Aðgerðir í fiskeldi

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:44:00 (3794)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir frumkvæði í þessum efnum og enn fremur hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Ég deili þeim áhyggjum með fyrirspyrjanda að það er auðvitað afar alvarleg staða hversu illa raforkufyrirtækin hafa brugðist við þeirri eðlilegu málaleitan að lækka raforkuverðið til fiskeldisins. Ég vil sérstaklega nefna þetta því mér finnst líklegt og mjög margt benda til þess að í þeim uppskiptum sem nú eiga sér stað í fiskeldinu í kjölfar gjaldþrotanna muni það gerast að á rústum þeirra rísi litlar fiskeldisstöðvar heimaaðila, manna sem vilja starfa áfram í greininni í því skyni að efla atvinnu heima í héraði. Þess vegna er alveg sérstaklega þýðingarmikið fyrir þessar stöððvar að á þessum málum verði tekið af festu og ákveðni. Auðvitað er framkoma raforkuyfirvaldanna í landinu óþolandi varðandi verðlagningu á raforkunni. Þetta dæmi um fiskeldið er eitt af mörgum í því sambandi.