofnað við Háskólann á Akureyri en ég er að gera mér vonir um að það gæti orðið á næsta ári, haustið 1993. Ég veit að hugur manna hefur staðið til þess að það mætti hefja þá kennslu fyrr, jafnvel í haust. En ég tel það hæpið, fyrst og fremst vegna þess að ekki eru fjárveitingar til þess. En ef hægt yrði að taka ákvörðun í þessa veru nú á vordögum þá mundi ég beita mér fyrir því að undirbúnigur gæti haldið áfram og fé fengist til þess með einum eða öðrum hætti á þessu ári. Meira get ég ekki fullyrt um stofnun kennaradeildar en lýsi eingöngu yfir áhuga mínum á að svo verði gert og mun beita mér fyrir því.
    Hv. þm. Svavar Gestsson talaði hér um samvinnu þeirra skóla sem á háskólastigi eru og spurði hvað liði störfum samstarfsnefndar háskólastigsins. Ég veit ekki annað en að unnið sé vel að samvinnumálum skólanna á háskólastiginu. Ég hef rætt sérstaklega við rektora Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans og veit að vilji þeirra allra stendur til náinnar samvinnu og er reyndar ekki í vafa um að þar muni takast mjög náið og gott samstarf. Ég hef þar sérstaklega í huga samstarf Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands og get ekki bætt neinu við þetta annað en að ég hef sannfærst um vilja stjórnenda þessara skóla fyrir því að ná sem allra bestu samstarfi.
    Hv. þm. gerði 3. gr. frv., sem fjallar um val á rektor, nokkuð að umræðuefni. Ég nefndi það í ræðu minni að svo kynni að fara að breyta þyrfti þessum ákvæðum í frv. eða í lögum, ef þetta frv. verður að lögum, þegar Háskólinn á Akureyri stækkar og færa ákvæðin til samræmis við löggjöf um kjör rektors við aðrar sambærilegar stofnanir. Það má vel vera að ástæðulaust sé að vera með sérreglur í þessum efnum núna. En ég hef skilið það svo að þetta hafi orðið að samkomulagi og ástæðan einkum verið sú hversu fámenn þessi stofnun er enn þá.
    Um inntökuskilyrðin, sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði einnig að umtalsefni, þ.e. ákvæði 15. gr., hef ég svo sem ekkert sérstakt um að segja. Ég bendi aðeins á að gert er ráð fyrir, eins og í gildandi lögum, að stúdentsprófið sé að meginreglu til skilyrði fyrir inngöngu í háskólann eins og í aðra skóla á háskólastigi, en hins vegar geti önnur undirbúningsmenntun þó komið í stað þess ef hún telst fullnægjandi til að stunda nám við háskólann. Það sýnist eðlilegt að heimila yfirstjórn skólans að setja nánari inntökuskilyrði ef þörf krefur, m.a. þá til almennrar takmörkunar á inntöku nemenda í skólann, vegna óviðráðanlegs fjölda umsókna ef til kæmi og heimild til að kveða á um lágmarkseinkunnir eða sérstakan undirbúning í einstökum greinum eins og segir í athugasemdum við 15. gr. frv.
    Hv. þm. Svarvar Gestsson og raunar einnig hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir nefndu dreifða og sveigjanlega kennaramenntun. Það er unnið að undirbúningi þess að taka upp dreifða og sveigjanlega kennaramenntun við Kennaraháskóla Íslands og stefnt að því að sú kennsla hefjist eigi síðar en á næsta ári og ég sé ekkert í veginum fyrir því að það geti orðið.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvað liði lokaskýrslu þróunarnefndarinnar, hvar hún væri á vegi stödd, en í umsögn þróunarnefndarinnar segir að hún verði tilbúin í lok febrúar. Ég hef fregnir af því, m.a. eftir fund með forráðamönnum Háskólans á Akureyri fyrr í þessari viku, að sú skýrsla verði tilbúin í lok mars. Þeir telja sig þurfa u.þ.b. einn mánuð til viðbótar.
    Um athugasemd hv. þm. um athugasemd fjmrn. við 11. gr. hef ég svo sem ekkert að segja. Þessi athugasemd fjmrn. í sambandi við þetta frv. skiptir ekki meginmáli og sýnist óþörf, ég er honum sammála um það.
    Það voru kannski ekki fleiri atriði sem ég tel mig þurfa að svara beint. Eins og ég sagði komu fram í máli allra hv. ræðumanna fyrirspurnir um kennaradeildina og áhugi á að hún verði stofnuð.
    Hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir vakti athygli á því að engin dósents- eða prófessorsstaða væri skipuð við háskólann og það er rétt. Í lok maímánaðar í fyrra, 1991, voru auglýstar nokkrar stöður lausar við Háskólann á Akureyri, prófessorsstaða eða dósentsstaða í fiskihagfræði við sjávarútvegsbraut, dósentsstaða í iðnrekstrarfræði við rekstrardeild og dósentsstaða í hjúkrun við heilbrigðisdeildina. Það er skemmst frá því að segja að engar umsóknir bárust um þessar stöður. Á því kunna svo sem að vera skýringar. Það munu vera fáir sem hafa þá menntun sem krafist er til að fylla þessar stöður, en þetta eru sem sagt staðreyndir málsins.
    Ég held, herra forseti, að það sé ekki fleira sem ég tel ástæðu til að nefna hér. Ég ítreka þakkir fyrir góðan stuðning við þetta frv. og vonast til að það fái greiða leið hér í gegnum þingið.