Staða leiguliða á bújörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:58:00 (3800)



     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Auðvitað er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að hagsmunir leiguliða og jarðareiganda stangast á. Á hinn bóginn liggur það ljóst fyrir að eftir að kvótinn var upp tekinn hefur hann verið metinn til verðs og í sumum tilvikum er hann jafnvel meiri hluti af jarðarverði þar sem gæði jarðar eru að öðru leyti rýr. Hér er því vissulega um hluta af jarðargæðum að ræða. Það hefur verið skoðun landbrh. og ég held að það hafi verið skoðun þingmanna líka að líta verði svo á að kvótinn verði eign jarðareiganda. Á hinn bóginn er það rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þessi kvóti er til kominn með ýmsum hætti. Stundum er það auðvitað svo að leiguliðar eldast á jörðum sem hefur haft það í för með sér að bú dragast saman. Undir öðrum kringumstæðum koma ungir og vaskir menn til starfa sem vilja auka umsvif sín og með þeim hætti hefur þeim tekist að auka verðmæti jarðarinnar eins og hún er nú metin.
    Þetta er bara einn þáttur af þessu máli. Settar hafa verið ýmsar og mismunandi reglur um kvóta frá einu ári til annars. Sigurður Líndal prófessor hefur skrifað um það lærða ritgerð sem kemur bráðlega út. Má raunar segja að ýmislegt hafi verið í óvissu um framkvæmd fullvirðisréttarmálanna á undanförnum árum og hvort rétt hafi verið að þeim staðið og má vera að ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim efnum.