Aðgerðir í fiskeldi

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:40:00 (3792)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að útvega fjármuni til sérstakra rekstrarlána til fiskeldis að upphæð 300 millj. kr. á síðasta vori. Á síðasta ári sóttu 30 fyrirtæki um sérstakt rekstrarlán. Tólf fiskeldisfyrirtæki uppfylltu skilyrði um lánveitingu og var veitt sérstakt rekstrarlán að upphæð samtals 142 millj. kr. Reglur um úthlutun sérstakra rekstrarlána til fiskeldis voru samþykktar í ríkisstjórn. Reglur þessar eru almennar útlánareglur þar sem mið skal tekið af eiginfjárstöðu fyrirtækja, lausafjárstöðu, eldisaðstæðum og eldisárangri. Einnig skyldi reynt að sjá til þess að allar tegundir fiskeldis sem stundaðar eru hér á landi verði reknar á úthlutunartímabilinu. Veð fyrir lánunum skal tekið í fiski, fasteignum eða lausafé stöðvanna. Ekki er tekið við persónulegum ábyrgðum einstaklinga á þessum lánum. Ekki skal nota lánin til að greiða niður tap sem þegar er orðið.
    Eiginfjárstaða þeirra fyrirtækja sem úthlutað fengu lánum á síðasta ári var samtals metin jákvæð um 300 millj. kr. Eiginfjárstaða þeirra fyrirtækja sem sóttu um sérstakt rekstrarlán og ekki fengu úthlutað láni var metin neikvæð um samtals 700 millj. kr. Auglýst hefur verið eftir umsóknum fyrir árið 1992

og er reiknað með að seinni úthlutun þessara rekstrarlána fari fram í næsta mánuði.
    Leitað hefur verið eftir því við Stofnlánasjóð, Byggðasjóð, Framkvæmdasjóð og Fiskveiðasjóð að langtímalán til fiskeldis verði fryst þannig að ekki verði borgað af þeim lánum a.m.k. næstu tvö ár og helst fjögur. Þessari málaleitan hefur verið vel tekið.
    Um nokkurt skeið hefur Landsvirkjun veitt 50% afslátt af heildsöluverði rafmagns til fyrirtækja sem nota minnst eina gwst. á ári. Síðasta vor nutu 11 eldisstöðvar þessa afsláttar en hann var hugsaður af hálfu Landsvirkjunar sem tímabundinn styrkur til fiskeldis. Alls nam hann 37 millj. kr. á árinu 1990. Ekki munu veitustofnanir hafa gefið hliðstæðan afslátt af þjónustu sinni en þær bera því m.a. við að þær hafi orðið fyrir verulegum áföllum vegna vanskila og gjaldþrota fiskeldisfyrirtækja.
    Sl. haust ræddi ég við fulltrúa Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Suðurnesja um möguleika á að lækka frekar raforkuverð til fiskeldisfyrirtækja. Þeirri málaleitan var hafnað. Nú er á hinn bóginn hafin könnun á því á hvern hátt megi best koma í verð þeirri umframorku sem við höfum í landinu og munum fyrirsjáanlega búa við um einhver ár. Ég mun leita sérstaklega eftir því hvort breytt viðhorf að þessu leyti megi nýtast fiskeldinu og þá ekki síst hvort unnt sé að semja um afsláttarkjör fyrir fleiri fyrirtæki en njóta þeirra nú þegar, þ.e. smærri stöðvarnar.